Kirkjurokið 20.september 1900

Fyrir nákvæmlega 107 árum í dag gerði mikið mannskaðaveður samfara lægð sem til var orðin upp úr fellibyl sunnan úr Atlantshafi.  Veður þetta er oft nefnt Kirkjurokið því í því fuku eða skekktust á grunni sínum allar fjórar kirkjurnar Svarfaðardal.  Sjálfur skrifaði ég nokkuð langa grein sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins þegar hundrað ár voru liðin frá atburði þessum þar sem hann var rifjaður upp og reynt að bregða ljósi á lægðina sem ósköpunum olli.

Hér að neðan er greinin í heild sinni en hana má líka lesa með því að smella á Lesbókartengilin hér að ofan.

 

 

"ÞAÐ VAR ALVEG ÓSKAPLEGT VEÐUR"

Fjöldi sjómanna fórst í illviðrinu 20. september árið 1900.
Fjöldi sjómanna fórst í illviðrinu 20. september árið 1900. Málverk Bjarna Jónssonar
Urðarkirkja í Svarfaðardal, byggð árið 1902. Forveri þessarar kirkju gjöreyðilagðist í ofviðrinu 20. september 1900 og var sú kirkja jafnframt fyrsta timburhúsið í Svarfaðardal, reist árið 1850. Rauðavík á Árskógsströnd. Húsið sem fauk og brotnaði í spón stóð aðeins hærra uppi á sjávarkambinum en þar sem íbúðarhúsið stendur í dag. Veðurkort 20. september klukkan 8 ( Trausti Jónsson). Miðja lægðarinnar yfir Arnarfirði hafði afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.
Urðakirkja í Svarfaðardal, byggð 1902.  Rauðavík í Eyjafirði þar sem mannskaði varð.  Veðurkortin eru frá Trausta Jónsyni komin.

Aldamótaárið 1900 var kyrrlátt og tíðindalítið í sögu þjóðarinnar. Rétt eins og nú voru menn uppteknir af aldahvörfum og þeim væntingum sem ný öld myndi færa landi og þjóð í skaut. Einn er sá atburður þessa árs sem leið mönnum seint úr minni og áhugavert að rifja upp nú 100 árum síðar. Ekki tengist hann umróti sjálfstæðisbaráttunnar eða sögu þjóðarinnar á nokkurn hátt. Hann hefði í raun getað gerst hvaða annað ár sem var. Hér er átt við mannskaðaveðrið sem gekk yfir landið snemma hausts árið 1900 eða nánar tiltekið hinn 20. september.
Dag þennan gekk yfir landið suðvestan- og vestan illviðri, eitt hið allra versta af þeirri gerð sem sögur fara af. Margháttaðir skaðar urðu bæði á mönnum og munum og er skemmst að minnast drukknunar 17 manna á fjórum bátum sem reru frá Arnarfirði í bítið þennan örlagaríka morgun. Þá fauk hús í heilu lagi á Árskógsströnd með átta manns innan veggja og létust þrír þegar húsið endasteyptist fram af sjávarbakka. Í Svarfaðardal minntust menn þessa óveðurs langt fram eftir öldinni sem kirkjuroksins haustið 1900, enda ekki nema von þar sem kirkjurnar á Völlum og Upsum brotnuðu í spón og sú þriðja, á Urðum, skekktist mjög á grunni sínum. Og þannig má áfram telja.

Týndur fellibylur

Áður en þessir atburðir verða rifjaðir nánar upp er rétt að fjalla aðeins um sjálft veðrið eða lægðina sem því olli. Hvernig gat það gerst að fárviðri með mannsköðum og stórfelldu eignatjóni brast á fyrirvaralítið svo snemma hausts, löngu áður en hinar eiginlegu vetrarlægðir taka að herja á norðanverðu Atlantshafi? Þessari spurningu reyndi Trausti Jónsson veðurfræðingur að svara í grein sem hann skrifaði í tímaritið "Veðrið" fyrir nokkrum árum. Hann velti því fyrir sér hvort lægðin hefði ekki verið afkomandi fellibyls sunnan úr höfum. Trausti kannaði rækilega fátæklegar veðurathuganir frá þessum tíma. Á veðurkortum tók hann eftir hitabeltislægð sem allt eins gat verið fellibylur austur af Vestur-Indíum viku áður en óveðrið brast á hér á landi. Næstu daga var sá fellibylur á sveimi suður í Karíbahafinu fjarri landi. Hinn 17. september bárust engar fregnir af fellibylnum og heldur ekki næsta dag. Ólíklegt má telja að hann hafi horfið eins og dögg fyrir sólu. Hins vegar mátti greina á veðurkortum vaxandi lægð sem barst úr vestri yfir Nýfundnaland og út á Atlantshafið. Það sýndi sig næsta dag þegar þessi lægð, var komin norðaustur til Íslands, að hún var óvenju djúp og víðáttumikil. Slíkt er óhugsandi á þessum árstíma, jafnvel við bestu skilyrði, án þess að til aðstoðar fellibyls komi. Fullvíst má því telja að fellibylurinn sem týndist, eða öllu heldur leifarnar af honum, hafi gengið inn í hina vaxandi lægð austur af Nýfundnalandi. Samsuða sú leiddi síðan til þeirrar fárviðrislægðar sem hér er fjallað um. Á korti Trausta (mynd) má sjá líklega staðsetningu lægðarinnar, með miðju úti af Arnarfirði. Á þessum tíma var loftvægið ekki mælt á Vestfjörðum, en Trausti áleit að þrýstingur í lægðarmiðju hefði verið 945 hPa kl. 8 um morguninn. Í Stykkishólmi varð loftþrýstingur lægstur 952,9 hPa þennan morgun. Það er lægsta staða loftvogar sem hér hefur nokkru sinni mælst í septembermánuði, jafnvel þó svo að miðja lægðarinnar hafi aldrei verið ýkja nálægt Stykkishólmi.

Snemma morguns vöknuðu formenn fiskibáta víðsvegar við Arnarfjörð í ágætis sjósóknarveðri. Gefum Sigurði H. Jónssyni á Kirkjubóli í Fífustaðadal orðið: "Hinn umrædda morgun áttum við legulóðir á svokallaðri Rifu, sem er mið á innanverðri Fífustaðabót. Þegar við vöknuðum um morguninn, var veður með þeim hætti, að sunnankaldi lá út fjörðinn með úrhellisrigningu og þoku, er lá á fjöllum alveg niður að byggð. Loftþyngdarmælirinn stóð fyrir neðan "storm" og var fallandi. Formaður okkar, Benedikt, var ákveðinn í því að róa, sökum þess að vindur var hæglátur, þótt veðurútlitið væri að öðru leyti ekki gott."

Benedikt áttaði sig með öðrum orðum ekki á sannkölluðu svikalogni lægðarmiðjunnar. Hann gat ekki vitað að innan skamms myndi veðrið ganga upp með suðvestan ofsaroki um leið og miðja lægðarinnar fjarlægðist Arnarfjörð. Þó að Benedikt hafi náð landi á bát sínum var ekki sömu sögu að segja um fjóra aðra báta sem reru frá Arnarfirði þennan morgun. Þrír bátar frá Selárdal sneru aldrei aftur og með þeim fórust fjórtán menn. Einn til viðbótar frá Bakkadal fórst í brimi nærri ströndu. Þrír drukknuðu en einn sjómannanna bjargaðist naumlega. Má nærri geta hvílík skörð hafa verið höggvin í byggðir Arnarfjarðar við fráfall sautján karlmanna á einu bretti. Á Vestfjörðum varð ekki manntjón annars staðar en á Arnarfirði sem skýrist af því að á öðrum útræðisstöðum var veður og veðurútlit um morguninn sýnu verra en í Arnarfirði.

Lægðin færðist síðan norðaustur yfir Vestfirði og utanverðan Húnaflóa. Um leið versnaði veðrið til muna á Norðurlandi.

Sperrurnar berar eftir

Víkur nú sögunni til Eyjafjarðar. Í Svarfaðardal og á Árskógsströnd urðu menn heldur betur varir við storminn úr vestri sem brast á undir hádegið. Á þessum slóðum getur suðvestan- og vestanvindurinn orðið mjög svo byljóttur þar sem hann stendur af fjöllunum. Sérstaklega verða hviðurnar snarpar þegar hlýtt suðvestanloftið leikur um Norðurland samfara lægðagangi norðaustur um Grænlandssund.

Til frásagnar var Margrét Sveinbjarnardóttir (1893-1971) uppalin á Hillum á Árskógsströnd þá á áttunda ári. Hún sagði svo frá: "Veðrið var fyrst gott en er líða tók að hádegi var mjög farið að hvessa. Ágerðist veðrið fljótt svo mjög, að illstætt varð. Mest var hugsað um fjósheyið, því bæði var það stærst og mest í húfi með það, en svo varð við ekkert ráðið, og einn stóri bylurinn klippti það sundur við tóftarveggi og þeytti því burt. Og þá fóru þökin að rifna af og fjúka. Fóru fljótlega flestöll þök af bæjarhúsunum og fjárhúsunum. Stóðu sperrurnar berar eftir og ýmislegt lauslegt sogaðist út um opin."

Næsti bær við Hillur er Rauðavík og standa bæjarhúsin niðri við sjó. Þar gerðust örlagaríkir atburðir sem hér verður lýst. Húsið í Rauðuvík var þegar hér var komið við sögu reisulegt, nýtt timburhús.

Hinn merki eyfirski alþýðufræðimaður Jóhannes Óli Sæmundsson ritaði greinargóðan þátt um skaða af völdum þessa veðurs í tímaritið "Súlur" árið 1975. Þar leiðréttir hann ýmsar missagnir sem verið höfðu á kreiki varðandi slysið hinn 20. september í Rauðuvík. Einn heimildarmanna Jóhannesar var Valtýr Jónsson sem fæddur var 1895. "Þótt ég væri ungur man ég glöggt þennan voðalega dag. Oft heyrði ég líka á atburðinn minnst síðar, svo að þetta brenndist allt inn í hug minn. Foreldrar mínir voru annars fáorðir um slysið, einkum móðir mín. Líklega hafa þau, og a.m.k. hún, aldrei að fullu náð sér eftir þetta áfall... Það voru alls átta manneskjur inni í húsinu, þegar ofviðrið hóf það á loft. Þetta voru: Móðir mín og við börn hennar öll, sem hún átti þá. Katrín 12 ára, Óskar 7 ára, ég tæplega 5 ára og Jón á öðru ári, Lovísa Jónsdóttir, kona Edilons Sigurðssonar, Arnþrúður, dóttir þeirra, 15 ára, og Guðmundur Halldórsson. Áður en stóri bylurinn reið yfir voru farnar að brotna rúður og var verið að troða ýmsu upp í gluggana og negla fyrir þá. Ég man að við Óskar vorum að reyna að liggja á stofuhurðinni, svo að hún opnaðist ekki, og Katrín stóð þar nærri með Jón litla í fanginu. Hélt hún enn utan um hann meðvitundarlausan, er hún fannst dauðrotuð. Óskar rotaðist einnig, og Jón meiddist töluvert. Arnþrúður slasaðist og dó nokkru seinna af völdum slyssins. Húsið tókst á loft í heilu lagi og endasteyptist fram af sjávarbakkanum út í klungrið við sjóinn. Þegar ég rankaði við mér, lágum við Jón litli saman í spýtnahrúgunni alblóðugir báðir og var Sigurvin Edilonsson að stumra yfir okkur. Vafði hann utan um okkur sængurfötum og vorum við fyrst látnir í skjól við bakkann, en fljótlega hafði tekist að koma öllum suður í fjósið í Rauðuvík. Þegar svo sýnt þótti að íbúðarhús Þorsteins mundi standa af sér hamfarirnar, voru allir selfluttir þangað heim, en Katrín og Óskar lögð á líkbörurnar." Arnþrúður Edilonsdóttir slasaðist mikið og lést síðar, en aðrir sem inni í húsinu voru sluppu með minni meiðsl.

Breyttist í spýtnabrak

Eins og fyrr er getið fóru kirkjur í Svarfaðardal ekki varhluta af veðurofsanum. Í Svarfaðardal hafa löngum verið fjórar kirkjur. Vallakirkja í dalnum austanverðum, gegnt henni, handan Svarfaðardalsár er kirkjan á Tjörn og á Urðum framarlega í dalnum hefur löngum verið bændakirkja. Fjórða kirkjan á Upsum og sú eina sem aflögð er, var ofan og skammt utan Dalvíkur. Árið 1900 voru kirkjurnar fjórar í Svarfaðardal hinar reisulegustu, allar úr timbri og turnlausar. Kirkjurnar á Völlum, Urðum og Upsum voru byggðar um sama leyti um miðja öldinna. Tjarnarkirkja í núverandi mynd var byggð síðar eða árið 1892.

Þegar það veður, sem hér er til umfjöllunar, brast á í september árið 1900 var Svarfaðardalurinn þétt setinn eins og löngum áður. Sóknarprestar sátu að Völlum og Tjörn. Kirkjan á Upsum hafði reyndar eyðilagst í illviðri árið 1857. Hún var endurbyggð og um aldamótin síðustu þóttu kirkjurnar í Svarfaðardal hinar stæðilegustu og prýði sveitarinnar. Skemmst er frá því að segja að í rokinu 20. september fuku kirkjurnar á Urðum og Upsum og brotnuðu í spón. Dr. Kristján Eldjárn, fv. forseti, var fæddur og uppalinn á Tjörn eins og flestum er kunnugt. Nokkrum mánuðum fyrir andlát sitt árið 1982 flutti hann ræðu í tilefni 90 ára afmælis kirkjunnar á Tjörn. Á þeirri afmælishátíð sagði Kristján m.a.: "Það er gaman að veita því athygli, að þegar Urðarkirkju og Upsakirkju tók upp af grunni sínum árið 1900 og þær breyttust í spýtnabrak, þá stóðu Vallakirkja og Tjarnarkirkja veðurofsann af sér að mestu leyti. Það sem gerði gæfumun held ég að hafi verið að þær tvær voru seinna byggðar og fyrra kirkjufokið á Upsum 1857 hefur kennt mönnum nauðsyn þess að festa þessi nýju hús rammbyggilega á grunninum. Sú saga er sögð, að þó að Tjarnarkirkja, sem var aðeins átta ára þegar aldamótarokið dundi yfir, fyki ekki út í veður og vind, þá skekktist hún eigi að síður allmikið og hallaðist mjög til norðurs. En nokkru síðar gerði hvassviðri af norðri, sem reisti hana við aftur og færði upp á grunninn."

Friðleifur Jóhannsson í Háagerði í Upsasókn lýsti atburðum svo þegar kirkjan á Upsum brotnaði. "Ég man eftir því þegar Upsakirkja fauk...Ég sá þegar hún botnveltist og fór svo í mask á annarri veltu. Það var alveg óskaplegt veður."

Árið eftir var ný kirkja smíðuð á Upsum og hún þótti merkileg fyrir þær sakir að hún var með turni. Kirkjan sú vék fyrir núverandi Dalvíkurkirkju upp úr 1960.

Tjarnarkirkja færðist til

Árið 1984 birtist í blaðinu Norðurslóð viðtal við Gest Vilhjálmsson í Bakkagerði níræðan. Hann mundi vel eftir Kirkjurokinu. "Um morguninn var gott veður, sunnan gola og sæmilega hlýtt. Kýrnar voru látnar út og fóru þær niður á tún. Innan skamms hvessti til muna svo talið var að ekki væri hægt að hafa kýrnar lengur úti. Fóru því systkini mín sem voru tveimur og þremur árum eldri en ég, að sækja þær. Nú þótti mér súrt í broti að fá ekki að fara með þeim, og læddist fram. Einhvern veginn tókst mér að opna útidyrahurðina og komast út. Ég var ekki langt kominn þegar mér varð ljóst að veðrið var mér algert ofurefli. Lagðist ég því fyrir, og reyndi jafnvel að skríða í áttina heim, en það gekk víst heldur seint. Þá kom mamma og bjargaði mér... Þennan dag fuku kirkjurnar á Upsum og Urðum. Kurluðust báðar í spón. Vallakirkja færðist til á grunninum, en hékk þó uppi. Tjarnarkirkja stóð af sér bylinn og sagt var að séra Kristján Eldjárn, sem þá var prestur á Tjörn, hefði lengi dags staðið fram í bæjardyrum, horft á kirkjuna og beðið guð almáttugan að hlífa henni, og hún stóð af sér rokið. Um áratuga skeið voru tvö tré sperrt við kirkjuna norðanverða."

Ný kirkja var byggð á Urðum og tók smíði hennar stuttan tíma. Þrátt fyrir að kirkjan á Urðum hafi verið bændakirkja og annexía frá Tjörn, tóku þáverandi sóknarbörn ekki annað í mál er að endurreisa kirkju sína. Vallakirkja sem nú er elst kirkna í Svarfaðardal stórskemmdist einnig í veðrinu. Kirkjan á Völlum, sem reyndar mun vera elsta bygging í Svarfaðardal hefur orðið fyrir ýmsum áföllum, hún brann um haustið 1996 í þann mund sem átti að taka kirkjuna í notkun eftir miklar endurbætur á henni. Þrátt fyrir brunann var sóknarnefndin staðráðin í því að lagfæra kirkjuna til fyrra horfs. Nýverið lauk því verki og var kirkjan endurvígð 28. maí sl. Of langt mál yrði að telja upp alla þá skaða sem urðu í þessu illskeytta óveðri. Auk þeirra mannskaða sem áður greinir drukknuðu tveir menn í Borgarfirði. Voru þeir um borð í skipi sem hékk aftan í gufubát barónsins á Hvítárvöllum. Slitnaði skipið frá í ofsanum og fannst það daginn eftir á hvolfi og mannlaust. Annað skip, Kári frá Siglufirði, lagði af stað áleiðis til Akureyrar áður en veðrið skall á. Fórst það á grunnbroti á milli Dalvíkur og Hríseyjar og með því fjögurra manna áhöfn auk stúlku sem var farþegi. Almanak Þjóðvinafélagsins greinir frá því að einn maður hafi farist á Hríseyjarsundi og bóndi í Arnarneshreppi látist skömmu síðar af völdum sára sem hann hlaut í óveðrinu. Á Seyðisfirði slitnuðu upp og brotnuðu þrjár fiskiskútur. Þar fórust tveir Færeyingar. Í Öldinni okkar er sagt frá frekara tjóni. Mikið var um að skútur og þilskip slitnuðu upp þar sem þau lágu fyrir festum. Á þessum tíma voru hafnir eingöngu frá náttúrunnar hendi og bryggjur komu ekki fyrr en nokkru síðar. Skipatjón varð á Ísafirði og Patreksfirði auk Seyðisfjarðar, en einnig í Hafnarfirði og í Reykjavík. Á Akureyri rak á land öll seglskip sem lágu á höfninni, 15 að tölu, og brotnuðu þau meira og minna. Tveir bæir fuku í Skagafirði, ein kirkjan til viðbótar á Borgarfirði eystra og þannig mætti áfram telja. Margir bændur í flestum sveitum landsins urðu fyrir þungum búsifjum þegar frágengið hey fyrir veturinn fauk út í buskann.

Sýnu mest og víðtækast var tjónið við Eyjafjörð, en Suður- og Suðausturland slapp við mesta veðurhaminn.

Fáir, en gera usla

Endrum og sinnum gerist það að leifar fellibylja sunnan úr höfum berast langt norður á Atlantshaf. Fellibyljir eru dálítið sérstök veðurfyrirbæri, gjörólíkir venjulegum lægðum. Í okkar heimshluta myndast þeir upp úr svokölluðum hitabeltislægðum sunnarlega á norðurhveli jarðar og þá alltaf yfir hafi. Þeir eru tíðastir í Karíbahafinu síðla sumars eða snemma hausts, þegar yfirborðshiti sjávar verður hvað hæstur á þeim slóðum. Venjulegar lægðir fá orku sína þegar kaldur loftmassi blandast öðrum heitari. Fellibyljirnir þrífast hins vegar á svokallaðri gufunarorku sem leysist úr læðingi þegar vatnsgufa þéttist í vatnsdropa. Gufunarorkan breytist síðan í hreyfiorku eða vind. Fellibyljir þrífast eingöngu yfir opnu og hlýju hafi þar sem gnótt er af vatnsgufu til að halda "vélinni" gangandi. Dæmi er um að fellibylur geti hringsólað yfir heitum sjónum í nokkrar vikur, en berist hann inn yfir land er allur máttur úr honum á einum til tveimur dögum. Algengustu örlög fellibylja eru samt þau að veslast upp yfir kaldari sjó langt norðan upphaflegra heimkynna. Komi hins vegar vaxandi lægð aðvífandi úr vestri í veg fyrir deyjandi fellibyl er fjandinn laus í bókstaflegri merkingu. Saman geta þessi ólíku veðurkerfi hrundið af stað atburðarás í háloftunum sem endar oftar en ekki með fárviðrislægð. Nærfellt hvert haust á slíkur samruni sér stað og í flestum tilvikum verður afsprengið djúp lægð, en um leið mikil um sig og verður fyrir vikið hægfara yfir víðáttum Atlantshafsins án þess að hafa veruleg áhrif á veður á landi.

Ofsaveðrið af útsuðri 20. september 1900 var lengi í minnum haft. Síðan þá hafa leifar fellibyls náð Íslandsströndum og valdið stórtjóni a.m.k. í tvígang. Svipað veður eða litlu minna gerði 12.-13. september 1906 og síðan 23. september 1973, svonefnt Ellenarveður sem margir muna eftir og kennt var við fellibylinn Ellen. Líklegt má einnig telja að leifar fellibyls hafi komið við sögu þegar franska hafrannsóknaskipið Porqui pas fórst út af Mýrum í vonskuveðri 16. september 1936 og með því 39 menn.

Í dag geta veðurfræðingar séð atburði sem þessa fyrir og gefið út viðvaranir í tæka tíð. Svikalognið á Arnarfirði fyrir 100 árum var örlagaríkt, en á okkar dögum á að vera hægt að koma í veg fyrir manntjón af völdum illskeyttrar haustlægðar sem fóðruð hefur verið af gömlum fellibyl. Slíkur aðdragandi er í dag nokkuð fyrirsjáanlegur. Hins vegar verður seint komið að fullu í veg fyrir eignatjón, þótt veðurspár og viðvaranir geti í mörgum tilvikum gefið mönnum svigrúm til þess að "byrgja brunninn". Vonandi líða þó mörg ár til viðbótar þangað til veðrið frá 20. september 1900 endurtekur sig í svipaðri mynd. Það er þó öruggt að slíkt gerist einhverntímann í ófyrirsjáanlegri framtíð.

Helstu heimildir:

Trausti Jónsson. Fárviðrislægðin 20. september aldamótaárið 1900. Veðrið, 2. hefti, 1977. Halldór Pálsson. Skaðaveður 1897-1901. Reykjavík 1968. Jóhannes Óli Sæmundsson. Tuttugasti september. Tímaritið Súlur 1975. Erindi dr. Kristjáns Eldjárns um gömlu kirkjurnar í Svarfaðardal. Flutt við hátíðarmessu í Tjarnarkirkju 18. júlí 1982. Birt í jólablaði Norðurslóðar 1982. Kristmundur Bjarnason, Saga Dalvíkur 1.-4. bindi.

Almanak hins Íslenska Þjóðvinafélags um árið 1902.

Öldin okkar. Minnisverð tíðindi 1861-1900, Gils Guðmundsson skrásetti.

EFTIR EINAR SVEINBJÖRNSSON

 


Athugasemdir

1 Smámynd: Garún

Ótrúlegt hvað þú getur gert eitthvað eins og veður, ótrúlega spennandi og skemmtilegt.  Ég er fan

Garún, 21.9.2007 kl. 22:09

2 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Einar.

Mjög fróðlegt eins og áður.

Innan við fermingu keypti ég mér bókaflokkinn Skaðaveður sem var á boðstólum frá Æskunni en ég er fædd og uppalinn undir Eyjafjöllum sem ef til vill skýrir áhuga minn á veðurfari. Þar er margan fróðleik að finna og sennilega þarf ég að fara að lesa þessar mínar bækur aftur fljótlega.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 22.9.2007 kl. 02:33

3 identicon

Man vel eftir Ellenarveðrinu 1973. Eina skipti sem tjón varð á mínu æskuheimili í ofsaveðri.

Gunnar (IP-tala skráð) 22.9.2007 kl. 11:05

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 81
  • Frá upphafi: 1786508

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 70
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband