Enn sól - hlýjast í Hrútafirði

Að loknum mörgum dýrðar veðurdögum á ferðalagi um landið er mál að linni og tími til kominn að uppfæra veðurbloggið.

MODIS_11júlí2012.pngÆði margt frásagnarvert hefur á daga okkar landsmann drifið síðustu tvær vikurnar, allt sólskinið, úrkomuleysið o.s.frv.

Enn einn sólardagurinn á landinu í dag 11. júlí eins og MODIS myndin frá kl. 13 sýnir mæta vel. Það mótar líka vel fyfir hafísnum sem verið hefur að færast nær undan Vestfjörðum.  

Hlýjast í dag var í Ásgarði í Dölum 20,3°C og álíka hlýtt eða 19,9 á Reykjum í Hrútafirði.  Einhverntímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að hvað hlýjast um mitt sumar væri við Hrútafjörðinn (Ásgarður er nú einu sinni staðsettur rétt handan Hrútafjarðar)*.  En þetta er kannski dæmigert fyrir hið sérkennilega ástand sem nú er í veðrinu.

Miðja háþýstisvæðis var svo að segja yfir miðju landinu í dag.  Þegar þannig háttar til er niðurstreymi lofts hið efra loftið stöðugt og bólstraský í mótun vegna uppstreymis rekast upp undir niðurstreymissvæðið og þau koðna því niður.  Því fannst mér nokkuð sérkennilegt að heyra stöðugt klifað á því í veðurspám frá Veðurstofunni í dag að líkur væru á síðdegisskúrum suðvestanlands.  Lítið var hins vegar um ský utan klósiga eða slæða af hæstu skýjum.  Þó kann að hafa gert skúr innst í botni Hvalfjarðar, en þar mátti sjá greinilegan bólstur og mögulega úrkomu á veðurratsjánni.

11.júlí_2012 Greining_kl12_Wetterzentrale.pngÞessi hæð yfir landinu er nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún á rót sína í háþrýstingi yfir Grænlandi. Þar er aldrei þessu vant ekki kalt, heldur sérlega hlýtt í lofti, eiginlega óvenjulega hlýtt þar sem í 1.500 metra hæða er víða 5 til 8°C.  Hitastigullinn í þeirri hæð er öfugur, þ.e. sá hiti er fyrir norðan og norðvestan Íslands, en til suðurs kólnar niður fyrir 0°C í þessari hæð skammt suður af Íslandi.  Þetta sést ágætlega á greiningarkorti 850 hPa flatarins frá GFS sem fengið er af  Wetterzentrale.  Sólin bakar líka strendur Grænlands og nú síðdegis var hitinn mældur 21°C á flugvellinum í Syðri Straumsfirði á V-Grænlandi (67°N).

*Svo ekki sé hallað réttu máli verður oft á tíðum hvað hlýjast á landinu við hinn svala Hrútafjörð og Húnaflóa að haustinu í SA-átt með úrhelli suðaustan- og austanlands.


Jökulsá á Fjöllum að komast í sitt sumarrennsli

Jökulsá á Fjöllum 2012/VÍ.pngJöklaleysing er nú að komast á fullt sem sést vel með því að rýna í rennslistölur jökulfljótanna.  Jökulsá á Fjöllum er í sérstöku uppáhaldi hjá mér í þeim efnum.  Bæði er vatnasviðið stórt jökli og skammvinn rigning hefur minni truflanir en á flest önnur vatnsföll.  Þar fyrir utan en rennsli Jökulsár á Fjöllum ótruflað með öllu.

Vatnsmælinn við Grímsstaði sýndi hámarks rennsli gærdagsins nærri 315-320 rúmmetrar á sekúndu og það fer nú vaxandi með hverjum deginum. Línuritið af vef VÍ sýnir rennslið frá 13. júní. Vatnsmagnið stendur í beinu samhengi við ísbráðnun uppi á Dyngjujökli (og að hluta einnig úr Brúarjökli).  Í fyrrasumar var áþekku hámarksrennsli dagsins ekki náð fyrr en um 12.-13.júlí. Þá var líka enn kaldara fram eftir öllu sumri en nú hefur verið. 

Við samanburð fyrri ára má sjá á vatnafarssíðu Veðurstofunnar sem ég hvet lesendur til að kynna sér, að hlutfalstala rennslis sé  rúmlega 90%.  Það þýðir að í 1 ári af hverjum 10 hefur rennslið verið meira á þessum árstíma en nú er.  Því má segja að leysingin fari af stað af krafti síðustu daga eftir kalt vor.  

Hafa verður í huga að sólgeislunin sjálf á ríkan þátt í bráðnun, en mjög sólríkt hefur verið að undanförnu eins og við vitum.  Jökulsporðurinn er jafnfram óhreinn af ösku eins og sjá hefur mátt á tunglmyndum að undanförnu.  Stór hluti vatnasviðsins á jökli er þó enn hulinn tiltölulega hreinum og endurkastandi nýsnjó.  Annars væri bráðnunin orðinn enn meiri.  Hann er hins vegar á hröðu undanhaldi og "óhreini" hlutinn stækkar stöðugt.

 


Fyrstu raunverulegu sumardagarnir

MODIS_23June2012_1330.pngSíðustu dagar hafa verið sérdeilis blíðir og góðir sumardagar og útlit er fyrir áframhaldandi veðurlag fram á fimmtudag.  Breytingar svo sem enn ekki skýrar eftir það og þess vegna gæti veðurlag með einkenni af háum loftþrýstingi og þurru veðrir áfram verið viðvarandi.

MODIS-myndin er frá í gær kl. 13:30. Þá fór hitinn í um 21 til 22°C á nokkrum stöðum, s.s. eins á Reykjum í Fnjóskadal og á Húsafelli.  Hitinn verður ekkert mikið hærri en þetta á landinu við þær aðstæður sem nú ríkja.  Það er áttleysa og hafgola við sjóinn.

Menn geta alveg verið mér ósammála þegar ég segi að raunverulegt sumar hafi hafist á sumarsólstöðum 20.-21. júní.  Um það leyti gerðist tvennt sem markar tímamót í þessum efnum.  Í fyrsta lagi var 22. júní fyrsti dagurinn í sumar þar sem ekki mældist nokkurs staðar næturfrost á landinu, en næturkuldi hefur verið óvenju þrálátur og hvimleiður til þessa. 

Hitt atriðið snýr að hálendinu en það er ekki fyrr en allra síðustu daga sem þar hefur hlýnað að marki.  Þannig hefur sólarhringsmeðaltal hita á Hvravöllum síðustu tvo daga náð 10 stigum, en það er óbrigðult merki þess að þar sé komið sumartíð. Í fyrra var kalt í júní og ekki fyrr en 4. júlí sem sólarhringsmeðaltala hita náði fyrst 10°C í á Hveravöllum.

Þetta markar í mínum tíma upphaf miðsumars sem mun að öllum líkinum vara fram yfir miðjan ágúst og kannski lengur.   


Hvar á norðurhveli er kæfandi hiti ?

rhavn241.gifLítið hefur farið fyrir fréttum á þessu sumri af kæfandi hita einhvers staðar í veröldinni.  Ef til vill er tíminn ekki alveg kominn, frekar í júlí sem von er á hitabylgjum á meginlandi Evrópu, í Asíu eða N-Ameríku.  Með þess lags hitabylgju á maður við þrúgandi sumarhita um og yfir líkamshita og norðægum slóðum þar sem slíkt ástand endurtekur sig á nokkurra ára eða áratuga fresti.

Í fyrra voru fréttir um þetta leyti af hitum í Austur-Evrópu og Rússlandi.  Nú er heins vegar tiltölulega svalt þar um slóðir.

Það er helst í Mið-vestur fylkjum Bandaríkjanna sem hægt er að tala um raunverulega sumarhita þessa dagana og síðan í Rússlandi austan Úralfjallana í Vestur-Síberíu.  Frá báðum þessum stöðum berast sjaldnast fregnir af veðurlagi, nema þegar náttúruhamfarir af völdum veðurs ganga yfir. 

montana.jpgÁ meðfylgjandi spákorti frá GFS í Bandaríkjunum og birt er á Wetterzentrale.de, er Norðurpóllinn fyrir miðju og Ísland blasir á þægilegum stað. Það gildir á mánudag (25. júní) kl. 00.  Hæð 500hPa flatarins er lituð og segja má að eftir því sem rauði liturinn er meira áberandi er loftmassinn hlýrri.  Hæðin nær 600 dm austan Klettafjallanna, sem telst með hærri gildum sem sjást fyrir þessa stærð.  Hitinn í lægri lögum teygir sig til norðurs frá hámarkinu og í landamærafylkinu Montana við Kanada er þannig spáð um og yfir 40 stiga hita næstu daga í stærstu borginni Billings sem er í tæplega 1.000 metra hæð. Það má því teljast liklegt að ferðamenn á slóðum Yellowstone og fleiri stöðum strórbrotinnar náttúru vilji sækja hærra uppí Klettafjöllinn og sækja þannig í aukinn svalan þar uppi.

 


Lítill vindur að undanförnu, réttilega hægviðrasamt

Í þeim háþrýstingi sem ríkt hefur meira og minna undanfarnar vikur er greinilegt hvað hefur verið hefur verið hægviðrasamt lengi.  Jafn gott, því aðeins minnháttar blástur kæmi þurrum jarðveginunum nú af stað með tilheyrandi sand- eða moldroki, einkum af hálendinu.

Á mæli Veðurstofunnar í Reykjavík er þessa fyrstu 20 daga mánaðins meðalvindurinn 2,7 m/s.  Það telst vera afar lítill vindur.  Til samanburðar var í júní öll árin 2001-2008 vindhraðinn i júní á bilinu 3,2 til 4,0 m að jafnaði.  Hægviðrasamt var hins vegar 2009 og aftur 2010. Síðan aftur nú.  Mestur mældur 10 mínútna vindur í mánuðinum er  til þessa ekki nema 7,3 m/s.  Sá "strekkingur" mældist um miðjan dag þann 6. júní.  Víðar á landinu hefur vindur verið hægur það sem af er sumri og veður þar með blítt.  Helst að hafgolan þar sem hún nær sér á strik hafi verið að plaga menn. 

Hægur meðalvindur í Reykjavík í ár stendur í nánum tengslum við háan loftþrýsting.  Hann einn tryggir þó ekki hægviðri, því mörg dæmi eru um tiltölulega háa stöðu loftvogar saman með þrálátum N-næðingi á landinu.  Sú hefur hins vegar ekki verið staðan nú frekar en snemmsumars 2009 og 2010. Þá voru fyrirstöðuhæðir á sveimi við landið líkt og nú og lægðagangur því í lágmarki.  

rtavn2281.pngNæstu daga og jafnvel viku eru horfur á svipuðu veðri, fáum þrýstilínum við landið og sólfarsvindur mest áberandi.  Eins hár loftþrýstingur líkt og verið hefur.   Júní 2009 þótti að mati Veðurstofunnar vera mjög hægviðasamur í öllum skilningi á landinu.  Spurning hvort við séum nú að sjá einhvers konar endurtekningu þremur árum seinna ? 

Þess má geta í eiginlegu framhjáhlaupi að hæsti mældi loftþrýstingur í júní hér á landi mældist rétt rúmlega 1040 hPa. Það var 21. júní 1939 eða einmit daginn áður en hitinn komst í 30,5°C á Teigarhorni, sem enn er skráð hitamet landsins.

Spákortið er úr ranni Bandarísku Veðurstofunnar af Wetterzentrale.de og gildir síðasta dag mánðarins.  Þið ráðið síðan hvort því trúið því, en gert er ráð fyrir um 1020 hPa hér á landi þann dag og greinilegri áframhaldandi stíflu í vestanvindabeltinu með tilheyrandi fyrirstöðuhæð sem þarna er reiknuð yfir V-Grænlandi.


Mörg er búmanns raunin

screen_shot_2012-06-19_at_12_26_45_am.pngHún var athyglisverð í meira lagi fréttin í kvöld á RÚV þar sem Þórarinn Leifsson bóndi í Keldudal í Skagafirði var að bjástra við við nýjan vökvunarbúnað sinn.  Síðan sást hvernig dælt var úr stöðuvatni og út yfir moldarflag eða "nýrækt".   Þetta hefur Þórarinn tekið til bragðs vegna lítillar úrkomu, ekki bara þetta vorið heldur hefur rigningarleysið verið tilfinnanlegt nokkur undanfarin vor.   Í fyrra náði t.a.m. fræið ekki að spíra og flagið hélst moldarbrúnt fram á haust !

Vökvun í hefðbundinni íslenskri túnræktun eða akuryrkju er algert nýmæli held ég.  Vissulega eru þekkt mjög þurr vor í veðurfarssögu síðustu áratuga, einkum á Norðurlandi. Sker júní 1971 sig þar nokkuð úr, en þá var úrkoma innan við 10 mm víðast um vestanvert landið og sums staðar ekki nema 1-2 allan mánuðinn. Þá bjargaðist á því að vikurnar á undan voru fremur votviðrasamar og eins tók að rigna hressilega víða fljótlega í júlí það ár.  Enn verra var 1931, en þá mældist engin úrkoma á Akureyri, alls engin ! 

screen_shot_2012-06-18_at_11_48_46_pm.pngSíðustu ár er eins og tíðin hafi tekið kerfisbundnum breytingum, með þeirri afleiðingu að snemmsumarúrkoma er minni, á meðan heildarúrkoma ársins er svipuð í öllum aðaltriðum og búast má við.  Það þýðir að á öðrum árstímum er úrkomusamara sem þessu nemur.  Þetta hefur verið reyndin vestan- og norðvestanlands frá því um 2007 og vart brugðist að ekki hafi komið þurr nokkurra vikna kafli einhverntímann á frá því snemma í maí fram í júlí.  Þessa tilgátu þarf vissulega að sannreyna betur með tölum.

Það er af sem áður var í búskap og fóðuröflun þegar votheysverkun var lausnin í heyöflun vegna sífelldra óþurrka.  Á áttunda áratugnum þýddi sums staðar ekki annað en að verka vothey í stað hafðbundinnar þurrkunar.  Í Strandasýslu var þannig um 80-90% allra heyja aflað með þessum hætti um 1975, vegna þess að þar var ekki hægt að  treysta á tveggja til þriggja daga samfelldan þurrk í júlí og ágúst !  Hér fylgir úrklippa úr Morgunblaðinu frá heyskapartíðinum  frá 5. ágúst 1978. Takið eftir fyrirsögnunum.   Flestir voru þarna illa settir nema votheysbændurnir.  Að vísu var sumarið 1978 eitt af þessum annáluðu óþurrkasumrum þessi árin sunnanlands og vestan. 

Á Strandasýslu og mun víðar hefði síðustu sumur mátt ná inn vel flestum heyjum ágætlega þurrum með gamla heyskaparlaginu (fyrir rúllabaggaöld).  Svo mikill er munurinn frá sumartíðinni sem var ríkjandi lengst af síðustu þrjá áratugi 20. aldarinnar.

Nú þarf hins vegar að vökva og margir bændur horfa víst  með öfundaraugum til tækjabúnaðar Þórarins í Hegranesinu, þar sem ekki hefur rignt nema 4 mm síðustu 4 vikurnar eða svo (á Bergsstöðum).


Via Nordica

screen_shot_2012-06-13_at_11_47_58_pm.pngmann_treering.jpgAldrei þessu vant gat maður á litla Íslandi valið um áhugaverða fyrirlestra í hádeginu í dag.  Annars vegar var að skunda uppí Háskóla og hlýða á Michael Mann hinn víðafræga veðurfarsfræðing úr loftslagsumræðunni. Höfund sjálfs "ícehockey stick" ferils hitans á jörðinni frá árinu 1000.   Hins vegar stóð valið um að sækja fund á sama tíma á stóru norænu vegaráðstefnunni Via Nordica í Hörpunni um veðurhorfur til ársins 2100 og áhrif á vegakerfið á norðurslóðum.  Eftir vangaveltur fram og til baka varð Via Nordica varð fyrir valinu.

dsc_6518.jpg5 stuttar kynningar undir stjórn Skúla Þórðarsonar sem unnið hefur með Vegagerðinni að aðlögun veghalds að hlýrra loftslagi í framtíðinni.

Hækkun hita saman með aukinni úrkomu hefur í för með sér margvíslegar afleiðingar sem ekki eru allar augljósar við fyrstu sýn. 

Bent var á tilvik frá N-Svíþjóð.  Í desember 2010 gerði afar óvenjulegt þíðviðri.  Við verðum að hafa í huga að í norðurhluta Skandinavíu fjarri sjó ríkir meginlandsloftslag og að vetrinum talsvert og stöðugt frost.  Nær sjónum við Noregsstrendur á þessum breiddargráðum ber hins vegar á meiri breytileika, rétt eins og við þekkjum vissulega hér á landi.  En sem sagt þarna rétt fyrir jólin hlánaði um hávetur í nokkurn tíma öllum að óvörum.  Fyrir vikið fór klaki óvænt úr vegum, nokkuð sem aldrei hefði gerst áður.  Þessi óvænta þíða olli skemmdum á vegakerfinu sem kostaði yfir 1.500 milljónir íslenskar að lagfæra.  

Við hækkandi hita að vetrinum saman með meiri úrkomu gerist m.a. eftirfarandi á norðurslóðum:

  • Hætta á fleiri og meiri vetrarflóðum sem grefur vegi í sundur.
  • Meira um aurskriður á vegi á veturna og snemma vors.
  • Slitlag "mýkist" eftir því sem hiti fer ofar á milli plús og mínus (um 0°C).
  • Frost fer frekar úr vegi að vetrinum (nokkuð sem við hér á landi höfum fundið síðustu ár). Veldur veikingu burðarlaga og öldum í vegum.
  • Meira verður um snjó og snjómokstur á hærri fjallvegum.
  • Oftar slydda í stað þess að snjói með hærri hita og hætta á ísingu í kjölfarið.

Þá er ekki talað um óbein áhrif á veghald s.s. í fjöruborðinu með hækkandi sjávarmáli og fleiri slíkum þáttum sem taka þarf tillit til í skipulagi.

Jákvæð áhrif hlýnandi loftslags eru vissulega líka til staðar.  Einkum þar sem vetraráhrif eru lítil.  Þá síður klaki í vegi og minni hálkuvarnir og snjómokstur en annars væri.  Þetta á einkum við um S-Skandinavíu og kannski Danmörku. Ég þekki þó Dani sem eru á kafi í þessum málum sem eru því ósammála og segja að ef hlýni lítið eitt þar í landi (sama á við um England) fjölgi tilvikum ísingar á kostnað daga með snjómokstri.  E.t.v. erum við að horfa upp á eitthvað svipað síðustu árin hér á láglendi í það minnsta. 

Um boðskap Mann verður maður að lesa um í fjölmiðlum og ég þykist vita að hann hafi verið umhugsunarverður.

 

 


Þurrt vestanlands frá 27. maí

brack2a.gifEf frá er talið eitt síðdegi 7. júní hefur verið alveg úrkomulaust víðast hvar á Vesturlandi frá 27. maí.  Þetta umrædda síðdegi mældust 0,6 mm í Stykkishólmi og 0,9 mm í Reykjavík.  Úrkoma sem skiptir alls engu í heildarsamhenginu, en rýfur engu að síður samfellu þurrkatímabilsins sem annars væri á 17. degi í  dag 12. júní.

Næstu daga er allt útlit fyrir að svipað ástand vari, en Suðurland fær að öllum líkindum síðdegisskúri á fimmtudag og sennilega einnig á föstudag og laugardag, en þessa daga fer enn kólnandi um austanvert landið.  Ekki síður í háloftunum og þá verða skilyrði til uppstreymis og myndunar háreistra skýjabólstra.  Raki sem efniviður í slík ský verður þó að koma af hafi því eitt er víst að ekki gufar mikið upp úr þurrum sverðinum nú.  Alls endis óvíst er hvort þessar skúrir ná til Vesturlands og enn síður vestur á Breiðafjörð eða til Vestfjarða. 

Samkvæmt reiknuðum veðurspám helst þetta þurra veðurlag til a.m.k. 18. til 19. júní.  Lægðir með röku lofti af Atlantshafinu berast nú allar til austurs og jafnvel suðausturs því enn og aftur er komin fyrirstöðuhæð við Suður-Grænlands.  Á sólríka kaflanum um mánaðarmótin var svipuð staða, en hæðin þá heldur nær okkur og þá streymdi kuldinn í norðri til suðurs fyrir austan land.  Nú nær hann hins vegar vel inn á austanvert landið og þar hefur og mun verða áfram ansi hreint kalt miðað við árstíma.  Austan- og norðaustanlands er það ekki þurrkurinn sem tefur gróður heldur kuldinn.

Stöðugt er gert ráð fyrir breytingum á 8. til 10. degi spátímans, nokkuð sem ekkert verður síðan úr.  Sú breyting er í dag að spá Evrósku reiknimiðstöðvarinnar er  þófinu hætt og reiknar með óbreyttu veðri út spátímann, eða fram að sólstöðum á meðan sú Bandaríska situr föst við sinn keip og gerir ráð fyrir S-átt á 8. degi héðan í frá ! 

Kortið er frá Bresku veðurstofunni og gildir kl. 12 á föstudag.  Vel sést hvað háþrýstingurinn er allsráðandivið landi og langt í lægðir með raka.  Skáletruð lína þykktar upp á 528 dekametra er við norðaustanvert landið.  Þarna er á ferðinni kjarni kuldans úr norðri.  


Veðurfarsbreytingar og æðarfugl

aerfugl-bredde_none_large.jpgÁ Svalbarða heldur til nyrsti stofn æðarfugls.  Stofnstærð er áætluð um 13.000 - 27.500 varppör en til samanburðar um 250.000 pör hér á landi (18 ára gamlar tölur).  Segja má að æðurinn við Svalbarða sé á norðurmörkum síns búsvæðis, en undirtegundin þar er sú sama og hér  við land.  Færeyski æðarfuglinn er hins vegar af annarri undirtegund svo dæmi sé tekið. Hér á landi er æðarfuglinn staðfugl, en á Svalbarða er áætlað að stærstur hluti stofnsins haldi til vetrarstöðva, að tveimur þriðju hluta til Íslands og afgangurinn til Norður-Noregs.  

Með hlýnandi veðurfari, hækkandi sjávarhita og hörfun íssins flytjast til hentug búsvæði fugla.  Það eru gömul sannindi og ný.  Hækkun lofthita hefur síðustu 15-20 árin óvíða verið meiri en einmitt á Svalbarða. Að verulegu leyti má tengja þá miklu breytingar við hörfun ísjaðarins til norðurs og því einkum hærri vetrar- og vorhita eða öllu heldur minna frost á þeim árstímum.  Á Svalbarða er  því kjörlendi fyrir þá vísindmenn sem vilja vakta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi.

Sumarið er þrátt fyrir allt stutt á þessum slóðum og tíminn til að koma upp ungum því knappur. En með hörfun íssins batna þó afkomumöguleikar æðursins og samkvæmt öllu ætti því stofnstærðin að fara stækkandi.  Þau viðbrögð hafa samkvæmt frásögn á forskning.no látið á sér standa, enn sem komið er a.m.k.  Æðarfuglinn hefur verið alfriðaður á Svalbarða frá 1963, en áratugina þar á undan var þessum viðkvæma stofni ógnað af  veiðum og öðrum nytjum.

Ein þeirra skýringa sem nefnd er fyrir því að fuglinum hefur ekki fjölgað er aukið afrán hvítabjarna ! Æðarfuglinn verður fremur gamall og rannsóknir hér á landi benda til þess að afkoma fullorðna fuglsins sé ekki síður mikilvæg fyrir stofnstærðina en viðkoman, þ.e. hvað kollan kemur upp mörgum ungum í hvert skipti.  

En vera má að viðbragðstíminn sé einfaldlega lengri, að stofninn eigi einfaldlega eftir að taka út hægan vöxt með bættum fæðu- og lífsskilyrðum sem fylgja hærri sjávarhita og minni ís. Hér á landi eru stofnstærðartölur æðarfugls komnar til ára sinna, en við eigum flinka æðarransakendur s.s. eins og Ævar Petersen hjá Náttúrufræðistofnun og Jón Einar Jónsson forstöðumann Rannsóknarseturs HÍ á Snæfellsnesi. Hér með er skorað á þá að gefa út nýja áætlaða stöðu hins firnasterka æðarstofns hér við land og áhrif hækkandi sjávarhita á stofninn.

Ljósm: Sveinn Are Hansson. Æðarkolla á merktu hreiðri á Svalbarða þar sem sjá má í baksýn jökul kelfa í sjó fram. 


Vatn í jarðvegi - vöntun mælinga

olafur_arnalds_ii.jpgHlýddi á Ólaf Arnalds á opnum fyrirlestri í gær um vatn í jarðvegi og miklivægi jarðvegs í allri vatnsmiðlun.  Fyrirlesturinn var í röð hádegisfyrirlestra; Má bjóða þér vatn ?  Sjá nánar hér.

Ólafur benti m.a. á þá staðreynd að vatnmagn sem hverju sinni er í jarðvegi er af stærðargráðunni 3 til 4 sinnum meira en það sem er í lofthjúpnum. Í jarðvegi stendur vatnið við ef svo má segja að jafnaði í um 1 mánuð áður en það rennur fram í ár og læki, niður í grunnvatnið eða er tekið upp með plöntum og gufar síðan á endanum út. Þá er ótalin bein uppgufun vatns úr jarðvegi.  Á móti er úrkoman vitanlega í aðalhlutverki við að endurnýja jarðvegsvatn, en á okkar slóðum á þessum árstíma gegna leysingar líka miklu hlutverki við að auka á jarðrakann.

Ýmislegt athyglisvert kom fram hjá Ólafi sem mikið hefur fengist við rannsóknir á hinum einstaka eldfjallajarðvegi (andosol) sem er mjög ríkjandi hér  á landi. Sjá almennan fróðleik um íslenskar jarðvegsgerðir t.d. hér.  Nokkuð nákvæmt jarðvegskort af Íslandi er líka til og var birt í Náttúrufræðingnum árið 2009.  Ólíkt því sem ætla mætti að þá er eldfjallajarðvegurinn mjög vatnsheldinn og þá einkum þar sem hann er fínkornóttur og hefur myndast við áfok. Hraun og vikurbreiður eru síðan dæmi um hið gagnstæða.  Stór kornstærð veldur því að slýkt yfirborð er gropið og vatn á greiða leið niður. Reyndar tölum við varla um hraun sem jarðveg í eiginlegri merkingu.

Eins og við höfum öll fundið á eigin skinni hafa síðustu 10 dagar eða svo verið nánast alveg þurrir á Suður- og Vesturlandi, þó örlítið hafi rignt síðast sólarhrigninn sums staðar.  Í sterkri sólinni gufar mikið vatn upp úr efstu lögum jaðrvegs bæði með beinum hætti og um plöntur.  Maður skyldi ætla að jarðvegurinn hafi náð þornað mjög þessa daga.

Ég spurði Ólaf í dag hvort fylgst væri einhvers  staðar með vatnsinnihaldihaldi jarðvegs eða rakstigi hans á kerfisbundin hátt.  Svo sem vissi ég innst inni svarið, því mælingar á jarðvegsraka eru hvergi gerðar hér á landi ef frá eru taldar mælingar Vegagerðarinnar í sniði niður á 120 sm dýpi í nokkrum vegum. Tilgangurinn er einkum sá þar að fylgjast með vatni í tengslum það þegar frost er að fara úr á vori. En vegur er manngerður og alls ekki dæmigerður jarðvegur þar sem er  gróið land. 

Hér á landi eru gerðar jarðvegshitamælingar niður á 50 sm dýpi af hálfu Veðurstofunnar á einum 5 stöðum ef ég tel þá rétt.   Raki í jörð er hins vegar ekki mældur og engar upplýsingar því til um sveiflur í vatnsinnihaldi jarðvegs á dæmigerðu þurrlendi hér á landi.  Úrkoma er hins vegar mæld á yfir 100 stöðum og fylgst er náið með grunnvatnsstöðu vítt og breytt um landið.  Í ljósi þess hvað jarðvegur er mikilvægur fyrir miðlun vatns er ákaflega sérkennilegt að grunnupplýisnga hafi ekki verið aflað um þennan þátt. Uppgufun er heldur ekki mæld og lítið í raun vitað um hana hér á landi.  Uppgufunarmælingar eru framkvæmdar með sérstökum uppgufunarpönnum og  áhugi mestur á þeim þar sem er skortur er á vatni. 

Það vantar því að kortleggja tvo mikilvæga þætti í vatnshringrásinni hér á landi og í raun mjög furðulegt að það hafi verið látið viðgangast allan þennan tíma án þess að nokkuð hafi verið gert.

extechmo750_1156205.jpgÍsland sem aðildarríki að Alþjóða Veðurfræðistofnuninni er skylt að miðla mælingum sem notaðar eru sem inntaksgögn í dagleg veðurspálíkön.  Kveðið er á um að daglega skuli sendar út mælingar á jarðvegsraka á 10 sm dýpi með sömu landfræðilegu upplausn (100 km) og gildir um þær lykilstöðvar í stöðvanetinu íslenska sem senda á 3ja klst fresti upplýsingar út um allan heim um loftþrýsting, vind, hita og loftraka. Rakamæling á 100 sm dýpi á síðan að sendast einu sinni í viku.

Þar sem þessar mælingar eru ekki gerðar vita veðurlíkönin ekkert upp jarðvegsrakann og uppgufunin er þá líka rangt reiknuð.  Yfir vetrartímann skipta þessar upplýsingar litlu fyrir veðrið, en þær geta verið afgerandi að sumarlagi þegar sólin bakar landið.  Jarðvegsrakinn hefur mikla þýðingu hversu hratt yfirborðið hitnar yfir daginn sem aftur er ráðandi fyrir tímasetningu hafgolunnar. Að sama skapi ef uppgufunin er ekki þekkt getur það komið út í rangri spá fyrir úrkomu.  Veðurlíkönin verða að "giska" á þessa þætti eða öllu heldur að þá er gert ráð fyrir einhverjum stöðlum sem ættaðir eru sunnar og þar sem jarðvegur hefur ólíka vatnseiginleika en eldfjallarðvegurinn hér.

Mig grunar að ástæða þess hve illa gengur að tímasetja hafgolu að sumrinu  í fínkvarða veðurlíkönum sem eiga að ná þessu betur en önnur með stærri reiknimöskva  megi rekja til til þess að líkanið ætlar jarðveg blautari (og því meiri uppgufun) en er í raun. Þetta veldur því líka að hafgolan er vanmetin í þessum spám, nær síður til innsveita o.s.frv.   Líka að þetta sé skýringin því hvað mér þykir oft úrkoma vera ofmetin í reiknuðu spánum á sumrin, oftar sé gert ráð fyrir skúrum en verður í raun.  Eina leiðin hins vegar til að leggja mat á þessi frávik sem ég hef sterklega á tilfinningunni að séu í þessa veru, er að mæla jarðvegsrakann á nokkrum stöðum og uppgufun frá a.m.k. einum stað til að fá einhverja hugmynd um stærðargráðu uppgufunar hér hér á landi. Afmarkaðar mælingar og rannsóknir í stuttan tíma hafa þó verið gerðar og á þeim byggist öll okkar þekking til þessa.   Með auknum mælingum og túlkun þeirra má síðan fínstilla reiknilíkönin upp á nýtt og fá með því móti vonandi nákvæmari spár að sumrinu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 1791017

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband