60 ár í dag frá ræðu Marshall

marshall5. júní 1947 hélt Georg Marshall utanríkisráðherra Bandaríkjanna ræðu í Harvardháskóla sem almennt er talin marka upphaf Marshallaðstoðar Bandaríkjanna til handa stríðshrjáðum löndum í Evrópu.

Evrópa var illa farin og endurreisnarstarf gekk afar illa í mörgum ríkjum V-Evrópu.  Það er hins vegar á færra vitorði að afar slæm vetrarveðrátta með gríðarlegri röskun á samgöngum á Betlandseyjum og N-Evrópu átti stóran þátt í því að Bandaríkjamenn urðu að koma íbúum Evrópu til aðstoðar því matvæla og orkuskortur var mikill og viðvarandi.

Veturinn 1947 er einn sá alharðasti sem komið hefur í vestanverðri Evrópu og þær eru magnaðar lýsingarnar sem lesa mátti í Morgunblaðinu í febrúar og mars þetta ár.  Lítum á  nokkrar.

 

4. febrúar.  Stöðug frost eru enn í Danmörku.  Ís á dönsku sundunum og þýsku skipaskurðunum torvelda mjög alla eldiviðarflutninga.

6. febrúar. Alvarlegur kolaskortur í Bretlandi.  Kuldi og stormar hafa haft það í för með sér að kolaflutningar hafa verið mjög erfiðir. Á SA-strönd Englands gátu 57 kolaskip ekki athafnað sig vegna veðurs og víða í Bretlandi hafa kuldarnir og veðurhæðin gert það að verkum að kolanámumenn hafa ekki komist til vinnu sinnar.

Amsterdam7. febrúar.  Snjóþyngsli einangra þorp í Midlands og eru þau að verða matvælalítil.

9. febrúar. Algert hrun framundan sigrist Bretar ekki á kolaskortinum.  Versta veður sem gengið hefur yfir í 50 ár.

10. febrúar. Kertaljós og olílampar í London.  Clement Attlee forsætisráðherra flutti ræðu í þinginu þar sem hann bað bresku þjóðina að standa vel saman og sigrast á erfiðleikunum.

13. febrúar. Hamborg - borgin er orðin kolalaus. Osló - skólum lokað og rafmagn skammtað. Ísbrjótar vinna dag og nótt við að halda Óslóarfirði opnum.

20. febrúar.  Matvælaráðherra Bretlands á Bessastöðum.  Falast eftir öllum þeim fiski og lýsi sem hægt er að útvega. Ráðherranum þykir hlýtt á Íslandi.  

21. febrúar.  Frostið herðir enn í Evrópu.

snow_Lancashire22. febrúar.  Mikið fannkyngi er nú víða um heim og stormar svo miklir að ekki er getið um annað eins síðan farið var að safna veðurskýrslum í heiminum.  Fréttir af fannkomu í dag berast frá Belgrad í austri og alla leið til V-Kanada.  Í Falmouth í Cornwall þar sem ekki hefur snjóað í 55 ár er borgin einangruð í annað sinn þennan vetur.

23. febrúar.  Hörmulegt matvælaástand í Austurríki og Þýskalandi.

1. mars.  Í Danmörku hefur verið frost nú samfellt í 38 daga.

4. mars.  Hlýviðri væntanlegt í Englandi.  Breskar verksmiðjur fá rafmagn á ný.

6. mars.  Mikil flóð á Spáni eftir látlausar rigningar.  Landbúnaðurinn á S-Spáni hefur beðið mikið afhroð.

7. mars.  Geysimikil snjóþyngsli í Bretlandi.  Mjólkurskortur yfirvofandi.  Mikill fjöldi mjólkurbíla hefur "týnst" í Midlands þar sem snjóþyngslin eru hvað mest.

9. mars.  Snjóar í Feneyjum

flood22.March20. mars.  Tilkynningar um flóð berast nú víðsvegar að í Englandi.  Mestu flóð í Severn í 300 ár.

25. mars.  Flóðin mikil ógæfa fyrir Bretland segir Tom Williams landbúnaðarráðherra.  Hafa alvarleg áhrif á matvlaframleiðsluna komandi sumar og enn verði því þrengt að kosti þjóðarinnar.

28. mars.  Víðtæk verkföll í kolanámum í Ruhr til að mótmæla matvælaskömtun og skorti á matvöru. 

 

Þetta er dágóð lesning og segir margt. Til viðbótar má minnast þess að Heklugosið eftir 102 ára hlé hófst 29. mars.  Veðráttan hér var einnig afbrigðileg eins og ekki ekki þarf að koma á óvart.  Mjög hlýtt var í janúar 1947 og sprungu blómu út eins og segir í Veðráttunni.  Febrúar var síðan fremur kaldur en mjög svo óvenjulega sólríkur og þurr um landið sunnanvert.  Loftþrýstingur var óvenju hár og hélst fram í mars, en sá mánuður þótti snjóþungur norðanlands.  

Afbrigðileg hringrás loftstraumanna olli þessu þessum miklu frávikum frá eðlilegu veðurfari.  Fyrirstöðuhæðir ásamt lægðagangi inn yfir Miðjarðarhafið varð þess valdandi að yfir N-Evrópu ríkti nær samfelld A-átt í stað mildra SV- og V-átta sem alla jafna blása á þessum slóðum að vetrarlagi. Handgerða kortið hér að neðan (18. feb) er dæmigert fyrir stöðuna.  Hitinn sýnist mér vera í Farenheitgráðum.

 

NH18thFebruary1947

 

Ef einhver skyldi enn halda að Marshallaðstoðin (ekki þó sú til Íslendinga) hafi eingöngu verið runnin undan pólitískum rifjum sér sá hinn sami nú að afleiðingar þessa harða vetrar í Evrópu knúði ekki síður aflegufærar þjóðir, einkum Bandaríkjamenn til stuðnings til uppbyggingar þar sem fyrst þurfti vitanlega að huga að endurreisn landbúðnaðar og matvælaframleiðslu.

Áhugaverð bresk síða með myndum og meiri upplýsingum um þennan kalda vetur.  Veðurkortið er fengið þaðan.   

http://www.winter1947.co.uk/

 

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mikið væri gaman ef svona kort væru aðgengileg á netinu fyrir Ísland.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.6.2007 kl. 00:55

2 Smámynd: Alvy Singer

Stríðþjáðasta þjóð Evrópu fékk hlutfallslega einna mest í Marshalaðstoðinni, Ísland.

Alvy Singer, 5.6.2007 kl. 17:53

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband