Hvað er "óháð" rannsókn ?

Ég rakst á neðangreinda frétt þegar ég kom heim eftir ferðalag norður í land á vef mbl.is.  Hún er frá því í gær, laugardag.

Óháð rannsókn staðfestir hlýnun jarðar

Ísinn á Grænlandi bráðnar æ hraðar. stækka

  Mynd: Ómar Óskarsson

"Óháð rannsókn hefur leitt í ljós að yfirborð jarðar hefur hlýnað á síðustu áratugum. Hún staðfestir því niðurstöður fyrri rannsókna sem efasemdamenn höfðu dregið í efa."  Áframhald þessarar stuttu fréttar hér.

Hvað er átt við með óháðri rannsókn ?  Fram kemur að hún hafi verið fjármögnuð úr ranni svokallaðra efasemdarmanna um loftslagsbreytingar. Þess vegna sé hún óháð !  Væri hún þá ekki óháð eða bjöguð kæmi fjármagnið frá sjóði sem opinberlega hefði sagt (væntanlega að afloknum rannsóknum) að loftslagsbreytingar væru yfirvofandi og einnig fram komnar sem rekja mætti til áhrifa mannsins ?

Ég fæ ekki séð að þetta fáist með nokkru móti staðist.  Rannsóknir sama hvaða nafni þær nefnast hljóta alltaf að vera óháðar í þessum skilningi svo fremi að niðurstaðan sé ekki pöntuð fyrirfram eða þegar rannsakendur eru svo vissir í sinni trú að aðferðum og meðhöndlun gagna sem og heimilda er miskunarlaust beitt í þágu óskhyggju um ætlaða niðurstöðu.  Í báðum tilvikum sést oftast fyrir slík óþokkavinnubrögð í hefðbundinni rýni fyrir birtingu nýrra rannsóknaniðurstaðna.

Í mínum huga er því ekki til neitt sem kallast "óháðar" rannsóknir og allra síst í veður- og loftslagsfræði.  

Þar fyrir utan er ekki þörf á viðamiklum rannsóknum til að komast að því hvort yfirborð jarðar hafi hlýnað á undanförnum áratugum eða ekki.  Nóg er einfaldlega að bera saman hitamælingarnar þá og nú og leggja saman fyrir alla jörðina.  Vissulega vantar á stórum svæðum samfelldar mælingar og allt það, en þær eru löngu kunnar og viðurkenndar aðferðirnar sem hægt er að nota til að geta í þær með þokkalegri vissu og fá þannig fram heildarmyndina. 

Ég er orðinn hundleiður á þessu tali efasemdarmanna þess efnis að vísindamenn hafi eitthvað illt í huga.  Að þeir lifi hálfgerðu sníkjulífi á rannsóknafé sem veitt er til þess að halda úti einhverri mynd af samhengi aukningar gróðurhúsalofttegunda sem valdi hækkun hita yfirborðs jarðar. Ef þetta værri allt rasastórt samsæri sem færi fram úti um allan heim, gert í þeim tilgangi einum að maka krókinn og blekkja og ljúga að heimsbyggðinni væri fyrir lifandis löngu búið að fletta ofan af því. 

En mér dettur ekki í hug að í hinum stóra hópi fólks sem leggur stund á loftslagsrannsóknir finnist innan um   ótrúverðugir einstaklingar, jafnvel óheiðarlegir sem hika ekki við að hagræða mælingum eða sannindum fyrir "málstaðinn".  Til þeirra sést sem betur fer fyrr en seinna og þeir gengisfella sjálfa sig með endurteknum digurmælum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er það ekki ákveðin huggun að "andstæðingar" hlýnunarkenninga séu loks að sjá ljósið?  Annars er ég sammála þér um að það er varla nokkuð til sem heitir óháð rannsókn í þessum geira sem er svo gegnsýrður af hagsmunum á báða bóga.

Það þarf annars ekki mikla rannsókn til að sannfærast um hlýnun. Hafi menn bara skroppið nokkrum sinnum til Grænlands í gegnum árin eins og ég, þá er það himinhrópandi staðreynd. Raunar þurfa menn ekki annað en að bera saman jöklaferðir hér heima á milli ára til að sjá muninn. Þar sem skálar voru í jökuljaðri fyrir 10 árum er nú mílnalangt klungur og grjóturð að jökulbrún.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.10.2011 kl. 03:19

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Jón Steinar, ég tel að það þurfi meira en þetta til að "andstæðingar" hlýnunarkenninga  sjái ljósið (eins og þú velur að orða það). Skoðaðu bara orðalag fréttarinnar - það er hálf kjánalegt og ýtir undir tal um hið svokallaða "climategate" gervi hneyksliið, sem var í raun bara stormur í vatnsglasi "efasemdamanna". En það má kannski taka undir að það er kannski ákveðin "huggun" að þessi rannsókn er samhljóða öðrum rannsóknum ("háðum" og "óháðum") varðandi hitastigsþáttinn, þó ekki hafi verið komið inn á aðra þætti.

Hitt er svo annað mál að mælingar og rannsóknir varðandi þessi fræði eru studd fjölmörgum og ólíkum gögnum sem benda í sömu áttina, þannig að samsærið þyrfti að vera risavaxið til að ganga upp - og það er ekkert sem styður þá samsæriskenningu. Í raun eru það ekki bara vísindamenn sem eru samhljóða varðandi fræðin, gögnin eru einnig samhljóða.

Nánar má lesa um gögnin í leiðarvísi um þessi mál á loftslag.is, leiðarvísirinn nefnist Efasemdir um hnattræna hlýnun – Hinn vísindalegi leiðarvísir - þar sem komið er inn á marga þætti þessarar umræðu - bæði gögnin og þátt "efasemdamanna" í umræðunni.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 08:53

3 identicon

Fáir efast um, að miðað við hitamælingar frá því um miðja 19du öld er hitastig við yfirborð jarðar að hækka. Sé aftur á móti miðað við áætlað hitastig við yfirborð jarðar á tímabilinu 1200 til 1500, er hitastig að lækka. Þá eru menn ekki á eitt sáttir um orsakir hlýnunarinnar. Sumir vísindamenn hafa bent á, að C2O sé svo lítill hluti af lofthjúpi, að aukning þess geti ekki verið orsakavaldurinn. Auk þess hefur verið bent á með rannsóknum á borkjörnum úr jöklum, að fyrst hlýnar við yfirborð jarðar og síðan - jafnvel löngu síðar - aukist C2O í lofthjúpnum, einkum vegna hlýnunar sjávar og aukinnar uppgufunar. Öll kurl eru því enn ekki komin til grafar í þessu ágreiningsmáli - frekar en ýmsum örðum ágreiningsmálum manna.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 24.10.2011 kl. 11:12

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Útfrá því (litla) sem ég hef kynnt mér varðandi þessa rannsókn þá koma þarna fram svör við þeirri gagnrýni „efasemdarmanna“ að hlýnun jarðar hafi verið ofmetin vegna ýmissa vafasamra mæliaðferða og meintrar þéttbýlishlýnunar. Flestallir viðurkenna hlýnun, en rannsóknin sýnir þvert á það sem sumir hafa fullyrt, að hlýnun jarðar er ekki ofmetin.

Um þetta má t.d. lesa hér: http://www.sciencedaily.com/releases/2011/10/111021144716.htm

Ekki er samt reynt að leggja mat á af hvaða völdum hlýnunin er, það er önnur saga. En tímarnir sem við lifum á eiga sér varla fordæmi í sögunni því varla hefur bruni jarðefna átt sér stað í þvílíkum mæli og nú og það eru eitthvað um 100 ár síðan að spáð var fyrir um þá hlýnun sem orðið hefur. Aukning C02 þarf því ekki að vera eftiráskýring. Það er alveg þekkt að C02 í andrúmslofti hefur aukist eftir að það hlýnar eftir lok jökulskeiða. Slík tilfelli eru bara alls ekki sambærileg okkar tímum.

Emil Hannes Valgeirsson, 24.10.2011 kl. 11:59

5 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Tryggvi:

Fyrst, þá skil ég ekki hvað þú ert að fara með því að nefna tímabilið 1200 til 1500 - ég man ekki eftir að hafa séð gögn sem styðja fullyrðingu þína um lækkandi hitastig síðan þá? Og alls ekki miðað við hitastigið í dag, sem allt bendir til að sé hærra á heimsvísu en var þegar miðaldahlýnunin var (sem er ekki á tímabilinu 1200 - 1500), sjá graf hér undir.

Það er nú ekki ágreiningsmál að CO2 hefur áhrif á hitastig, enda um gróðurhúsalofttegund að ræða - það þarf í sjálfu sér ekkert mikið af lofttegundinni í andrúmsloftinu til að hafa áhrif á hitastigið... Það er heldur ekkert ágreiningsmál að aukning CO2 í dag er af mannavöldum, mælingar staðfesta það. Sjá nánar, Mælingar staðfesta kenninguna

Mér þykir þessi umræða um mikið ágreiningsmál frekar þunn, enda virðist það að mestu vera tilbúningur "efasemdamanna" að um einhvern ágreining sé að ræða, sjá nánar, Samhljóða álit vísindamanna um hnattræna hlýnun

Hokkístafurinn hinn nýji (Mann og fleiri 2008). Hann sýnir hitastig síðustu 1800 ár. Rauða línan sínar beinar mælingar en ýmsar óbeinar mælingar (proxý) í ýmsum litum.

Nánar, Mýtan - Hokkíkylfan er röng.

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 12:30

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sælir.

Ég hef auðvitað ekki komist hjá því að fylgjast aðeins með málinu í erlendum miðlum.  Ég hef hvergi séð að þessi rannsókn sem farið hefur fram við Berkley háskóla og gengur undir nafninu BEST (Berkley Earth Surface Temperature) og er leidd af prófessor Richard A Muller  hafi verið kostuð af einhverjum svokölluðum efasemdarmönnum. Ég held að fjölmiðlar hafi fundið það upp.  Sjá hér http://berkeleyearth.org/Resources/Berkeley_Earth_Decadal_Variations.pdf

Niðurstaða þessarar skoðunar á gagnagrunnum leiða ekki neitt sérstakt í ljós, annað en lofthjúpur jarðar hafi hlýnað álíka mikið og menn hafa talið og fram kemur í hinum ýmsu hitaferlum sem við þekkjum. Þeir beita þó annarri aðferðarfræði við úrvinnslu á gögnunum en gert hefur verið hingað til sem er áhugavert.

Ég held að það sé best að bíða með að dæma þessa rannsókn þar til greinarnar hafa verið ritrýndar. Mér finnst það hafa verið fljótfærni af prófessor Muller að rjúka með þetta í fjölmiðla strax áður en niðurstöður ritrýni liggja fyrir. Auðvitað kann þetta að hrista upp í huga manna og það er eingöngu af hinu góða. Menn keppast við að rýna rannsóknaraðferðirnar  og komast þá etv. að einhverju nýju. Við hin höfum gaman af :-)

 Greinarnar umræddu eru hér:

 Um BEST á Wikipedia: http://en.wikipedia.org/wiki/Berkeley_Earth_Surface_Temperature

Sjálfur hef ég enga skoðun á þessu og ætla að bíða með að hafa hana að minnsta kost þar til ritrýni á þessum greinum liggur fyrir og málið fer að skýrast. Finnst þó niðurstaðan að hlýnunin sé ámóta og talið hefur verið hingað til ósköp eðlileg, enda er unnið úr sömu mæligögnum og gert hefur verið hingað til, þó svo úrvinnsluaðferðin sé aðeins frábrugðin. Annað mál er að fjölmiðlar hafa þyrlað upp miklu ryki um málið.

 ---

Ég kannast ekki við marga svokallaða "efasemdarmenn" sem efast um að lofthjúpurinn hafi hlýnað á undanförnum  150 árum.  Það held ég að sé viðurkennt af flestum. Hlýnunin er talin vera í skýrslu umhverfisráðuneytisins sem margir þekkja (ef ég man rétt) 0,72 gráður C.  Hvort sem þessi tala er 0,7° eða 0,8° skiptir engu máli. Það er þó rétt að gera sér grein fyrir að óvissan er nokkur, þannig að réttara er etv. að skrifa 0,72°  +/- 0,2°,   þ.e. breyting á bilinu 0,5 til 0,9 gráður.

Það sem ég hef hvergi fengið svar við er hve stór hluti af þessum ca 0,7 eða 0,8 gráðum er af völdum náttúrulegra breytinga, og hve stór hluti er af völdum losunnar mannkyns á koltvísýringi. Án þess að ég viti nokkuð um það, þá hef ég í mörg ár slegið því fram að um "helmingur" sé af völdum náttúrunnar, og um helmingur með hjálp okkar mannanna. Svo hef ég reyndar bætt því við að kannski sé "helmingur" einhvers staðar á bilinu 20% til 80%. Ég hef nefnilega ekki minnstu hugmynd um það, það viðurkenni ég fúslega, en þetta er bara mín skoðun.

(Þið megið gjarnan kalla mig efasemdarmann, því ég tek það alls ekki sem skammaryrði, nema síður sé   )

Nú varpa ég mjög einfaldri spurningu fram til ykkar.  Það er auðvitað mjög einfalt að svara henni, en rökstuðningur verður að sjálfsögðu að fylgja.

Spurningin er þessi:

Hve stór hluti í prósentum talið er hækkun hitastigs á undaförnum 150 árum af völdum náttúrunnar og hve stór hluti er vegna losunar manna á CO2?   Skekkjumörk?

Ef ég fæ óyggjandi svar við þessari einföldu spurningu, þá verð ég efasemdarmaðurinn  fjarska glaður.

Ágúst H Bjarnason, 24.10.2011 kl. 19:01

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst, þú verður að lesa þetta betur, en Charles G. Koch Charitable Foundation setti 150 þúsund dali í þessar rannsóknir, sem er tæplega fjórðungur fjárframlaga, sjá hér, http://berkeleyearth.org/donors.php (kemur líka fram í PDF skjalinu að fjárframlag hafi borist frá Koch) - Koch bræður er m.a. frægir "efasemdamenn" og einnig fyrir að styðja "efasemdamenn" um hnattræna hlýnun fjárhagslega, enda miklir hagsmunir fyrir þá að notkun olíu sé áfram eins og áður.

Mér þykja "efasemdamenn" nú vera nokkuð fljótir að afneita þessum rannsóknum, sjá t.d. WUWT (sem þú hefur margsinnis vísað til), sem virðist eiga eitthvað erfitt með þessar niðurstöður, sjá t.d. http://wattsupwiththat.com/2011/10/23/sunday-silliness-the-new-crop/ - reyndar er þetta hálfkjánaleg færsla, þar sem reynt er að gera lítið úr Muller fyrir að koma ekki með "rétta" niðurstöðu í anda "efasemdamanna"... En því er líka velt upp á WUWT, að þessi grein sé ekki komin í gegnum ritrýniferlið (eins og þú kemur inn á Ágúst)... Persónulega finnst mér það nú ekki skipta aðalmálinu, enda ekkert nýtt í þessum niðurstöðum, kannski spurning hvort þetta sé nokkuð sem máli skiptir fyrir fræðin í sjálfu sér, enda ekkert nýtt sem kemur þarna fram.

Anthony Watts (WUWT) hefur m.a. tekið Ragnar Reykás á þetta (nokkuð fyndið að lesa hvernig hann gjörsamlega skiptir um skoðun):

Anthony Watts – March 2011:

“And, I’m prepared to accept whatever result they produce, even if it proves my premise wrong. I’m taking this bold step because the method has promise. So let’s not pay attention to the little yippers who want to tear it down before they even see the results.”

Anthony Watts, October 20, 2011:

“This is sad, because I had very high hopes for this project as the methodology is looked very promising to get a better handle on station discontinuity issues with their “scalpel” method. Now it looks just like another rush to judgement, peer review be damned.”

En hér er m.a. mynd þar sem munurinn á þessum "nýju" rannsóknum er borið saman við aðrar rannsóknir:

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 20:01

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst:

Á loftslag.is má  lesa um grein þar sem reynt er að meta geislunarálag af CO2 og í greininni sem vísað er í er talið að aukning á CO2 í andrúmsloftinu sé um 80% af geislunarálaginu, sjá <a href="http://www.loftslag.is/?p=11827">Hvernig CO2 stjórnar hitastigi jarðar</a>. 

Í skýrslu IPCC frá 2007 <a href="http://www.ipcc.ch/publications_and_data/ar4/wg1/en/faq-9-2-figure-1.html">sjá FAQ 9.2, Figure 1</a> er mynd sem sýnir muninn á líkanakeyrslum með og án gróðurhúsaáhrifa (sjá t.d. Global niðri til vinstri). Þar sýnist mér að 90% líkana sem skoða áhrifin ÁN aukinna gróðurhúsaáhrifa sýni nánast sama hita og var um 1900 (+/-0,1°C sirka). Ég skil það sem svo að þar með sé nánast öll sú hitahækkun sem hefur orðið frá árinu 1900 - af mannavöldum.

Fróðlegt væri að vita hvað vísindamenn, t.d. Einar, finnst um spurningu Ágústar  

Höskuldur Búi Jónsson, 24.10.2011 kl. 20:08

9 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Enginn efast um að dálítil uppsveifla, ein af mörgum, hefur verið í hitastigi síðustu öldina eða svo. Slíkar upp- og niðursveiflur hafa einkennt þróunina a.m.k. frá lokum síðasta jökulskeiðs. Það merkilega er, að menn virðast almennt telja að þessi sveifla sé eitthvað allt, allt annað en allar hinar sveiflurnar og muni halda áfram, ólíkt þeim. Ég vil enn og aftur minna á þá óumdeildu, rækilega fullsönnuðu staðreynd, að síðastliðin ca. sjö þúsund ár hefur jörðin verið að kólna og þorna hægt og hægt, þrátt fyrir allar sveiflur. Má t.d. vísa í niðurstöður Blytt og Sernander frá því um aldamótin 1900 sem síðan hafa verið staðfestar með öðrum aðferðum, t.d. borkjörnum. 

Mér er fyrirmunað að skilja, hvernig það getur verið eitthvað voðalega vont, ef svo ólíkega mundi fara, að hitastig mundi aftur hækka og úrkoma aukast til jafns við það, sem það var t.d. á dögum Forn- Egypta og fyrr, þegar Ísland var að kalla jöklalaust og stórir hlutar Sahara og annarra eyðmmarka grónir. Ef aftur hlýnar munu eyðimerkur að sjálfsögðu aftur gróa aftur upp að hluta og byggð í Evrasíu og Norður- Ameríku færast miklu norðar. 

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.10.2011 kl. 21:41

10 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur, munurinn er sá að núverandi uppsveifla hitastigs er tiltölulega mikil og er einnig vegna aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum (s.s. ekki náttúruleg sveifla, eins og þú ýjar að) - rannsóknir styðja þær niðurstöður og gögnin eru nokkuð samhljóða. Það að það hafi verið náttúrulegar sveiflur hitastigs áður, útilokar alls ekki að núverandi hækkun hitastigs sé af völdum aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum. Það er að mínu mati barnalegt að ætla að það verði bara jákvæð áhrif af völdum hækkun hitastigs, eins og Vilhjálmur virðist gera ráð fyrir. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að hækkun sjávarborðs, bráðnun jökla og íss og afleiðingar af þeim völdum verði bara jákvæð...það er bara óskhyggja í mínum huga.

Fróðlegt að sjá "efasemdamennina" á Íslandi halda áfram að "efast" um hlýnun jarðar af mannavöldum, þrátt fyrir geysilegt magn upplýsinga sem er í mótsögn við fullyrðingar þeirra og að það er margoft búið að hrekja málatilbúnað þeirra, sem verandi rangfærslur og/eða innihaldslausar staðhæfingar...og á stundum er málatilbúnaður þeirra bara einhverjar vangaveltur um ágæti eigin efasemda (þá væntanlega verið að ýja að gagnrýnislausri hugsun þeirra sem ekki "efast" eins og þeir).

En þetta er m.a. það sem að rökræða varðandi niðurstöður loftslagsvísindamanna þarf oft í tíðum að glíma við af hendi "efasemdamanna" (bæði hérlendis og erlendis), eins og t.d. einhverjar staðhæfingar um "rækilega fullsannaðar staðreyndir" sem hafa ekkert með málið að gera...

Sveinn Atli Gunnarsson, 24.10.2011 kl. 22:20

11 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Svatli minn sæll! Ef ég skil þig rétt ert þú að gefa í skyn að niðurstöður Blytt og Sernader séu á einhvern hátt umdeildar. Svo er ekki.

Vilhjálmur Eyþórsson, 24.10.2011 kl. 23:26

12 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

"Ég skil það sem svo að þar með sé nánast öll sú hitahækkun sem hefur orðið frá árinu 1900 - af mannavöldum." Skrifar Höskuldur Búi.
Þá er lítið eftir fyrir náttúruna og ekki möguleiki á kólnun næstu árin/áratugina.  Svarið við þessari spuringu er því mjög mikilvægt.

Fleiri skoðanir?

---

Einn höfundanna er Saul Perlmutter.  Þið hafið örugglega heyrt hans getið. Hann fékk nefnilega um daginn Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði ásamt Riess og Smidt.

Ágúst H Bjarnason, 25.10.2011 kl. 06:15

13 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Brian Schmidt heirtir hann auðvitað en ekki  Smidt.  Vantaði  ch í nafnið. Um Saul Perlmutter, Adam Riess og Brian Schmidt má lesa hér.    Þetta er nú auðvitað útúrdúr, en fleiri svör við spurningu minni í #6 óskast.

Hve stór hluti í prósentum talið er hækkun hitastigs á undaförnum 150 árum af völdum náttúrunnar og hve stór hluti er vegna losunar manna á CO2?   Skekkjumörk?

Ágúst H Bjarnason, 25.10.2011 kl. 06:23

14 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Vilhjálmur, þú skilur mig ekki rétt, prófaðu að lesa svarið aftur. Ég hef ekki sagt neitt um þá Blytt og Sernander, en ég segi þó að þú sért með staðhæfingar um "rækilega fullsannaðar staðreyndir" sem hafa ekkert með málið að gera...

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 08:36

15 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ágúst, svör við spurningu þinni skipta ekki aðalmálinu (svar Höskulds er með tilvísun í fræðin, skoðaðu heimildirnar). Þínar "vangaveltur" virðast þó bara vera til þess gerðar að dreifa málinu á dreif. Reyndar þykir mér þöggun þín varðandi "efasemdamanninn" Anthony Watts athyglisverð. Ertu að fjarlægjast hann með þessari þöggun - það væri ánægjulegt, enda hefurðu margoft vísað í síðu hans varðandi loftslagsmál...ég tel ekki að hann sé með góðar heimildir varðandi nokkuð í þeim fræðum.

Ágúst, þú gerir sjálfur ráð fyrir að hækkun hitastigs af mannavöldum geti verið á bilinu 20-80%. Hvar liggja þá mörkin að þínu mati fyrir því að draga úr losun af mannavöldum vegna hækkandi hitastigs af mannavöldum, eru það 66%, 45%, 80% eða hvað? Reyndar er það svo að þú leyfir þér að vera með skekkjumörk sem eru svo mikil að það er nánast ekki hægt að taka það alvarlega, en ætlast til þess að aðrir svari, tja hvernig orðaðir þú það:

Ef ég fæ óyggjandi svar við þessari einföldu spurningu, þá verð ég efasemdarmaðurinn fjarska glaður.

Þetta á lítið skylt við heilbrigðar efasemdir, heldur meira útúrdúrar til þess gerðar að dreifa málinu á dreif. Þegar málatilbúnaður "efasemdamanna" verður á annan hátt en að óska óyggjandi svara við spurningum varðandi vísindi, þá getum við kannski fundið grundvöll til að skoða málin saman... Þú ættir að vita það sjálfur, enda lesið margt, að það er ekki talað um óyggjandi svör eða sannanir í vísindum - þeir sem bíða eftir óyggjandi svörum, fá seint svör sem þeir sætta sig við. En að sjálfsögðu, getum við ályktað út frá núverandi vitneskju og rannsóknum að CO2 hefur áhrif á hitastig, en "efasemdamenn" virðast einblína á lægstu gildi fyrir jafnvægissvörun loftslags (http://www.loftslag.is/?p=9503) og álykta sem svo að vandamálið sé ekki til staðar, út frá einhverri óskhyggju eða vöntun á óyggjandi svörum...

Mér þætti fróðlegt að fræðimenn, eins t.d. Einar, myndu svara spurningu Ágústar (á óyggjandi hátt???)...

Sveinn Atli Gunnarsson, 25.10.2011 kl. 08:38

16 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Æ, ég nenni ekki að vera að pissa neitt utan í þessa umræðu!

Sigurður Þór Guðjónsson, 25.10.2011 kl. 14:43

17 identicon

Vísindarannsóknir eru oftast unnar fyrir fé frá rannsóknasjóðum, opinberum aðilum, eða hagsmunaaðilum. Dæmi um það síðarnefnda er t.d. þegar lyfjafyrirtæki borgar fyrir rannsóknir á virkni lyfs sem það þróar. 

Í fullkomnum heimi á fjármögnunin ekki að skipta máli, en þessum sem við búum í draga menn oft í efa niðurstöður sem eru fjármagnaðar af hagsmunaaðilum. Auðvita eru dæmi um að hagsmunaaðilar kaupi sér niðurstöður, en í raun er slíkt ekki vísindi, frekar spuni (Guðni Elísson kallar það einhversstaðar Tóbaksvísindi, - með tilvitnun í frægasta dæmið um slíkt athæfi).

Hjá BEST hópnum (Besta flokknum?) eru margir fjármögnunaraðilar, m.a. aðilar sem tengdir eru hinum svonefnda "afneitunariðnaði". En það er fjarri því að þetta sé eini styrktaraðilinn. Í þeirri grein frá BEST hópnum sem mér finnst safaríkust segir í þakkarorðunum:

"We thank many organizations for their support, including the Lee and Juliet
Folger Fund, the Lawrence Berkeley National Laboratory, the William K. Bowes Jr. Foundation,
the Fund for Innovative Climate and Energy Research (created by Bill Gates), the Ann and
Gordon Getty Foundation, the Charles G. Koch Charitable Foundation, and three private
individuals (M.D., N.G. and M.D.)."

(sjá http://www.berkeleyearth.org/Resources/Berkeley_Earth_Averaging_Process )

Þarna eru m.a. Koch bræður sem hafa m.a. stutt fjárhagslega ýmsar stofnanir sem eru hvað nátengdastar afneitunariðnaðinum.  En þarna eru líka alls ótengdir aðilar (t.d.  Bill Gates) svo þetta er ekki eitthvert rannsóknarverkefni á vegum afneitunariðnaðarins.  Efir sem áður er það augljóst að sumir tengdir áróðursmaskínu afneitunariðnaðarins (t.d. Watts) voru mjög ánægðir með BEST  þegar verkefnið fór af stað.

Ástæða þess að BEST hópurinn fékk fjárhagslegan og móralskan stuðning frá þessum hópum voru áreiðanlega  ýmiss ummæli sem Richard Muller einn sporgöngumönnum verkefnisins lét falla í upphafi þess. Hann talaði gjarnan eins og það væri allsendis óvíst að nokkuð vit væri í greiningum annarra. Dæmi eru ummæli í Guardian: "...we are bringing the spirit of science back to a subject that has become too argumentative and too contentious".  - Þetta mátti túlka sem yfirlýsingu um að fyrri greiningar væru ekki nógu vísindalegar.

Muller þessi er frægur vísindamaður og ekki óvanur deilumálum. Hann tengdist m.a. frægum deilum um útrýmingar  vegna loftsteina, og setti í því samhengi fram tilgátuna um Nemesis, hinn fjarlæga félaga sólarinnar. Einnig reyndi hann að útskýra 100 þúsund ára ísaldarsveifluna með sveiflum í brautarplani sólkerfisins.  Bæði góðar hugmyndir sem sennilega eru þó rangar (sem þýðir ekki að hann sé lélegur vísindamaður. - þvert á móti er hann stórsnjall)

Í BEST verkefninu eru hinsvegar ágætar greinar, og sú sem vitnað er til hér að ofan lýsir mjög áhugaverðri aðverð við að vinna úr hitagögnum. Sérstaklega finnst mér áhugavert hvernig þeir gera s.k. "homogenisation", sem er ákveðin   tegund af gagnaeftirliti og lagfærinum, sem kann á stundum að vera ógagnsæ. Þeir nota eina aðferð á öll gögnin og eru því í prinsippinu gangsærri.  Það er vel hugsanlegt að þetta verði stærsta framlag BEST hópsins til loftslagsfræða, - bættar aðferðir til að meðhöndla gögn.

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 26.10.2011 kl. 00:54

18 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mér sýnist að við Halldór séum nokkuð sammála varðandi þessa rannsókn, þ.e. að aðferðafræðin sé áhugaverð. Ég vil síður en svo lasta þá sem stóðu að rannsókninni og er viss um að þeir hafa unnið hana af heilindum og bestu getu eins og flestir vísindamenn starfa.

Allar rannsóknir og öll vinna kostar peninga og einhvers staðar hlýtur fjármagnið að koma frá. Hvaðan það kemur á ekki að þurfa að skipta máli. Ef það skiptir máli, þá er eitthvað mikið bogið víð þessi vísindi sem kallast loftslagsfræði. Þá beita menn aðferðum sem ég þekki ekki úr mínu umhverfi. Ég vil þó ekki trúa að svo sé. 

Niðurstöðurnar segja mér lítið annað en það sem allir vita, þ.e. að það hefur hlýnað álíka mikið og mælingar hafa sýnt og flestir þekkja. Niðurstöðurnar segja ekkert um það sem fólst í spurningu minni hér að ofan, nokkuð sem mér finnst skipta miklu máli, þ.e. hve stór hluti þessarar hlýnunar sé náttúrulegur.

Það er ljóst að margir telja að mestur hluti hlýnunarinnar sé af völdum losunar CO2, og að hlutur náttúrunnar sé nánast enginn. Ég verð að viðurkenna að það finnst mér ólíklegt, einfaldlega vegna þess að hitasveiflur, upp og niður, hafa ávallt verið. Kannski hafa þessir sem telja hana stafa af koltvísýringnum rétt fyrir sér og kannski ekki. En, það hlýtur að skipta verulegu máli hvort hlýnun af mannavöldum sé 0,8 gráður eða bara 0,4 gráður, svo dæmi sé tekið.

Einhvern veginn finnst mér svar við þessari spurningu sem brennur á mínum vörum ekki vera til. Mér þykir það verulega slæmt að menn skuli ekki geta fjallað um þessi fræði án skætings og öðru leiðinlegu sem fylgir, og því miður kastar það mikilli rýrð á þessi áhugaverðu vísindi. Skætingur, persónuníð og fleira í þeim dúr lýsa alltaf best innræti þeirra sem þeim vopnum beita, og að sjálfsögðu eru þeir til í báðum hópunum, þ.e. hlýnunarsinnum og efasemdarmönnum.  Því miður.  Maður verður stundum hundleiður og svartsýnn og nennir ekki að taka þátt í slíkum umræðum.

Með góðri kveðju,

Ágúst H Bjarnason, 26.10.2011 kl. 07:08

19 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Takk fyrir gott og fróðlegt svar Halldór. Alltaf fróðlegt þegar fræðimenn koma sínum sjónarmiðum að. Ég er alveg viss um að rannsóknin er unnin af heilindum, eins og á við um all flesta vísindamenn, hvaðan sem féð kemur, hvort sem það er frá þekktum "efasemdamönnum" (eins og Koch bræðrum) eða frá "óháðum" aðilum - eins og hvortveggja var tilfellið hjá BEST-hópnum. Stundum koma þó fram rannsóknir sem eru illa gerðar - og höfum við m.a. bent á ýmislegt þess háttar úr ranni "efasemdamanna" á loftslag.is (stundum vel stutt fjárhagslega af afneitunariðnaðinum). Yfirleitt er hægt að hrekja þannig málatilbúnað - hvort sem það eru vísindagreinar eða bara almenn umfjöllun um vísindin - til föðurhúsanna með rökfærslum og tilvísunum í vísindin sjálf.

Mér þykir persónulega ekki ýkja mikið til þessarar rannsóknar koma, þó svo hugsanlega megi finna undirkafla sem eru fróðlegir varðandi meðhöndlun gagna. Mín skoðun byggir fyrst og fremst á því að mér þótti illa af stað farið hjá Muller (og félögum) og sú staðreynd að það kemur þannig séð ekki neitt nýtt fram í þessari rannsókn - enn þá jafn hlýtt og áður, þrátt fyrir stóru orðin hjá ýmsum. En kannski gott að einhverjir úr afneitunariðnaðinum þurfi að taka einhver stór orð tilbaka (þó ekki eigi það við um Watts sem hefur nánast afneitað fyrri orðum sínum varðandi þessa rannsókn - ekki síður en rannsókninni sjálfri - m.a. með persónulegu níði um Muller - sjá tengil í athugasemd 7).

Þessi rannsókn kermur í raun ekkert inn á hversu mikill hluti hlýnunarinnar er af náttúrulegum völdum eður ei, heldur er einungis staðfesting (fyrir þá sem það þurftu) að það sé að hlýna - aðrar rannsóknir taka á hinu atriðinu (alls ekki á einhvern óyggjandi hátt um hversu mikið nákvæmlega - en þó innan þess ramma að hægt er að draga einhverjar ályktanir af heildargögnunum). Við vitum að það eru náttúrulegar sveiflur í hitastigi, sem á stundum fela hlýnunina af mannavöldum - bæði með sveiflum í hitastigi upp og niður. Það hefur á stundum verið nýtt af "efasemdamönnum" (afneitunarsinnum) til að rangtúlka gögnin og tala um kólnun sem ekki er til staðar eða um að hafísinn sé ekki að bráðna (svo einhver dæmi séu tekin), þrátt fyrir að gögnin sýni allt annað. Þegar "efasemdamönnum" er bent á slíkar rökvillur, þá virðast þeir ekki alltaf taka það vel upp. Þ.a.l. getur umræðan oft á köflum orðið beinskeitt - enda virðis mörgum afneitunarsinnum í mun að gera lítið úr þeim sem vilja fjalla um vísindin á málefnalegan hátt og sumstaðar er litið á það sem sjálfsagt mál að persónuleg níð og ómálefnalegar athugasemdir séu látnar óátaldar ef það kemur úr "réttri" átt að mati viðkomandi...það er jafn ómálefnalegt og að stunda það sjálfur að mínu mati og ekki þeim sem það stunda til framdráttar...

Sveinn Atli Gunnarsson, 26.10.2011 kl. 09:42

20 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ágúst:

Þú virðist gleyma því að náttúruleg fyrirbæri sem hafa áhrif á loftslag eru í niðursveiflu - sólvirkni hefur ekki verið jafn lítil og í upphafi síðustu aldar, enn er jörðin að fjarlægjast sólina (Milankovich sveiflur). ENSO, PDO og AMO eru í raun sveiflur sem dreifa hitanum um, en eru ekki í sjálfu sér geislunarálag þannig að  þær skýra bara skammtímasveiflum (ef ég skil fræðin rétt - má leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál). 

Því er það svo að náttúruleg ferli vinna að því að kæla jörðina nú um stundir - þrátt fyrir það er hitinn í hæstu hæðum. Samt finnst þér það ekki lógískt að ætla að mestöll hlýnunin síðustu öld eða svo sé að mestu af mannavöldum.

Hvaða náttúrufyrirbæri (annað en maðurinn) telur þú að sé að hita jörðina eiginlega?

Höskuldur Búi Jónsson, 26.10.2011 kl. 11:53

21 identicon

Varðandi spurninguna um hversu mikil áhrif losun CO2 hefur haft á hlýnunina og hver sé hlutur annarra þátta, þá má nálgast þetta á nokkra vegu.

Fyrst má spurja sig hvaða breytingar hafi orðið á geislunarþvingun (e. radiative forcing) og hver þáttur CO2 sé í því. Ágæta samantekt er að finna í WG1 hluta AR4 skýrslu IPCC (2007), mynd TS-5 (http://www.ipcc.ch/publications_and_data/ar4/wg1/en/figure-ts-5.html). Þarna má sjá að CO2 er um 1.66 W/m2, önnur gróðurhúsagös bæta við um 1.3 W/m2 til viðbótar, en frádráttarliðir vega á móti og heildarniðurstaðan er 1.6 W/m2. Það er áhugaverð tilviljun að loka niðurstaðan sé svo nærri framlagi CO2. Hinsvegar er mikilvægt að skoða óvissuna á þessum tölum, óvissan á lokatölunni er þannig miklu meiri en óvissan á framlagi CO2. Þyngst í óvissumatinu vegur takmarkaður skilningur á óbeinum áhrifum agnaúða á ský og hversu miklu sólarljósi þau endurvarpa.

Á þessum mælikvarða má sjá að áhrif CO2 eru verulega stór hlutfall af heildarmyndinni, ef tölurnar við hliðina á myndini eru bornar saman án tillits til formerkis er CO2 stærst. En vegna þess að sumar eru jákvæðar og aðrar neikvæðar er lítið vit í að taka hlutfall CO2 af summuni. Það segir ekki mikið.

Annað atriði er að manngerðir þættir eru mun stærri en sá eini náttúrulegi sem er á myndinni, þ.e. sólarsveiflur. Myndin sýnir ekki áhrif eldgosa, sem eru nokkur fyrir stærri gos, s.s. Pinatúbó, El Cichon ofl. Stórgos, sérstaklega í hitabeltinu geta haft áhrif á veðurfar í nokkur ár.

Næsta spurning er hvort þessi aukning í geislunarþvingun hafi leitt til hlýnunar, og hvort sú hlýnun hefði ekki bara átt sér stað eftir sem áður. Til þess að skoða það væri best að geta borið saman eitt stykki jörð þar sem aukin gróðurhúsaáhrif hefðu ekki átt sér stað, við okkar jörð þar sem slíkt gerðist. Þar sem slíkt er ekki mögulegt verðum við að láta okkur nægja að bera saman líkanreikninga. Hægt er að keyra líkön þar sem geislunarálag breytist að náttúrulegum völdum (Sól + Eldgos) og einnig af mannavöldum . Niðurstöðurnar má svo bera saman við það sem fæst ef áhrifum manna á geislunarjafnvægið er sleppt.

Dæmi um slíkan samanburð má sjá á mynd 9.5 í WG1 bók AR4 (http://www.ipcc.ch/publications_and_data/ar4/wg1/en/figure-9-5.html). Þar sést að með auknum gróðurhúsaáhrifum tekst líkönunum (að meðaltali) að fylgja hlýnuninni, en ef bara náttúrulegu þættirnir eru notaðir þá skilur með líkönum og okkar raunveruleika einhvertímann á tímabilinu 1960 - 1980.

Það má segja margt um þessa mynd, hún sýnir m.a. hversu vel eða illa líkönum ber saman (þetta er byggt á "state-of-the-art" upp úr aldamótum). Samanburðurinn er verri innan áratugar en yfir nokkra áratugi. Það er áhugavert að velta fyrir sér mismun milli líkana og milli raunverulegrar þróunar og líkana. Það má spurja sig hversu nærri líkön geti farið því að herma smáatriði hitaþróunar. Fyrir áratugi og styttri tímabil er innri breytileiki loftlags hugsanlega kaótískur, eða janfvel slembikenndur. Ef svo er setur náttúran okkur einhver mörk um það hversu nákvæmlega er hægt að herma hitaþróun milli ára eða innan áratugs (1 -2 ?). Rannsóknir á sviði áratugaspáa eru ekki langt komnar en munu vonandi bregða birtu á þetta.

Eins er mikilvægt að muna að hlýnunin í líkönunum er ekki bara viðbrað við ytri þvingun heldur skiptir líka máli hvernig kerfið bregst við hlýnun (gagnvirk svörun, t.d. hafís, snjóþekja og allt það). Einnig þarf að hafa í huga hvað hlýnunina í líkönunum varðar að ólíkar þvinganir hafa líka mismunandi áhrif í hitabelti og utan þess, á heimskautasvæðum og utan þeirra, osfrv. Það er því ekki gagnlegt að reikna hlutfallsleg áhrif einstakra þátta í hlýnuninni á hnattræna vísu.

Niðurstaðan er því þessi: Hægt er að segja að CO2 sé stór hluti af manngerðum breytingum á geislunarjafnvægi, og án þessara breytinga er afar ólíklegt að hlýnun síðustu áratuga hefði átt sér stað.

Það má sjálfsagt nálgast þessa spurningu úr annarri átt, ræða jafnvægissvörun, hnattrænt orkujafnvægi (og ójafnvægi), en þetta svar nægir í sjálfu sér.

Halldór Björnssn (IP-tala skráð) 26.10.2011 kl. 20:18

22 Smámynd: Loftslag.is

Það er mjög ánægjulegt að okkar mati að bæði Halldór og Einar taka í raun undir með það sem við höfum skrifað á loftslag.is - enda vísindin nokkuð skýr (ef svo má að orði komast) hvað varðar aukin gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum og hækkun hitastigs á síðustu áratugum, mælingarnar, gögnin og rannsóknirnar nokkuð samhljóða um þær loftslagsbreytingar sem eru að verða og eru að mestu leyti af mannavöldum.

Mbk.

Sveinn Atli og Höskuldur Búi

Ritstjórn loftslag.is

Loftslag.is, 27.10.2011 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 1786507

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 69
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband