Sólarlag á 18° N.br.

Mumbai_sol1_Esv.jpgUm páskana ferðaðist ég um Indland með stórum hópi Íslendinga.  Á páskadag vorum við stödd í borginni Mumbai sem áður kallaðist Bombey.  Ég var frekar spenntur fyrir því á þessum slóðum að fá að sjá sólina setjast ofan í hafið í vestri, en sólarlag á svæðum beggja vegna við miðbaug þykir oft tilkomumikið.  Mumbai er á 18°N.br. og um þetta leyti árs er sólarhæðin á hádegi um 80°.  Sólin nær því að vera í hvirfilpunkti eða því sem næst í lok maí eða byrjun júní og síðan aftur í júlí.

Myndirnar sem hér fylgja sýnir sólina skömmu áður en hún settist í Arabíuhafið.  Rétt áður en sólin sest eða rís virðist sólkringlan vera sol2_Mumbai_ESv.jpgdálítið flöt í stað þess að vera kringlulaga. Á ensku er þetta fyrirbæri kallað "Looming sunset".  Speglun frá lofthjúpi veldur þessum sjónhrifum þegar geislar sólar fara langa leið í gegn um andrúmsloftið séð frá þeim sem virðir fyrir sér sólarlagið.

Á myndum 1 og 2 er efra borð sólar gulleit á meðan það neðra er rauðleitt. Ástæðan fyrir þessu er að geislar þeir sem neðra borð sólar senda frá sér berast lengri leið um lofthjúpinn heldur en þeir sem berast frá efra borði sólar á sama tíma.  Lofthjúpurinn dreifir rauða ljósinu þeim mun meiri vegalengd sem geislarnir berast í þessum skáhalla brautum um lofthjúpinn skömmu fyrir sólarlag.  sol3_Mumbai_ESv.jpgÞeim mun meiri raki eða mistur í lofti því meiri verður dreifing rauða ljóssins eins og kunnugt er.

Á suðlægum slóðum má einstaka sinnum sjá grænan ljóshnött birtast í nokkrar sekúndur við efra efra borð sólar í þann mund sem hún er setjast.  Ljósbrot í lofthjúpnum (prisma-áhrif) veldur græna leiftrinu en í raun er sólin að fullu horfin undir sjóndeildarhringinn þegar það gerist.  Það er helst að verða vitni að græna sólarlaginu á suðlægum slóðum þegar loft er nokkuð tært og hitafall lofhjúps eðlileg. Hitahvörf og lagskipting eru líkleg til að valda speglunum og þar með afmyndun sólarkringlunnar eða öllu heldur þeirra geisla sem áhorfandinn sér. 

En heppnin var ekki með mér í Mumbai að þessu sinni þrátt fyrir trú mína á mætti páskanna !  Loftið var fyrir það fyrsta ekki alveg nægjanlega tært og græni blossinn kemur að auki sjaldnast fram þó skilyrði séu með hagstæðasta móti. 

Hér fylgir tengill á myndband sem sýnir hvað um ræðir.  Sólarlagið er frá austurströnd Bandaríkjanna að vetri (25. febrúar 2008), en vetrarloftið hefur greinilega verið mjög tært þennan tiltekna dag.

Ef einhver lesenda hefur orðið vitni að græna blossanum hér á landi eða á jafnmel mynd væri fróðlegt að heyra af slíku. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hef séð þetta fyrirbæri greinilega og það bara á heimaslóð. Það er mjög vandséð þar sem það varir varla meira eina til tvær sekúndur og að auki þarf að vera heiðskýrt við sjóndeildarhring.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 11:13

2 identicon

Leiðr. heiðskírt við sjóndeildarhring.

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.4.2012 kl. 11:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 1786460

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband