Septemberhitabylgjan í Portúgal vel greinileg á veðurvef mbl.is

Spákort sem gildir 5. september kl.18

Ég er ekki hissa á því að Portúgalir horfi með hálfgerðum óhug á heldur heitt loft sem kemur inn yfir Íberíuskagann úr suðri.  Á hitakorti af  veðurvef Morgunblaðsins sést þetta vel.  Fjólublái flekkurinn er fyrir loft sem er a.m.k. 20°C í 850 hPa fleti eð í um 1300 metra hæð.  Við þau skilyrði má vænta 35 til 40 stiga hita niðri við yfirborð.


mbl.is Varað við miklum hita í flestum héruðum Portúgal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúar um landið suðvestanvert sælir með helgina

Frá Þingvöllum

Ekki er hægt að segja annað en veðrið í dag sunnudag og í gær hafi glatt marga á Suður- og Vesturlandi.  Þó sums staðar hafi blásið dálítið af norðaustri, var hlýtt og notarlegt.  Þannig fór hitinn á nokkrum stöðum í 19°C í gær suðvestatil og í dag varð hitinn hæstur 20°C á Þingvöllum. Í Reykjavík varð hitinn tæp 17 stig.  Margir álíta að sumarið sé búið þegar kominn er september á almanakinu.  Við hagstæð skilyrði verða dagarnir framan af mánuðinum ekkert síðri en bestu sumardagar í júlí.

Síðustu daga hefur þannig leikið um landið  A- og NA-átt sem er hlý í grunninn og loftið að uppruna djúpt suðaustur af landinu.  Komið yfir hálendi Íslands brotna upp ský og sólin nær að skína.  Lofthitinn getur því komið stundum á óvart. Svipað á sér oft stað fyrir norðan og austan snemma haustsins þegar vindur er sunnan- eða suðvestanstæður.  


Tengill á heimild fréttar mbl.is

Koltvísýringsinnihald andrúmsloftsins

Hér tengill á heimildin mbl.is sem er eftir farnaid frétt  BBC og birtist í gær. http://news.bbc.co.uk/1/hi/sci/tech/5303574.stm.

Holdren segir þar réttilega að menn séu ekki lengur uppteknir af því hversu áreiðanleg spáleikönun séu heldur hvernig eigi að bregðast við þeim breytingum  sem nú þegar eru farnar að láta á sér kræla og eru fyrirsjánalegar á allra næstu árum.

Athyglisvert að sjá í þessari frétt að Tony Blair er farinn að tala um efri mörk koltvísýrings um 400 ppm. En í dag er hlutur CO2 um 375-380 ppm eins og sést á myndinni.  


mbl.is Telur að þegar hafi orðið hættulegar loftslagsbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófærð á fjallvegum 30. ágúst í fyrra

Bílar í Oddskarði 30.ágúst 2005

Þó snjórinn sé vissulega óvenju snemma á ferðinni til fjalla í ár og ágústmánuðurinn ekki liðinn, er sjaldnast nokkuð nýtt undir sólinni.  Í fyrra snjóaði það mikið á fjallvegi þennan sama dag, þ.e. 30. ágúst, á Austurlandi að færð spilltist.  Meðfylgjandi mynd er fengin úr gagnasafni Morgunblaðsins og sýnir aðstæður í Oddskarði.  Í fréttinni sagði: "Leiðindaveður var víðast hvar á Austurlandi í gær og kalt í veðri og snjókoma var í Oddskarði á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar. Tveir bílar þurftu að keyra inn í Oddskarð í gær til þess að ná í farþega í flugrútu sem hafði fest í snjónum í skarðinu. Að sögn lögreglu á Eskifirði er afar sjaldgæft að snjór falli á þessu svæði svo snemma. Venjulega gerðist það ekki fyrr en um mánaðamótin september-október og snjórinn í ár væri því um mánuði fyrr á ferðinni en vanalega. Víða er kominn snjór í fjöll á Austurlandi og í Neskaupstað snjóaði langt niður í hlíðar í fjöllum."  (Morgunblaðið 31. ágúst 2005).

Við þetta er að bæta að í fyrra haustaði óvenju snemma og lauk eiginlegu sumri þá svo snemma sem upp úr 20. ágúst.  Árin á undan, þ.e. 2004 og sérstaklega 2003 hélst sumarveðrátta út allan sepember svo ekki örlaði á nýsnævi til fjalla.  Þessi samanburður sýnir glögglega hve íslenska veðráttan getur verið breytileg.   


Frostlaust á láglendi, þrátt fyrir hryssinginn

Ísafjörður 30. ágúst kl. 09:52

Það kemur nokkuð á óvart að hvergi skuli hafa fryst á láglendi í nótt, miðað við hvað kólnað hefur og hvað bjart var víða sunnanlands í gærkvöldi og loftið einnig fremur þurrt.  Lægstur varð hitinn á láglendi í Norðurhjáleigu í Álftaveri 1,6°C og 2,1°C á Hjarðarlandi sem er skammt frá Geysi í Haukadal. Til fjalla frysti þó eins og myndirnar sýna augljóslega. Þannig varð frostið 1,5°C á Þverfjalli milli Skutulsfjarðar og Önundafjarðar.  Því snjóaði eðlilega ofantil í fjöll þar sem úrkoma hefur verið fyrir vestan í nótt.  Á Hveravöllum, í 640 metra hæð, fór hitinn ekki nema rétt niður undir frostmark í nótt.

Hér er tengill á ágæta vefmyndavél frá miðbæ Ísafjarðar, en myndin hér er frá henni kl. 09:52 í morgun.


mbl.is Snjóar í fjöll á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfir 100 mm úrkoma á Siglufirði sl. sólarhring

Uppsöfnuð úrkoma á Siglufirði

Séu skoðaðar sjálfvirkar úrkomumælingar Veðurstofunnar á Siglufirði sést að úrkoman frá því kl. 09 í gærmorgun nálgast það að vera 110-120 mm.  Það sem vekur sérstaka athygli mína er hvað úrkomuákefðin er jöfn mest allan þennan tíma, en halli úrkomuferilsins samsvarar 5-7 mm/klst.  Það telst mikið. En það sést líka að dregið hefur úr mestu úrkomuákefðinni frá því snemma í nótt, þó ekki hafi stytt upp.  Fylgjast má með breytingum á slóðinni; http://www.vedur.is/athuganir/sjalfvirkar/sifjo/index_1d.html

ESv


mbl.is Dregið úr úrkomu á Siglufirði; ástandið betra að sögn lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarfjarðardalir úr lofti

Þoka í Borgarfirði 2. ágúst 2006

Á myndinni má sjá hvernig þokan fyllir dali Borgarfjarðar þar sem aðeins hæstu fjöll og ásar standa upp úr.  Þessi mynd er tekin úr flugvél 2. ágúst síðastliðinn. Þennan dag var nokkuð bjart yfir landinu sunnan- og vestanverðu, en þoka skreið inn á láglendið við Faxaflóa þegar leið á daginn í suðvestanátt.  Þokan fyllir dalina, en fjöllin standa upp úr eins og hvalbök. 


Hvað hlýjast í dag á Reykjum tveimur

Séð suður yfir Borðeyri, við vestanverðann Hrútafjörð, í Húnaflóa.

Þennan dag, sunnudag 20. ágúst varð hlýjast 21,0°C á Reykjum í Fnjóskadal.  Eftir að sett var upp sjálfvirk stöð á þessum stað innarlega í Fnjóskadal, nokkuð framan við sumarhúsin á Illugastöðum, fyrir þá sem þarna þekkja til, að þá er þessi staður einn nokkurra á Norðurlandi sem komast gjarnan á toppinn yfir hæsta hita dagsins. 

En í dag varð einnig allt eins hlýtt á öðrum Reykjum, nefnilega þeim í Hrútafirði.  Þar varð hitinn hæstur í dag 19,2°.  Það er hins vegar fátíðara að veðurstöðin við Hrútafjörðinn blandi sér í toppslaginn.  Alþekkt er hvað svöl hafgolan er ráðandi á þessum slóðum, jafnvel á bestu sólardögum, nema þegar vindur er ákveðinn af suðaustri en þá getur verið notarlegt að vera í Hrútafirði.  Það veðurlag er nokkuð algengt þegar kemur fram á haustið í september eða október. 


Veðurspá fyrir Pæjumótið á Siglufirði

Frá Pæjumóti á Siglufirði 2005

Þar sem ég er á leið á Pæjumótið í fótbolta í Siglufirði síðar í dag geri ég hér sérstaka spá fyrir Siglufjörð af því tilefni.  Þetta er vitanlega afar eigingjarnt sjónarmið en ég læt spánna samt vaða fyrir alla helgina:

Siglufjörður: Í dag föstudag mun stytta upp og lægja frá því sem var í nótt.  Áfram verður þó skýjað að mestu og hægur vindur af suðvestri.  Hiti 10-11 stig.  Laugardagur:  Skýjað með köflum og þurrt, sólarglennur yfir miðjan daginn.  Hægur breytilegur vindur og hiti 13-15°C.  Seint um kvöldið vex vindur af SV og má gera ráð fyrir um 5-8 m/s og dálítilli rigningu um nóttina.  Sunnudagur: Snýst til N-áttar um morguninn, en hún verður þó hæg. Fremur þungbúið og súld eða rigning með köflum.  Hiti um 9°C.

 


Hinsegin veður í Reykjavík

Hinsegindagar í Reykjavík 2005

Það lítur nokkuð vel út með veður á Hinsegindögum í Reykjavík á morgun.  Í fyrramálið ætti sólin að láta sjá sig á annars heldur skýjuðum himni.  Vindur verður hægur, suðaustnstæður og hitinn þetta 13-15°C.  Gæti verið verra ekki satt ?.  Annað kvöld (laugardag) er síðan útlit fyrir úrkomusvæði úr vestri inn yfir landið og þá mun rigna dálítið í Reykjavík og vindur aukast lítið eitt. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að hann muni haldast þurr til kl. 19.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 3
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 78
  • Frá upphafi: 1791726

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband