13.1.2013
Ársúrkomutölur fyrir austan
Nú um helgina flutti ég tvo fyrirlestra um staðbundið veður austanlands á vegum Austurbrúar á Egilsstöðum og í Neskaupstað og kostuð voru að hluta af Afli starfsgreinafélags og SÚN á Norðfirði. Góð þátttaka var á báðum stöðum og fínar umræður spunnust um sérkenni veðurs á Héraði annars vegar og Austfjörðum hins vegar.
Eitt af því sem ég sýndi voru súlurit yfir ársúrkomu síðustu áratugina og fylgja þau hér með sem myndir. Annars vegar voru það gildi ársúrkomunnar Á Dalatanga frá 1949 til 2012 unnin upp úr gögnum sem sótt voru einfaldlega af heimasíðu VÍ hér. Hin ársgildaröðin var frá Grímsárvirkjun á Völlum, 1960-2011, gögn sótt á sama hátt. Fyrir ókunnuga er virkjun þessi nokkru innan við Egilsstaði.
Ársúrkoman á Dalatanga er um það bil tvöföld sú sem hún er við Grímsárvirkjun og er það nokkuð dæmigert hlutföll úrkomunnar á milli Héraðs og fjarðanna. Sé reiknuð leitni yfir þessu tímabil sem ekki eru alveg þau sömu kemur í ljós að úrkoman síðust ártugi er talsvert vaxandi og er vöxturinn áþekkur á báðum þessum mælistöðum eða um 50 mm á áratug. Í raun er það ótrúlega mikill aukning og fær nær örugglega ekki staðist yfir enn lengra tímabil. Hlutfallslega er aukningin meiri fyrir Grímsárvirkjun eða af stærðargráðunni 35-40% á um 50 árum.
Við mat á leitni skipir miklu val á tímabili og hversu langt það er. Hægt er að hafa áhrif á leitni með "réttu" vali á upphafsárum. Það var þó ekki gert hér, 1949 er einfaldlega fyrsta aðgengilega árið í á Dalatanga í gagnasafni VÍ og mælingar á hinni úrkomustöðinni hófust um mitt ár 1959. Þó er vitað m.a. frá Teigarhorni sunnar á Austfjörðum að þar mældist hlutfallslega nokkuð mikil ársúrkoma flest árin upp úr 1930. Hefðu þau verið aðgengileg má ætla að leitnin hefð reiknast nokkru minni á þessum stöðvum.
Í greinargerð frá árinu 2003 (Trausti Jónsson, Langtímasveiflur II. Úrkoma og úrkomutíðni) reiknast leitni ársúrkomunnar á Teigarhorni hafa verið um 11 mm á áratug miðað við 1873 til 2001 sem er á svipuðu róli og í Stykkishólmi fyrir sama tímabil.
En ef úrkoman er hefur verið þetta vaxandi á Dalatanga frá því um miðja síðustu öld eða síðustu rúmlega 60 ár, hvað segir þá hitinn okkur ? Á Dalatanga nemur hlýnunin ekki nema 0,1°C á áratug sem er heldur minna þar en víðast annars á landinu. Aukningin í úrkomunni fyrir austan verður því ekki að nema óverulegu leyti skýrð af hækkandi hita. Aðrir þættir eru þar valdandi og e.t.v. í ætt við þá sem Trausti nefnir í lokaorðum þessarar 10 ára gömlu greinargerðar sinnar að úrkoma um norðaustanvert landið sé einkum háð loftþrýstingi. Hins vegar þegar litið er á leitni ársþrýstings á sama hátt og úrkomu og hita kemur í ljós að litlar breytingar hafa orðið á þessu tímabil. Meðalloftþrýstingur hefur þó aðeins farið lækkandi, en varla getur það talist marktækt.
Þá stendur eftir sú ósvaraða spurning. Hvað er það sem orsakað hefur greinilegri aukningu ársúrkomunnar á Austurlandi (a.m.k. á Dalatanga og við Grímsárvirkjun) síðustu 50 til 60 árin ?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 14.1.2013 kl. 08:02 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.10.): 11
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 91
- Frá upphafi: 1788406
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 79
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.