Hundslappadrífa

Sannkölluð hundslappadrífa hefur verið annað veifið í höfuðborginni í dag, einkum þó í morgun.  Þetta skemmtilega veðurorð hundslappadrífa er einkar myndrænt og gefur vitanlega til kynna snjókomuflygsur á stærð við hundsloppu fremur en hundslappir.

Í Orðabók Menningarsjóðs segir að hundslappadrífa sé skæðadrífa, mikil og stórflygsuótt snjókoma í logni.

snjor"Fúlasti krapaýringur, kornelja- og hundslappadrífa af austri hafa skipst á um að hlaða niður snjó alla vikuna", segir í tímaritinu Bjarki sem gefið var út af Þorsteini Erlingssyni og Þorsteini Gíslasyni á Seyðisfirði um nokkurra ára skeið um aldamótin 1900.  Í þessu riti árið 1897 kemur orðið hundslappadrífa  fyrst fyrir á prenti samkvæmt ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.


Veðurskilyrðin sem verða að vera til staðar þegar snjókoman er stórgerð þegar hún fellur til jarðar, eru logn eða afar hægur vindur og eins verða snjóflygsurnar frekar stærri í rólegri snjókomu en ákafri.  Allt hangir þetta saman við samloðunareiginleika ískristalla.  Úrkoma fellur úr skýi, hér á landi ævinlega sem ískristallar sem hafa stækkað vegna árekstra sín á milli þangað til þyngdin yfirvinnur svifkraftinn eða loftmótstöðuna.  Hin fallandi snjóflygsa rekst á aðrar á leið sinni til jarðar og stækkar þá enn frekar. Eftir því sem hitastigið er hærra, þ.e. nær frostmarki því meiri eru samloðunareiginleikarnir.

Ef  fallhraðinn fer yfir ákveðið mark splundrast flygsurnar í smærri snjókorn.  Eins ef vindur er til staðar eða lóðstreymi í skýinu tætast snjókornin í sundur og falla til jarðar oft með sjálfum vindinum.

Hundslappadrífa er því ekki aðeins skilgreind gerð snjókomu heldur líka ákveðið veðurfyrirbæri.  Annars vegar  þegar snjóar úr  minniháttar  éljaskýjum líkt og í dag samfara hægum vindi eða úr gráblikubakka þar sem far loftsins þ.e. vindurinn einkennist af átakalausri mýkt og hitastigið við jörð nærri frostmarki eða jafnvel rétt ofan frostmarks.

Gaman væri að heyra ef einhver vissi meira um uppruna þessa orðs, en sá fróðleikur hefur vafalítið verið færður einhvers staðar í letur.

Ljósmyndin af hundslappadrífu er fengin af ágætum kennsluvef Arnar Óskarssonar kennara í Fjölbrautarskóla Suðurlands.


Athugasemdir

1 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Samkvæmt Vísindavef HÍ eigum við þó nokkur orð yfir snjó, sem fróðlegt er að skoða hér. Þar er þó ekki komið inn á uppruna orðanna. Eftirfarandi er tekið af síðunni:

"Hundslappadrífa er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni, einnig nefnd skæðadrífa eða logndrífa. Fyrir vestan er snjókoma í logni einnig nefnd kafaldsmyglingur, hjaldur, lognkafald eða ryk."

Í vefbók Eddu (Íslensk orðabók, 2002) má einnig finna orðin hrognkelsadrífu, kálfadrífu og snjókálf sem öll hafa sameiginlega útskýringu í orðinu skæðadrífu. Við virðumst því hafa ansi mörg orð yfir þetta fyrirbæri

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.10.2007 kl. 18:39

2 identicon

Það er einmitt,i þessa veruna ,sem við Íslendingar þurfum á að halda, til þess að vera meðvitaðir hvað þetta nú þýðir, öll gömlu veðurlýsinga-orðin sem við látum um munn okkar fara. Því nú er vetur KONUNGUR kominn til okkar.  Og hvernig ætlar hann að haga sér í vetur.Góður,harður,mildur,hryssingslegur,kaldur og svo frv.Þakka gott innlegg fyrir okkur hin. ( Ég er hrifnastur af KÁLFADRÍFU ef það fyki inn um gluggan eins og eitt til tvö læri,þá mun ég ekki sýta það.  Takk fyrir.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 01:17

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband