Þá uxu pálmatré á Norðurskautinu

Picture 244Frétt af fornloftslagsrannsóknum sem sögð var á Bylgjunni í dag og síðan á visir.is, fékk mig til að klóra mér dálítið í kollinum  !

Sagt var frá því að niðurstöður nýrra rannsókna bendi til þess að pálmatré hafi vaxið á norðurskautinu (Norðurskautslandinu ?? segir reyndar í fyrirsögninni)  fyrir um 50 milljónum ára og það sétil marks um að þau veðurfarslíkön sem notuð séu í dag séu stórlega gölluð. 

Ha.... segi ég nú bara.  Hvert er samhengið  ?  Eins og svo oft áður  þegar furðufréttir eru sagðar af þessum vattvangi reynir maður að grennslast fyrir um upprunann.  Hann fannst á endanum.  Nokkrir hollenskir 65_Myr_Climate_Changevísindamenn við Háskólann í Utrect sem er eru sérfróðir um það tímabil jarð- og loftslagssögunnar sem kallast upp á ensku  Paleocene-Eocene Thermal Maximum.  Þeir hafa verið að skrifa bréf og greinar í Nature og systurritið Nature Geoscience þar sem sagt er frá túlkun þeirra á ævagömlu seti á hafsbotni sem álitið er frá þessum tíma.  

Við verðum að hafa hugfast að fyrir 50 milljónum ára voru risaeðlur uppi, reyndar að byrja að líða undir lok ef þær voru bara ekki nokkurn veginn útdauðar þá þegar:).  Elsta berg Íslands er ekki nema um 16 miljónir ára og síðustu ísöld lauk fyrir um 18 þús. árum.  Þannig mætti áfram telja. Myndin sýnir loftslagssögu jarðar síðustu 65 milljónir ára í stórum dráttum. Nútími er lengst til vinstri.

Það er ekkert nýtt að regnskógaloftslag náði langt norður eftir jarðarkringlunni á þessum tíma, sjávarhitinn var 25-30°C á okkar slóðum o.s.frv.  Allt var þetta vegna gríðarmikilla gróðurhúsáhrifa lofthjúps, miklu meiri en síðar urðu.  Kolefni í stórum stíl var þá laust í lofthjúpnum í formi CO2.  Einnig aðrar gróðurhúsalofttegundir.  Hægt og bítandi kólnaði um leið og æ meira af kolefninu nýttist lífverum og grófst niður í seti og jarðlögum, þ.e. olía og kol dagsins í dag og reyndar miklu mun meira.  Fyrir um 30 milljónum ára er talið að fyrst hafi jöklar tekið að myndast og ekki að gagni fyrr en um 23 milljónum árum síðar. Enn síðar urðu jökulskeiðin eitt af öðru.

Skömmu áður en þessi miklu "gróðurhúsahlýindi" náðu hámarki þarna fyrir um 55 milljónum ára, þykir sýnt að hlýnað hafi afar skarpt, eða um 6°C á "aðeins" 20 þús árum.  Vísindamenn í fornloftslagi hafa eytt talsverðu púðri í að reyna að koma með vitræna tilgátu á svo mikilli hlýnun og áhugasamir geta lesið frekar um það hér.

Dr. A. Slujs, University of UtrechtEinn Hollendinganna, Peter Bijl segir í frétt (7. okt sl.) á heimasíðu skólans í tilefni birtingar rannsóknarniðurstöðu þeirra félaga að gögnin sýni að hitinn á norðurhjaranum gæti mögulega orðið hærri en IPCC líkönin séu að spá eða orðrétt:   “These field data imply that polar temperatures can be much higher than the IPCC computer models predict for a high-CO2 world. In turn, climate change can be even more severe than the worst case scenario’s of the IPCC.” 

Þetta er vitanlega allt annað en að veðurfarslíkönin séu stórlega gölluð eins og hermt er í frétt Bylgjunnar og Vísis. Ég tel reyndar að þessir ágætu Hollendingar við Utrect reiði dálítið hátt til höggs með samlíkingu við allt önnur skilyrði, t.d. hafstrauma í heimi gjörólíkrar legu meginlanda en nú er. Fleira er þarna aðfinnsluvert sem ekki verður talið hér.  En það breytir því ekki að allskyns della utan úr heimi ratar til okkar og stundum veit maður hreinlega ekki hverju maður á að trúa. Allt of oft virðast fréttir úr stóru erlendu veitunum vera illa unnar eða beinlíni rangar. En ég hef líka rekið mig á það að kastað er til höndum við þýðingu og mat á því hver sé hinn raunverulegi fréttapunktur. Í þessu tilviki hefur hann greinilega skolast til.   Sem betur fer er líka margt vel gert og vandað í þessum efnum. 

Myndin er af Dr. Appy Sluijs,  sem Vísir.is vitnar til (fengin af heimsíðu Sluijs).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Það þarf ekki að fara neinar milljónir ára aftur í tímann. Það nægir að fara nokkrar árþúsundir, því loftslag á núverandi hlýskeiði ísaldar fer hægt kólnandi. Á bóreölskum tíma, skömmu fyrir daga Forn- Egypta hefur t.d. sennilega verið hægt að rækta korn á Sprengisandi, því þá var Ísland jöklalaust og trúlega mest allt Norður- Íshafið íslaust a.m.k að sumarlagi. Sahara og aðrar eyðimerkur voru þá að mestu eða öllu leyti grónar, enda var hiti 4-5 stigum hærri en nú, uppgufun úr höfunum því meiri auk þess að hlýtt loft tekur miklu meiri raka til sín. Meginjöklar á Suðurskautlandi og Grænlandi bráðnuðu þó ekki, þótt eitthvað kvarnaðist úr þeim. Ég er hér að tala um árþúsundir, ekki ármilljónir, mannkynsögu, ekki jarðsögu. Tölvulíkanasmiðir virðast ekki þekkja þessar staðreyndir sem ég lærði fyrir löngu í barna- og gagnfræðaskóla. Ótrúlegt en satt.

Vilhjálmur Eyþórsson, 27.10.2009 kl. 00:45

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þessar staðreyndir hjá Vilhjálmi eru mönnum að góðu kunnar.  Á þessum tíma eða fyrir um 7.000 árum  var sólgeislun til upphitunar lofthjúpsins meiri en nú er,  eða sem nam um 40 wöttum á fermetra.  Það eru hægfara hringrásir í sporbaugi jarðar um sólu og tilfærsla á möndulás jarðarinnar sem þessu valda.  Ef allt væri með felldu væri jörðin nú hægt og bítandi á leið inn í næsta jökulskeið,  næstu 2- 3 þús. árin eða svo.

ESv
 

Einar Sveinbjörnsson, 27.10.2009 kl. 07:53

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú segir Einar að síðustu ísöld hafi lokið fyrir 18 þús. árum. Ég hélt að það hefði verið fyrir 10-12 þús. árum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.10.2009 kl. 12:51

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Gunnar !

Er það nema von að þessir hlutir eigi það til að vefjast fyrir manni ! Í raun er talið að núverandi hlýskeið hafi hafist fyrir 10-11 þús. árum og þar með má segja að síðasta jökulskeiði hafi lokið endanlega.  En fyrir 18 þús. árum tók að hlýna eftir að jökulísinn hefði náð hámarki um 2 þús. árum fyrr. M.a. þykjast vita að hlýir hafstraumar hafi þá tekið til við að beinast aftur norður á bóginn.  Hlýnunin fyrstu 8 þús. árin var hins vegar skrykkjótt með Yngra Dryas bakslaginu og öðru síðar sem kallað er Preboal. 

Um þetta má lesa í stuttu og hnitmiðuðu  máli í skýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar frá í fyrra og  finna má  undir þessum hlekk.  

Einar Sveinbjörnsson, 27.10.2009 kl. 13:27

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Takk fyrir þetta Einar

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.10.2009 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 1786253

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband