Myndir frá NA-hálendinu 9. ágúst

MODIS 9Agust2012_1330.png

Allar aðstæður voru hagstæðar til að fá háan hita austanlands í gær og komst hitinn eins og kunnugt er í 28,0°C á Eskifirði*.  Munaði þar ekki hvað síst um sterkt sólskinið allan liðlangan daginn.

Meðfylgjandi tunglmynd frá MODIS sem tekin var kl. 12:30 í gær sýnir vel að heiðríkja var um allt norðaustanvert landið.  Í snarpri suðvestanáttinni leystust öll ský upp handan jökla. En þá má líka sjá sandstróka tvo norðan Vatnajökuls.  Annan og meiri af þekku uppblásturssvæði af aurum Jökulsár á Fjöllum norðan svokallaðs Holurhrauns.  Hinn er norðar þar sem sandurinn nærri Dyngjufjöllum hefur tekist á loft.  Veðurstöðvar gáfu enda upp mistur í lofti síðdegis í gær.  Hins vegar blés ekkert við Hálslónið eins og kannski mátti reikna með.  Það er orðið fullt, en staðan hefði verið önnur hefði þetta veður gert fyrr í sumar t.a.m. í júní.  En hinir váttumiklu aurar Jökulsár leggja eflaust til mesta efnið í uppblástur í þurrum SV- og S-vindi.

Sandgeirarnir sjást e.t.v. enn betur á rauð/grænu útfærslu myndarinnar.  Á henni sést snælínan í Brúarjökli og Dyngjujökli (t.v.) ansi vel.  Ofan hennar er hvítur og einsleitur snjór liðins vetrar en neðan hennar aurugur jökulís sem bráðnað hefur ofan af.  Mér sýnist snælínan veri komin langleiðina upp í 1.300 metra hæð á þessum slóðum og ljóst má vera að bráðnun hefur verið mikil síðustu dagana.

MODIS 9Agust2012_1330_græn.pngTalandi um bráðnun og Jökulsá á Fjöllum er hún í miklum ham eftir hlýindi í gær.  Vatnið er tæpan sólarhring niður að Grímsstöðum og þar stefnir rennslið óðfluga í 800 rúmmetra á sek. en það er með allra mesta móti.  Nú væri gaman að vera við Dettifoss og sjá hann í þessum ham.  Til samanburðar komst rennslið aldrei yfir 600 rúmmetra í fyrrasumar á mælinum við Grímsstaði.    Alveg má reikna  með áframhaldandi miklu rennsli næstu dagana á meðan hlýindin haldast.

 

* Ég gaf lesendum færi á að giska á þá veðurstöð sem ætla mætti að hitinn yrði hæstur.  Ekki var gefinn kostur á Eskifirði, en Neskaupsstað og Seyðisfirði.  Flestir giskuðu á Seyðisfjörð og sjálfur var ég helst á því að þar færi hitinn hæst.  Byggði það á vindátt og styrk vindsins og þar með getuna til niðurstreymis loftsins.  En vitanlega var á endanum aðeins tilviljun hver af mælunum í fjarðarbotnum á norðanverðum Austfjörðum yrði á toppnum!  Athyglisvert var líka að sjá að mælirinn úti í Bjarnaey við utanverðan Héraðsflóa skyldi komast í hóp efstu stöðva.  Þar stóð greinilega hlýr strókurinn ofan af Fagradalsfjöllum þeim hinum sömu sem Hellisheiði eystri liggur um yfir á Vopnafjörð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hingað til hefur ekkert leirfok orðið við Kárahnjúka, nema staðbundið fjúk í nokkur skipti sem ekki hefur gætt annars staðar. Nú er kominn 5 ára reynslutími. 

Mistrið var töluvert hér á fjörðum í Fjarðabyggð seinnipartinn í gær og stundum var skyggnið ekki nema 2-3 km.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.8.2012 kl. 11:03

2 identicon

Hér má sjá mynd frá sama tíma og gervihnattamyndin.  Fokið af leirunum norðan Dyngjujökuls sést vel:

http://vedur2.mogt.is/kverkfjoll/webcam/images/nordur/m120810090024898.jpg

Fylgjast má með snælínunni (og öðru) hér:

http://vedur2.mogt.is/kverkfjoll/webcam/test.php

kv.

Björn

Björn (IP-tala skráð) 11.8.2012 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 87
  • Frá upphafi: 1786526

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 78
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband