Loftslagsrannsóknir og jöklar á miðbaugssvæðum

Huascarán_Perú.pngMargar nytsamar upplýsingar um fornveðurfar hafa fengist frá ískjörnum jökulsvæða á pólsvæðum, bæði úr Grænlandsjökli og frá Suðurskautslandinu.  Minna hefur hins vegar farið fyrir rannsóknum á jöklum í nærri miðbaug í hitabelti jarðar.

picture_16_876151.pngLonnie Tompson í ríkisháskóla Ohio (sjá hér frekari upplýsingar)  hefur farið fyrir fjölmörgum leiðöngrum til að kanna ummerki veðurfarsbreytinga hátt uppi í fjöllum, m.a. í og við Huascarán jökulinn í Perú.  Fjallið er það hæsta í hitabeltinu, 6.768 m. Jöklarnir í hlíðum þessa tilkomumikla tinds í Andesfjöllunum eru reyndar fjölmargir og hafa staðið af sér allar veðurfarsbreytingar a.m.k. frá lokum síðustu ísaldar.  

Þessir jöklar eru þíðjöklar, líkt og þeir íslensku, en ekki gaddjöklar (þ.e. frost niður í gegn).  Ísótópamælingar eru því gagnslausar, en hins vegar geymir jökullinn vel föst efni. Í Huaskarán hefur fundist í borkjörnum lag af fínefni þar sem kornastærðin er minni en 1 míkrómetri og er þéttleikinn 150 sinnum meiri en annars staðar í kjarnanum.  Um 4.500 ár eru síðan þetta ryk féll á jökulinn.  Svo smágert svifryk getur borist í lofti langar leiðir, en böndin beinast að Afríku og Miðausturlöndum.  Ískjarni úr Kilimanjaro í Tansaníu inniheldur sama fínefni og er aldur þess svipaður og í Andesfjöllunum.

Álitið er að mikil þurrkatíð hafi herjað á norðanverða Afríku og í Miðausturlöndum á þessum tíma og leitt til jarðvegseyðingar og aukinnar tíðni sandstorma.  Norðaustan-staðvindarnir frá Afríku, þvert yfir Atlantshafið hafa síðan borið rykið yfir til S-Ameríku. 

Annar jökull í Perú, reyndar sá stærsti í hitabeltinu, Quelccaya sem er um 44 ferkílómetrar segir aðra sögu.  Nefnilega þá að um 700 árum fyrr hafi jökullinn ruðst fram yfir mýrlendi.  Fyrir 5.200 árum hefur því annað af tvennu gerst; úrkoman hefur aukist skyndilega og jökulkápan þykknað eða þá að það hafi kólnað nokkuð skyndilega og snælínan lækkað.

Ískjarnar, rannsóknir á lífrænu seti í vötnum og á hafsbotni gefa okkur stöðugt nýja og nýja bita í mynd loftslagsbreytinga, bæði staðbundinna og hnattrænna.  Um leið lærum við betur á þekkja kenjar veðurfarsins og það hvað breytingar geta verið örar ef út í það er farið.

picture_17_876340.pngFyrir um 5000 árum er álitið að hér á landi hafi verið lok mikils hlýskeiðs, þegar hlýrra var en síðar.  Tímabilið er stundum kallað birkiskeið hið síðara, veðrátta ver rök og hlý og birki óx langt upp á hálendið.  Hitaferilinn frá ísaldarlokum er fenginn frá Ágústi Bjarnasyni.  Sveiflur þær sem koma fram á miðbaug þurfa ekki endilega að endurspeglast í veðurfari utan hitabeltisins.  Hnattrænar breytingar sem koma fram á löngum tíma, m.a. vegna langtíma breytinga í virkni sólar geta haft ólíka verkun um hríð a.m.k. eftir því hvaða heimshluti er skoðaður.

Að sama skapi munu hnattrænar breytingar vegna aukinni gróðurhúsaáhrifa ekki koma eins fram alls staðar á jörðinni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 86
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 77
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband