Vegið að Nóbelsveðlaunahafanum

al_goreÞað hefur vakið nokkra athygli að skólastjóri nokkur í London fékk dómstól þar  í landi  til að dæma að hinni  þekktu mynd Al Gore's væri bæði farið með ýkjur og hræðsluáróður.  Egill Helgason hefur m.a. gert þennan dóm að umtalsefni og fékk í viðtal Hannes Hólmstein Gissurarson í Silfri sínu sl. sunnudag.  Frétt um málið í blaðinu The Evening Standard má lesa hér.

En um hvað snýst þetta sérkennilega dómsmál ? Misvísanir og rangfærslur Al Gores eru sagðar vera 9 talsins.  Ég ætla hér að líta aðeins á þessi 9 atriði:

 

1. Rangfærsla.  Gore heldur fram að hækkun sjávarborðs muni verða allt að 6 metra í nálægri framtíð.

Dómurinn segir þessa staðhæfingu ber vott um hræðsluáróður, þar sem þetta mikil hækkun verði á mörgum öldum hið minnsta.

Hér verð ég að taka undir gagnrýni.  Sjálfum þótti mér þessi staðhæfing vera versti galli myndarinnar þar sem skorti dálítið upp á raunveruleikatengsl.  Gore byggði á eldri útreikningum, á því hve vatnsmagnið er mikið sem bundið er í jöklum heimsins, væri því dreift jafnt yfir öll heimshöfin. Álitið er að hækkun heimshafanna hafi numið 12 til 22 sm síðustu hundrað árin.  Það tekur vatnsforða Grænlandsjökuls margar aldir að bráðna að fullu í hlýrra loftslagi.  Meira munar þó um rúmmálsaukningu heimshafanna við hækkandi sjávarhita.

2.Rangfærsla.  Fram kom í myndinni að nú þegar hafi íbúar verið fluttir frá láglendum eyjum í Kyrrahafinu vegna hækkunar sjávarborðs.

Dómurinn segir þetta reginfirru.

tuvaluEkki hef ég hugmynd um það hvort eða með hvað hætti hækkað sjávarborð hafi raskað búsetuskilyrðum smáeyjanna í Kyrrahafinu eða einhverjir hafi þurft að yfirgefa eða flytja sína búsetu beinlínis vegna hækkaðrar sjávarstöðu.  Á fjölmennari og afar þéttbýlum svæðum t.d. í Bangladesh hefur hækkandi sjávarstaða m.a. haft þau áhrif að flóðin í Ganges nærri ósum verða meiri það sem flóðvatnið nær síður að renna sína leið vegna fyrirstöðu hækkandi sjávarborðs.

3.Rangfærsla.  Golfstraumur hægir mjög á sér eða stöðvast.

Dómurinn heldur fram að að ólíklega muni Golfstraumurinn stöðvast, en við hlýnun gæti hann hægt á sér.

Þarna verður Gore að teljast óheppinn, því á síðustu þremur árum eða þar til í sumar var umræðan um stöðvun Golfstraumsins mjög hávær.  Þessi kenning varð lífseig eftir óburðugar rannsóknir hinna svokölluðu Southampton-haffræðinga sem byggðar voru á hæpnum gögnum.  Þó svo að kenningin hafi verið gagnrýnd mjög frá upphafi, var skaðinn skeður.  Fjölmiðlar heimsins gerðu þessari einu rannsókn óþarflega mikil skil enda niðurstöðurnar róttækar og með vissan heimsendasvip. IPCC telur nú að líklega hægi eitthvað á hringrás heimshafanna og þar með Golfstraumnum til ársins 2100, en óvissa eðlilega mikil hvað þennan þátt varðar.  Þessi árin flytur Golfstraumurinn meiri varma norður á bóginn en verið hefur lengi. 

4. Rangfærsla.  Gore sagði í myndinni að mjög gott samhengi væri á milli koltvísýrings og hitastigs  síðustu 650.000 árin.

Dómurinn telur að þarna hafi forsetinn fyrrverandi tekið of stórt upp í sig þegar línuritin eru skoðuð nánar.

Það er að sjálfsögðu matsatriði hvað telst vera mjög góð fylgni og hvað ekki.  Fylgni hitastigs og CO2_650000koltvísýrings fyrir þetta tímabil er nefnilega sérlega góð ef litið er skiptingu á milli  tímabil ísalda og hlýskeiða.  Það frávik sem sker mest í augu ef ég man þessa mynd rétt er um 1000 ára tímabil fyrir um 11.000 árum síðan sem kallað er Younger Dryas.  Þá var ísöld og ljúka en talið er að gríðarlegt ferskvatnslón framan við jökulsporð N-Ameríku hafi tæmst í einum vettvangi.  Við það jókst ísmyndun í Atlantshafinu og framsókn hlýskeiðisins, sem við lifum nú á, tafðist um ein 1000 ár af þessum sökum eins og fyrr greinir.  Koltvísýringur átti þarna engan þátt eða í það minnsta mjög lítinn.  Meira máli skiptir í mínum huga að þekkja orsakir þess að frávik verða á fylgni heldur en að línur koltvísýrings og hita fylgist í einu og öllu að.

5.rangfærsla.  Jökulhettan á Kilimanjaro er að hverfa vegna hlýnunar loftslags.

Dómurinn heldur fram að ekki sé hægt með vissu að segja að rýrnun jökulhettunar sé af völdum hlýnunar.

Kilimanjao.IceGore hélt reyndar þessu nú ekki blákalt fram, en tók þetta fræga tákn Afríku sem dæmi um hvað gæti gerst, gengju spár eftir um hlýnun lofthjúps af mannavöldum.  Þegar jöklar eiga í hlut verðum við að hafa hugfast að afkoma þeirra ræðst af hitastigi, en ekki síður úrkomunni eða öllu heldur snjókomunni.  Nýlegar rannsóknir benda einmitt til þess að jökulhettan á Kilimanjaro hafi einmitt rýrnað á síðustu 100 árum frekar vegna minni úrkomu, en aukins hita í þessari hæð.  Hins vegar greinir vísindamenn á um það hvort aukin gróðurhúsaáhrif eigi þátt í minnkandi úrkomu, en þetta 5.895m háa fjall er skammt sunnan miðbaugs og tilheyrir veðurfarslega því til hitabeltisins.

-------- 

Mynd Gore´s er ekki gallalaus frekar en flestar þær áhrifamiklu heimildarmyndir sem gerðar eru í dag.  Hún er hinsvegar ágætis hugvekja fyrir heimsbyggðina og dregur á raunsannan hátt fram ýmsar þær breytingar sem nú þegar hafa komið fram og verður vart horft fram hjá, s.s. stórkostlega rýrnun Alpajökla og stöðugt minni hafís í Norður-Íshafinu í sumarlok.

Höfum þó hugfast að vísbendingar eru vísbendingar, sannanir fást seint eða aldrei, enda náttúran og ferli hennar langt því frá að vera beinlínuleg stærðfræði.  Þekking á orsakasamhengi hlutana færir menn hins vegar nær hinu sanna í þessum efnum.

Hinum fjórum "ákæruatriðunum" verður gerð skil i næsta pistli


Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sumsstaðar er um landsig að ræða en það er umsvifalaust fært á reikning gróðurhúsaáhrifanna. Það sem lengi hefur farið í taugarnar á mér í sambandi við kenninguna um hlýnun af mannavöldum er hve illa er brugðist við ef hún er dregin í efa. Þess vegna tek ég undir hvert orð Hannesar H.G. Með því er ég ekki að segja að ég hafni kenningunni alfarið, enda hef ég ekki nokkrar forsendur fyrir því, heldur einungis að lýsa efasemdum í ljósi óvissuþátta sem túlkaðar eru sem staðreyndir af hálfu þeirra sem trúa öllu sem heilögum sannleika. Og sá punktur að ef mannkynið hafi peninga aflögu, þá væri þeim betur varið til hjálpar fátæku fólki í þriðja heiminum, en til þess að fjármagna kostnaðarsamar mótvægisaðgerðir í algerri óvissu um árangur

Gunnar Th. Gunnarsson, 16.10.2007 kl. 15:26

2 identicon

Það mætti segja mér það að það skipti líka máli varðandi ýmsar breytingar á jörðinni að mannkyninu hefur fjölgað úr 2,5 milljörðum árið 1950 í 6,5 milljarða árið 2005. Það fylgja vafalaust breytingar og vandamál þessum mikla mannfjölda.

Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 16.10.2007 kl. 16:03

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ég veit ekki hvort þú ert með dóminn sjálfan, en hér er hann sem word skjal  og hér sem pdf

Töluverð lesning.

Ágúst H Bjarnason, 16.10.2007 kl. 19:05

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það er ekki deilt um það að jörðin sé að hlýna. Hvað eru menn þá að reyna að sanna með því að benda á að jöklar séu að minnka? Að jörðin sé að hlýna?

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.10.2007 kl. 04:20

5 Smámynd: Einar Þór Strand

Annars er eitt sem er skrítið við að Gore fái friðarverðlaun og það er að barátta mankyns við að minnka losun á kolvíildi mun sennilega valda ófriði en ekki friði. Og því má reikna með að eftir 50 ár verði talað um ófriðarverðlaun Gore það er að segja ef það verður ekki komin ísöld.

Einar Þór Strand, 17.10.2007 kl. 08:51

6 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Einar Þór 

Eftir því sem þekking okkar er meiri, þeim mun betur er maður í stakk búinn að taka á vandamálum. Ætli það sé ekki m.a. vegna þess sem Al Gore og IPCC fengu verðlaunin. Þ.e. að koma þekkingunni um loftslagsvandann á framfæri við almenning. Ég myndi ætla að út frá þeirri þekkingu sem fyrir liggur yrði vandamálið stærra ef við gerðum ekkert. 

Annars tel ég myndina vera góða til síns brúks, þó í henni séu einhverjir punktar, sem hefði verið hægt að gera öðruvísi. Hún hefur, hvað sem öðru líður, leitt til umræðu um loftslagsvandamálið, sem er að mínu mati góðs viti. 

Sveinn Atli Gunnarsson, 17.10.2007 kl. 14:15

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála því Svatli, því mengun er raunverulegt vandamál, burtséð frá því hvort hún valdi hlýnun á jörðinni eða ekki.

Gunnar Th. Gunnarsson, 17.10.2007 kl. 14:47

8 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég hugsa að Svalti tjái hug nokkuð margra, þegar hann segir:

Eftir því sem þekking okkar er meiri, þeim mun betur er maður í stakk búinn að taka á vandamálum. Ætli það sé ekki m.a. vegna þess sem Al Gore og IPCC fengu verðlaunin. Þ.e. að koma þekkingunni um loftslagsvandann á framfæri við almenning. Ég myndi ætla að út frá þeirri þekkingu sem fyrir liggur yrði vandamálið stærra ef við gerðum ekkert.

Það verður að segjast, að þetta er rangt viðhorf. Al Gore og IPCC eru ekki að koma nytsömum upplýsingum á framfæri, heldur stunda þessir aðilar einhliða útgáfustarfsemi, sem réttilega hefur verið nefnt trúboð. Hin almenna hugsun hjá Svalta er auðvitað rétt, að fyllri upplýsingar leiða til betri þekkingar, en Al Gore og IPCC hafa engan áhuga á slíku.

Það að gera bara eitthvað, eins og Svalti telur til góðs, er heimskulegt og skaðlegt. Allir færustu vísindamenn heims eru þeirrar skoðunar, að hlýnun Jarðar sé lokið, í bili að minnsta kosti. Síðustu 10 árin hefur ekki hitnað, svo mælanlegt sé. Sú hlýnun sem varð frá Litlu ísöld um 1600 og fram til um 1997, var örugglega ekki af manna völdum. Þetta eru sannarlega staðreyndir málsins og að hefta iðnvæðingu og minnka vaxtarmöguleika jurtaríkisins eru skemmdarverk, sem koma verst niður á fátæku fólki um allan heim.

Loftur Altice Þorsteinsson, 17.10.2007 kl. 19:36

9 Smámynd: Einar Þór Strand

Svalti.

Í dag er þekking okkar það mikil að öfugt við það sem sagt er í mynd Gore þá veldur tvöföldun á CO2 ekki fjögra gráða hitnun heldur max 0,5 - 0,6 (og sennilega minna) það hefur ekki hitnað á suðurhveli jarðar og ísinn við suðurheimskautið hefur aldrei verið meiri en einmitt núna síðan mælingar hófust um 1970 ca.

Einar Þór Strand, 18.10.2007 kl. 17:27

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 80
  • Frá upphafi: 1786586

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 71
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband