Íslenska rokið útflutningsvara ?

c_documents_and_settings_r14eisv_my_documents_my_pictures_mblblogg2_a380_flugvel.jpg

Það er bara fyndið að á meðan farþegaflug liggur niðri í rokinu skuli á sama tíma koma Airbus-vél af stærstu gerð hingað uppeftir til Íslands til æfinga og prófana í hliðarvindi. Og vélin fær að spóka sig í þokkabót nánast ein á Keflavíkurflugvelli.   Ég þykist vita að framleiðendur og hönnuðir þessarar véla hafi verið á útkíkki í nokkurn tíma eftir virkilega vondu veðri.  Í gær þegar veðurspár gáfu í skyn hvað verða vildi hér við Keflavík hefur verið drifið í að fljúga vélinni í veg fyrir óveðrið.

Vitanlega er þetta "undarlega háttarlag flugvélar um nótt" hluti af nauðsynlegum prófunum á þoli  áður verður farið að fylla Airbussinn af farþegum.  Þetta minnir á þegar Flugfélagið tók í notkun nýja gerð Fokkervéla líkast til 1992 eða 1993.  Þá fylgdu þeim sérfræðingar frá verksmiðjunum í Hollandi og voru íslensku flugáhöfnunum til halds og trausts.  Vélarnar komu um miðjan vetur, febrúar minnir mig beint inn í illviðrabálk.  Hollensku kennarnir þóttust góðir að hafa komist heilir heim eftir hristinginn og skakið í þeirra eigin vélum yfir Íslandi. en Fokkerarnir sýndu og sönnuðu eina ferðina enn hversu megnugar og öruggar þessar vélar eru fyrir íslenskar aðstæður.     


mbl.is Stærsta farþegaflugvél heims æfir aðflug á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Einar

Þú hefur kanski gaman af því að sjá inn í stjórnklefa Airbus 380. Smelltu þá hér.   

Taktu eftir öllum tölvuskjánum, og lyklaborðinu fyrir framan flugstjórasætið. Aðstoðarflugmaðurinn getur einnig dregið út lyklaborð, ef honum leiðist.  Ekkert stýri, aðeins lítil joystick eins og við heimilistölvuna. (Hvað skyldu flugmennirnir annars vera að gera í langflugi?)

Merkin frá stjórntækjunum í flugstjórnarklefanum (skrifstofu flugmannanna) fara beint inn á stýritölvu þar sem þau eru meðhöndluð og metin áður en þau eru send um merkjastreng eða ljósleiðara að litlum tölvum í stéli, vængjum og hreyflum. Þar er merkjum breytt í rafstraum fyrir tjakka og servómótora sem hreyfa vængbörðin o.fl.

Það sem er sérstakt við þessa "fly-by-wire" tækni er að tölvan metur hvort flugmaðurinn er að gera rétt og leyfir ekki stjórnboð sem stefnt geta flugvélinni í hættu, t.d. með ofrisi. Tölvan hefur sem sagt vit fyrir flugmanninum!

Litlir mótorar gefa síðan platmerki inn á stjórnpinnann, þannig að flugmanninum finnst hann vera að fljúga vél þar sem stálvírar liggja um trissur frá stýri að stjórnflötum. (Tactile feedback). Þannig finnur hann hvað tölvan er að gera og jafnvel titring frá vængbörðunum. Allt eins og í raunveruleikanum, en að hluta í sýndarheimi, eða hvað?

Eiginlega er þetta nánast fljúgandi tölva, eða þannig...   Enn eru hafðir flugmenn í sætunum þegar flogið er milli landa, að minnsta kosti er okkur talin trú um það.

Jæja, þetta er komið langt út fyrir veðurfræðina, en þessir koltrefja-vélfuglar fljúga jú um loftin blá, og stundum háðir veðri og vindum. 

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2006 kl. 16:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 9
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 1786254

Annað

  • Innlit í dag: 9
  • Innlit sl. viku: 68
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband