Er þá vatn á Mars eftir allt saman ?

polygon_nasa_226Ég er dálítið hissa á því hvað lending  Phoenix  geimfarsins á Mars  hefur fengið litla umfjöllun hér hjá okkur, en í fyrrinótt lenti farið nærri norðurskauti Mars og myndir tóku að berast.

Þær fyrstu og m.a. sú sem hér fylgir sýnir greinilegt mynstur í yfirborði sem minnir um margt á fyrirbæri sem okkur Íslendingum eru að góðu kunn, nefnilega melatígla eða frosttíglar eins og þeir eru líka oft kallaðir.  Slík fyrirbæri eru vel útskýrð og eru tilkomin  vegna frostverkunar vatns í jarðvegi.  Melatíglar eru t.a.m. algengir á ógrónum sífrerasvæðum (eða þar sem jarðklaki fer mjög seint) og má sjá víða á hálendinu og í fjalllendi almennt séð. 

Í ágripi að jarðfræði Íslands eftir Ara Trausta Guðmundsson segir á bls. 144: " Á melum renna steinar smám saman niður bungurnar sem rísa á þessum setsvæðum og setjast í dældir á milli þeirra.  Að löngum tíma liðnum hefur mest allt grjót lyfst upp á yfirborð melanna og raðast í tígla eða fleirhyrninga."

grot_esjunnar_Stefán BjarnasonHin myndin sýnir einmitt það sem um ræðir og hefur greinilega samsvörum við myndina frá Mars. Hún er fengin af bloggvef Stefáns Bjarnasonar og er ofan af Esju. 

Stjörnufræðivefurinn geymir gagnlegar upplýsingar um vatn á Mars, en fljótlega eftir uppgötvun reikistjörnunnar á 17. öld komu fram kenningar um ís á pólum Mars.

"Víða á yfirborðinu sjást ummerki fljótandi vatns á borð við uppþornuð stöðuvötn og árfarvegi. Kvíslamynstur og fínlegar hlykkjóttar rásir í flatbotna gígum benda sterklega til þess að vatn hafi einu sinni runnið um plánetuna.....Eins og aðstæður eru í dag á Mars getur vatn ekki runnið þar um í fljótandi formi. Hitinn er svo lágur og loftþrýstingurinn svo lítill að vatn getur aðeins verið á formi íss eða vatnsgufu. Þetta þýðir að í fyrndinni þegar fljótandi vatn var á Mars hlýtur lofthjúpurinn að hafa verið bæði þykkari og hlýrri en í dag.  

En hvert fór allt vatnið og hvað er mikið til af því? Talið er líklegt að það sé e.t.v. frosið einhvers staðar undir yfirborðinu og í pólhettunum. Samanlagt magn þess er óþekkt en með rannsóknum á ýmsum svæðum hafa menn áætlað að þar sé nóg vatn til að þekja plánetuna með 500 metra djúpu vatni."

Ef berast fleiri góðar myndir sem sýna frosttígla eða aðra kunnuga frostverkun vatns, mun þær styðja mjög við eldri kenningar þess efnis að vatnið á Mars sé að mestu bundið sem ís í jarðlögum og þá einkum við póla reikistjörnunnar.  

Tenglar

Frétt BBC hér

Mars á Stjörnufræðivefnum 


Athugasemdir

1 Smámynd: Þórhildur Daðadóttir

Þetta er mjög spennandi mál.  Og ég deili undrun minni með þér yfir því hvað lítið er fjallað um þetta hér.  Það varður spennandi að fylgjast með framvindunni.

Þórhildur Daðadóttir, 28.5.2008 kl. 10:37

2 Smámynd: Steinn Hafliðason

Já þetta er sérstaklega spennandi verkefni og tek undir með þér að það er furðulegt að það skuli ekki fá meiri umfjöllun. Ég held reyndar að fréttir af tækni og vísindum fái því miður ekki mikla lesningu.

Steinn Hafliðason, 28.5.2008 kl. 12:01

3 identicon

Einn greinilegur mismunur á þessum mynstrum á Mars og jarðneskum melatíglum. Grjótið á Mars er dreift um svæðið og er síður ofan í millirásunum eða hvað á að kalla jaðra tíglanna. En þetta eru bara fyrstu myndir og nú eiga vísindamenn NASA og kollegar þeirra vítt og breitt eftir að flokka og skilgreina upplýsingar, sem berast munu næstu vikur og mánuði ef allt fer að óskum.

Dr. Feelgood (IP-tala skráð) 28.5.2008 kl. 13:07

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Nasa-menn hafa sennilega kíkt á þessa bloggsíðu eða skoðað jarðfræðibók Ara Trausta því þeir eru komnir með þetta atriði á vefinn sinn: http://earthobservatory.nasa.gov/Newsroom/NewImages/images.php3

Emil Hannes Valgeirsson, 28.5.2008 kl. 16:06

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Íslenskir frost-tíglar eru oft þannig að grjótið rennur í leysingum niður í skurðina milli tíglana, þannig að þar myndast grjótgarðar. Á Mars er ekkert yfirborðsvatn og snjórinn á heimskautasvæðum er kolsýrusnjór. Hann bráðnar ekki, heldur breytist hann beint úr föstu efni í loftkennt (CO2), eða "sublimerar" (sublimate). Það er líklega þess vegna sem frost-tíglarnir gætu verið aðeins frábrugðnir á Mars, þannig að grjótið myndar ekki garða milli tíglana.

Ágúst H Bjarnason, 30.5.2008 kl. 09:17

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 79
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband