Meðfylgjandi mynd sendi Málfríður Ómarsdóttir. Hana tók hún í austurhluta Reykjavíkur 29. janúar sl. Öldurnar sem við blasa eru svokallaðar Kelvin-Helmholz bylgjur, en þær koma fram við ákveðnar aðstæður í lofthjúpnum. Stöndum háttar svo til að neðri lög lofthjúps eru greinilega lagskipt. Á mörkum loftlaga með ólíkan vindstyrk eða jafnvel ólíka vindátt koma þá fram þessar öldur. Oft sjást þær ekki, en sé skýjalag við snertiflötinn verða bylgjurnar sýnilegar.
Líftími þessara skýja er oftast stuttur í hvert sinn, nokkrar mínútur, kannski 1/2 klst. Segja má að þarna verði sýnileg ókyrrð í lofti, en kviku verður oft vart í flugi í grennd við Kelvin-Helmholz bylgjur.
Strax eftir áramót lagði Þingvallavatn (sjá hér) og gerði þennan líka fína spegil yfir allt vatnið næstu daga, gagnsær og sléttur ís um allt vatn. Sjálfur fór ég á vettvang 3. janúar og þá var ísinn þá við Skálbrekku 15-20 sm þykkur. Svo hélst í um vikutíð, en þá gerði leysingu sællar minningar og ísinn fór af öllu vatninu eftir því sem mér er sagt.
Síðustu daga hefur hins vegar kólnað og nú er Þingvallavatn tekið að leggja aftur. Sjá má á þessari samsettu mynd sem Ingibjörg Jónsdóttir sendi mér að bakkarnir eru lagðir, sérstaklega að a vestanverðu, en mitt vatnið var íslaust. Óljós hvað er í gangi alveg nyrst ?
Aldeilis frábært að geta notað fjarkönnun til þessa. Um miðjan dag tók að blása um tíma, 4-6 m/s eða svo. Öldur á miðju vatninu koma fram á radarmynd og gerir þessa vinnslu mögulega að greina ísasvæði frá auðum flóanum í miðju. Venjuleg hitamynd sýnir þennan mun miklu síður, þar sem vatnsyfirborðið er í sjálfu sér ekkert svo mikið heitari (eða minna kaldur) en ísjaðarinn.
Þegar þetta er skrifað að kvöldi 3. febrúar er komið hægviðri og 9 stiga frost á Þingvöllum. Vatnið leggur nú allt hratt og örugglega, öðru sinni þennan veturinn.
Fallegar myndir | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.2.2010
Niðurlægingin algjör !
Á meðan ekki hefur verið hægt að komast á skíði, a.m.k. ekki sunnanlands og mikið vantar í raun upp á, les maður um það í Jótlandspóstinum að skíðasvæði í Danmörku séu "öll" opin og búin að vera það meira og minna frá áramótum.
Sagði frá því á dögunum að gamlar lyftur í Skotlandi hefðu verið gagnsettar þegar þar kyngdi niður snjó. Í Skotlandi er þó fjöll.
Í Dammörku, á skíðum, en ekki hér ! Er hægt að leggjast lægra í eymdinni ?
Hedeland Skiklub er staðsettur á Sjálandi rétt við Hróarskeldu. Á myndum að dæma er þar sæmilegasta brekka, svona miðað við það sem vænta mátti. Engin stólalyfta, en gömul toglyfta. Í meðalári er hægt með herkjum að opna þarna heila 4 daga á ári. En nú er muna menn ekki lengur hvenær var snjólaust síðast og í gær bætti enn á, þegar gerði hríðarveður með umtalsverðum samgöngutruflunum.
En þrátt fyrir þetta, verða nú samt skíði eitt það síðasta sem ég tæki með mér til Kaupmannahafnar !
Dani hefur maður hins vegar hitt í brekkum t.a.m. í Ölpunum. Þeir eru margir hverjir ágætir skíðamenn og mjög áhugasamir um að standa sig í baráttunni við framandi þyngaraflið í hlíðum fjallanna.
Hér má finna myndbrot frá Hedeland úr Jótlandspóstinum
1.2.2010
Limra á veðurviltum þorra
Janúar er liðinn og kominn er febrúar, við erum á miðjum þorra eða hér um bil. Hvar er Fjallaskáldið nú að kveða um sinn "Kára í jötunmóð" og er hann "enn á norðan og næðir kuldaél ... " eins og kyrjað er á þorrablótum landsmanna. Aldeilis ekki ! Kristján Jónsson var aðeins 4 ára norður í Kelduhverfi þegar hlýjasti janúar í sögu mælinga gekk hér yfir árið 1847. Það brá hins vegar til mun verri tíðar frá og með vetrinum 1858 og Kristján Fjallaskáld var fulltíða maður 1866 þegar hann orti sitt kuldalega kvæði sem fylgt hefur okkur til þessa dags. Trausti Jónsson velti fyrir sér tíðarfarinu þennan vetur og sérstaklega á þorraþrælnum (síðast dag þorra) sem kvæðið er kennt við árið 1866. Sjá hér.
Nútímalegri þorralimra á við nú, þegar maður veit varla hvernig á sig stendur veðrið. Hún er svona:
Maður hlýtur að telja á því tormerki
að tala á þorra um vormerki,
þó svolítið hlýni
nema þá helst í í gríni
og með hugsuðu öfugu formerki.
Öfuga formerkið er þá væntanlega hið þíða vetrarveður nú á meðan frost og kuldar geysa annars staðar. Og jafnframt að veturinn verður ekki umflúinn, hann komi bara síðar, eftir þorra !
Limran er eftir snillinginn Jóhann S. Hannesson fyrrum skólameistara á Laugarvatni.
Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ég er svo sem ekki að kvarta, alls ekki misskilja mig en það er samt ekki laust við að ég öfundi dálítið danska starfsbræður mína og systur nú. Þá er ég að tala um veðurfræðingana.
Spáin hér að neðan fengin af dmi.dk og gildir fyrir Danmörku í heild sinni. Hún gerir eins og sjá má ráð fyrir að á þriðjudag verði snjókoma og 12 m/s. Sem sagt hríðarbylur og það í henni láglendu Danmörku af öllum stöðum.
Þó mun að öllum líkindum hlána sunnantil á Jótlandi, en það sem er athyglisvert er að ofan í þann kalda loftmassa sem nú er yfir S-Skandinavíu og N-Evrópu, stefnir dálítil lægð úr norðvestri, beint á Jótland og með henni skil og úrkoma. Eitthvað sem væri sambærilegt og stefndi hér á suðvestanvert landið myndi vafalítið valda öngþveiti á höfuðborgarsvæðinu, hvað þá í Árósum eða Óðinsvéum !. Höfum það líka hugfast að nýleg lausamjöll er yfir öllu í Danaveldi sem eykur enn á fjúkið og skafrenninginn. Verður verðugt verkefni danskra veðurfræðinga að spá þessu með þokkalegri nákvæmni og koma til skila til almennings.
Eins og veturinn hefur verið er ekki nema að von sé spurt hvort að hann hafi flutt lögheimili sitt austur á bóginn (með öllum burtfluttu Íslendingunum) til Skandinavíu og Danmerkur ? Annars er sæmilegasti vetur um þessar mundir norðaustanlands og sums staðar snjór,þó seint tieljast hann verulegur, nema þar sem hann er framleiddur sérstaklega með þar til gerðum tækjum.

Þennan laugardag í lok janúar og á miðjum þorra er ekki hægt að segja annað að veður á landinu hafi verið sérlega gott. Mjög víða skein lág vetrarsólin og frost var um nærfellt allt land. Þó alls engin gaddur. En það var stillan sem mér þótti hvað sérstæðust, vart blakti hár á höfði á höfuðborgarsvæðinu og svipað var annars staðar. Þó ekki allra austast þar sem var N-gola.
MODIS myndin sem hér fylgir frá kl. 13:35 er ansi athyglisverð. Skýin eru hvít en hafís, snjór og jöklar birtast í rauðum lit. Yfirleitt er snjór aðeins hærra uppi, sértaklega sunnanlands, en norðantil, þekur snjórinn víðáttumeiri svæði. Sjá má að rauðablæ á utanverðu Reykjanesi. Þar gerði él í nótt og reyndar einnig á utanverðu Snæfellsnesi og við Látrabjarg.
Engan hafís er að sjá á þessari úrklippu úr upprunalegu myndarinnar, en engu að síður var meginjaðarinn vel greinilegur nokkuð djúpt undan Vestfjörðum, þangað sem hann hann hefur hörfað undan vindi undanfarna daga.
Takið líka eftir skugganum á Vatnajökli, en skýjabreiðan sunnan yfir honum virðist rísa hátt upp yfir umhverfi sitt (líkast til fjallabylgja) og því varpast merkjanlegar skuggi langt til norðurs.
29.1.2010
Nánast einstakur janúarkafli
Sigurður Þór Guðjónsson hefur bent á athyglisverða staðreynd, nefnilega þá að ekkert hefur fryst í Reykjavík frá 7. janúar. Í nótt (29. jan) lauk hins vegar þessum langa þíðukafla. Þetta gerir því 22 frostlausa daga um hávetur !
Í Reykjavík stefnir meðalhitinn í það að verða á bilinu +2,6 til 2,7°C. Fer eftir því hvort kólni að ráði þessa síðustu þrjá dagana. Nokkrum sinnum hefur orðið hlýrra, en mánuðurinn á góða möguleika á að komast á topp tíu listann frá upphafi mælinga.
Hlýrri janúarmánuðir (>2,7°) frá lokum síðari heimstyrjaldar í Reykjavík eru þessir:
1947 3,2°C
1950 2,8°C
1964 3,6°C
1972 3,1°C
1973 3,1°C
1987 3,1°C
Þann hlýjasta af þessum, þ.e. 1964 gerði vægt frost af og til í mánuðinum. Helst að 1987 standist þeim í ár snúning, þá gerði langan samfelldan leysingakafla frá byrjun máðar til loka. En hann varð ekki alveg samfelldur því það frysti einu sinni.
Fróðlegt væri að skoða hvenær hafi síðast gert jafnlanga samfellda þíðu að vetrinum (des-mars) í Reykjavík.
Viðbót: Veðurstofan gerir þetta að umtalsefni í pistli og hefur gert talningar á álíka samfelldum hlákum. Sú síðasta til jafnlengdar var í febrúar 1964, 22 dagar til og með 29. febrúar það ár.
Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ingibjörg Jónsdóttir hefur útbúið athyglisvert hafískort. Það sýnir mestu útbreiðslu íssins í nú janúar og þar með vetrarins ef út í það er farið. Að sögn Ingibjargar er kortið gert eftir bestu fáanlegu upplýsingum með fjarkönnun. Tekið er fram að þessi útbreiðsla sé mat, ónákvæmni getur átt sér stað þar sem ekki sést alltaf mjög gisinn ís og þaðan af síður stakir jakar. Engu að síður má ætla að kortið fari all nærri raunverulegri hámarksútbreiðslu. Sjá fleiri kort og upplýsingar á síðu Ingibjargar.
Inn á kortið eru teiknaðir hafstraumar eftir straumakorti sem kennt er við Unnstein Stefánsson sem um árabil var prófessor í haffræði við HÍ.
Ég tek undir þau sjónarmið sem heyrst hafa að æði langsótt sé að björninn hafi borist með ísnum, nema þá kannski með óbeinum hætti. Ísinn er einfaldlega of fjarri. Þórir Haraldsson líffræðingur á Akureyri, veit æði mark um lífshætti og atferli hvítabjarna. Hann sagði í gær í viðtali við Sjónvarpið að minnkandi hafís almennt séð á norðurhjaranum gerði það að verkum að vera kynni að birnir færu frekar á flakk. Þessi kenning er áhugaverð, en aðeins kenning. Sjálfum þykir mér þekking okkar á atferli þess hluta stofns hvítabjarna sem heldur sig að mestu á ísnum í Austur-Grænlandsstraumnum vera heldur brotakennd. Hvað með framboð af æti ?
Karl Skírnisson segir í grein í Náttúrufræðingnum; " Aðalfæða ísbjarna eru kópar hringanóra og kampsels, en þeir eru auðsótt fæða á rekís norðurhjarans á útmánuðum og á þeim tíma safna ísbirnir miklu spiki á fáum mánuðum, sé allt með felldu."[Náttúrufræðingurinn 78(1-2), bls. 39-45, 2009.]
Hver er þáttur kæpingar þessara selastofna á ísnum nærri Jan Mayen sem vitað er að skiptir birnina miklu. Eru selastofnarnir þeir sömu og áður ? Hafa þeir kannski flutt sig um set með hlýnandi sjó ? Kæpa þeir á öðrum tíma og þá annars staðar ? Hver getur svarað þessum spurningum ?
Það er klárlega verkefni fyrir duglega íslenska vísindamenn að gera sig enn frekar gildandi í rannsóknum á vistfræði og líffræði þess hluta stofns hvítabjarnarins sem heldur sig á ísnum hér fyrir norðan og vestan land.
Viðbót 29. jan kl. 08. Þór Jakobsson segir í Morgunblaðinu í dag að alls ekki sé hægt að útiloka að straumar beri smájaka frá sjálfum meginísjaðrinum. Slíkar dreifar sjást ekki öðruvísi en með berum augum í dagsbirtu. Meginstaumurinn norðan Kolbeinseyjar er einmitt vestanstæður og þessi kenning er því ekki svo galin hvað varðar Óslandsbjörninn. Eins verðum við að hafa í huga að þó sjávarhiti sé ekki sérlega hár bráðna smájakar út öllum tengslum við meginísjaðarinn á nokkrum dögum.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 29.1.2010 kl. 08:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.1.2010
Athyglisverð mæling frá nýjum vindmæli
Í haust var settur upp vindmælir í Skarðsheiðinni í 480 metra hæð á stað sem kallast Miðfitjahóll. Þarna fer raflína hæst, svokölluð Vatnshamralína og hafði Landsnet forgöngu um þessa veðurathugunarstöð.
Í SA-rokinu snemma á mánudag (25. janúar) mældi þessi nýi mælir mjög snarpar vindhviður og klárlega þær mestu sem fram komu á mælum í þessu óveðri. Eins og sjá má á línuritinu fór í rúmlega 70 m/s í mestu vindhviðum og engin ástæða er til að ætla annað en mælingin sé rétt. Það er vitað af miklu vindálagi á línuna á þessum slóðum einmitt í SA- og A-stormum. Landsnet geri þetta að umtalsefni í frétt og segir að truflun hafi orðið í þann mund sem mesta vindhviðan kom fram á mæli. Þrátt fyrir útslag gekk vel að slá línuna aftur inn frá stjórnstöð.
Fróðlegt verður að fylgjast með þessum nýja mæli í Skarðsheiðinni. Í það minnsta lofar hann "góðu". Mælingarnar eru aðgengilegar á síðu Veðurstofunnar innan um alla hina mælana.
Spenna Vatnshamralínu er 132 kV og þaðan sem hún liggur frá tengivirki Landsnets á Brennimel í Hvalfirði yfir Skarðsheiði, og niður í Vatnshamra í Borgarfirði (og þaðan áfram norður í land um ofanverðan Borgarfjörð). Línan var tekin í notkun 1977 og samanstendur að mestu af tréstæðum, en 10 stálturnar eru nærri Miðfitjahól þar sem hún liggur hæst.
Vatnshamralína er mikilvægur hlekkur í Byggðalínunni, eða hringtengingunni um landið. Línan tengir Blönduvirkjun við framleiðsluna á Þjórsár- og Tungnársvæðinu og skiptir miklu fyrir flutning raforku út á Snæfellsnes og vestur á Vestfirði.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 20:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2010
Á skíði til Skotlands !
Á meðan skíðafólk hér er á barmi örvæntingar vegna snjóleysis eru sagðar af því fréttir að í Skotlandi sé búið að opna lyftur sem voru við það að ryðga fastar sökum takmarkaðra snjófanna undangenginna vetra. Fólk hópast þar á skíði og sagt að öll skíðasvæðin séu nú opin. Ekki veit ég hvað þau eru mörg eða mikilfengleg, en ekki vantar snjóinn þar um þessar mundir.
Það væri kannski athugandi fyrir Íslendinga að kanna skíðaferðir til Skotlands þennan veturinn. Einhverjir mundu nú segja að það væri að fara úr öskunni í eldinn ! Hvað með það og kostar ekki álíka mikið að fljúga til Glasgow og Egilsstaða ? Gæti verið spennandi kostur í snjóleysinu hér.
Til þessa hafa verið sæmileg skilyrði norðanlands, einkum í Hlíðarfjalli og eins á Dalvík. Eftir hlýindin síðustu daga er hins vegar verulega farið að sjá á snjóalögum þar. Og Bláfjöllin góðu, sem ekki er hægt að minnast á ógrátandi. Komið fram í Þorra og snjórinn þar líkt og væri miður október. Það er reyndar spáð dálítilli föl þar næstu daga, en svo mikið vantar upp á. Þurfa að koma þessar ekta "Bláfjallaaðstæður", þ.e. A-átt með eðlilegu hitastigi og úrkomu. Þá mokar miður snjónum á Bláfjöllum. Því miður er ekkert slíkt í sjónmáli af mark er takandi á veðurútlinu næstu 6 til 8 dagana.
Þangað til vafrar maður um á netinu og skoðar Skosk skíðasvæði og lætur sig dreyma.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.7.): 1
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1790962
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 53
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar