Veðurfarsleg stórtíðindi í uppsiglingu ?

Hef verið að leggja saman hitatölur fyrir júní og bera saman við gagnaraðir.  Yfirstandandi júnímánuður sýnist ætla að verða mjög hlýr á landinu og mánaðarmet virðast í vændum.

í Stykkishólmi þar sem mælt hefur verið samfellt frá 1845 er ekki að sjá annað að hugsanlega gæti mánuðurinn orðið sá allra hlýjasti í röð júnímánaða ef ekki bara sá hlýjasti. Ef það fer svo heyrði það  tvímælalaust til stórtíðinda í veðurfarssögunni.  Hlýtt var 2007 og eins 2003.  Þá var meðalhitinn í Hólminum yfir 10°C og gerst ekki oft að meðalhitinn þar fer í þær hæðir. Áður gerðist það 1941 og 1939.  Ef mælingarnar í Stykkishólmi reynast réttar og síðasti dagurinn verður ekki mjög kaldur (sem hann verður ekki !) er afar líklegt að júnímánaðurinn verði sá hlýjasti í 165 ára sögu samfelldra mælinga í Stykkishólmi. Árið 1871stendur þó nærri og eins 1846 ef út í það er farið.

Sama er með Reykjavíkurhitann í júní 2010.  Mánaðarmet kann að verða slegið og hitinn stefnir í það að fara þó nokkuð yfir 11°C, líkt og 2003.

Við bíðum spennt yfirferðar Veðurstofunnar strax eftir mánaðamótin ! 


Ísinn enn nærri þrátt fyrir hagstæðar vindáttir

ismynd27062010.png

Á meðfylgjandi mynd frá Jarðvísindastofnun HÍ frá því í gær má sjá að hafísinn er ekki svo langt undan Horni og úti fyrir Húnaflóa.  Síðustu dagana eða frá 22. til 23. júní hafa verið á svæðinu hagstæðir NA- og A-vindar, sem venjulega halda ísnum frá.  Svo er að sjá sem að hann haldi sér ágætlega þessa dagana hvað svo sem síðar verður. 

Þetta eru ekki nema um 30 mílur í jaðarinn úti af Kögri og jafngott að SV-átt láti ekki á sér kræla úti á Grænlandssundi við þessar aðstæður.  Reyndar er ekki annað að sjá en að heldur herði á NA-áttinni næstu daga og hafísjaðarinn ætti því að fjarlægjast.

 


Lítil snjóalög á Hornströndum

Úr Sigluvík í Reykjarfirði 21.júní 2010Var að koma úr velheppnaðri ferð um hluta Hornstranda.  Hafði heyrt það víða að lítið þýddi að ganga um þessar slóðir og yfir fjallaskörð þetta snemma sumars, eða um og upp úr 20. júní þar sem enn væri talsverður snjór.  Ég efa það ekki að slíkt á við í venjulegu árferði, en nú er bara ekkert sem hægt er að kalla venjulegt árferði í þessum efnum. Veðrið var gott, hlýtt framan af og sama sem úrkomulaust, en lágskýjað og þoka þegar leið á. Gróður var allur í miklum blóma og hvönnin stórvaxna á Hornströndum komin í öran sumarvöxt.

Á leið okkar frá Reykjarfirði norður í Hornvík, var 5 eða 6 sinnum farið yfir fjöll eða fjallaskörð.  Aðeins í tvígang urðu á vegi okkar litlir snjóskaflar og fönnin alræmda í Kýrskarði á milli Látravíkur og Hornvíkur var nánast horfin. 

Ragnar Jakobsson/vikari.isRagnar Jakobsson sem fæddur er í Reykjarfirði 1930 og hefur verið þar að a.m.k. sumarlagi meira og minna síðan, minnist þess ekki að snjór í fjöllum í sumarbyrjun hafi verið jafnlítill og nú. Munar þar mestu að veturinn ver sérlega snjóléttur á þessum slóðum og raunar til fjalla um mest allt land.  En hlýindakaflinn sem gerði dagana í kringum 17. júní hafði líka sitt að segja og grandaði smáskellum og fönnum til fjalla um alla Vestfirði. Enda sá á leiðinni norður Strandir á meðan enn var þetta hlýtt að lækir og vatnsfarvegir voru fjörugir þó lítið hafi farið fyrir rigningu dagana á undan.  

Í Reykjarfirði hafa menn einmitt talsverðar áhyggjur af skorti á vatni í árferði sem þessu í sumar, nema að taki að bregða til vætutíðar.


22°C Í Skaftafelli og á Hallormsstað

Í dag fór hitinn enn og aftur yfir 20°C á landinu.  Að þessu sinni varð hlýjast í Skaftafelli og rétt þar á eftir á Hallormsstað. Meira og minna var skýjað á landinu og enn hlýrra hefði orðið ef sólar hefði notið almennilega við, því loftið er vissulega hlýtt yfir landinu. Það er ákveðin SV-átt á landinu og þá verður ævinlega hvað heitast norðaustan- og austantil.

580-gjogur6.jpgSjálfur er ég staddur norður á Ströndum.  Á Gjögurflugvelli voru 15°C síðdegis og snörp gola af suðvestri þ.e. af landi. Þægilegt veður, en veit vel að ef áttin snýr sér til NA-áttar (sem er reyndar ekki að sjá í spánum) að þá fellur hitinn undir eins niður í 5 til 6°C.


Nánast ekkert rignt á Akureyri í nærri mánuð

Jón Ingi Cæsarsson.jpgÉg kallaði fram tölur, nokkurs konar hálfleikstölur fyrir júnímánuð.  Sá þá að nánast ekkert hefur rignt á Akureyri í mánuðinum, 1,1mm til að halda öllu til haga.  Svo lítil úrkoma skiptir vitanlega engu máli.  Þegar betur er að gáð sést að það rigndi heldur ekki neitt eða sama sem ekki neitt síðustu 10 til 12 daga mánaðarins.  Úrkoma sem talandi er um var síðast 19. til 20. maí á Akureyri.  

Þrátt fyrir þessa þurrkatíð er allur gróður í miklum blóma á Akureyri að sögn heimildarmanns míns, Þórarins Jóhannessonar lögreglumanns og veðurathugunarmanns.  Vindur hefur verið hægur og rekja eða dögg á næturnar og hjálpað upp á sakirnar.  Síðustu tvo daga hefur aftur á móti blásið af SV, þurru lofti og þá eykst útgufun plantnanna til mikilla muna.

Næstu fimm til sex dagana er ekki spáð úrkomu af neinu ráði við innanverðan Eyjafjörð.  Áfram verður SV-átt ríkjandi með þurru og mildu veðri.  Meðalhitinn á Akureyri um miðjan mánuð er þegar um 1°C yfir meðaltalinu.  Aðeins er hægt að tala um að kalt hafi verið fyrstu tvo dagana, en norðannepja af einhverju tagi er oft einkennandi fyrir tíðarfarið norðanlands fram eftir júnímánuði. 

Þessi þurrkakafli er ekki sá fyrsti á Akureyri í ár, því í janúar og reyndar fyrstu 40 daga ársins var úrkoma sama sem ekki nein og vakti það talsverð eftirtekt.  Hins vegar gerði mikla og væna snjókomu síðari hlutann í febrúar og eins í mars.  Í apríl og maí var úrkoman einnig eins og við á að búast. 

Myndin er úr fórum Jóns Inga Cæsarssonar á Akureyri og var tekinn 6. júní sl.


Veðurútlitið 17. júní og um helgina

hvanneyjarviti_1001087.gifVikulega í sumar mun ég senda spár á mbl.is þar sem rýnt verður í helgarveðrið.  Sú sem gerð var í morgun fer hér á eftir:

 

Fimmtudagur 17. júní:

Það lítur vel út með veðrið á þjóðahátíðardaginn.  Horfur eru á að úrkomulaust verði um land allt, en smávægileg rigning suðvestantil um kvöldið. Um norðan- og austanvert landið verður víðast léttskýjað eða jafnvel heiðríkt.  N- og NV-kul og því í svalara lagi við sjávarsíðuna, en 14 til 17 stiga hiti til landsins. Sunnan og suðvestantil má verður meira skýjað, mest þó háský og sólin nær í gegna annað veifið.  Hitinn þar 12 til 15 stig og vindurinn hægur þar eins og um land allt reyndar. 

Föstudagur 18. júní:

Hlýtt loft berst til landsins úr suðri og suðvestri og því er spáð að hitaskil með lítilsháttar úrkomu fari yfir landið.  Sunnan- og vestantil verður veður fremur þungbúið og einhver væta, einkum framan af degi.  Norðan og austantil verður aftur á móti bjart veður, e.t.v. háskýjað og fremur hlýtt í veðri.  Vindur hægur og snýst til S- og SV-áttar.  Hiti 15 til 20 stig, á Norður- og Austurlandi. 

Laugardagur 19. júní:

Það er sjá að mikil hlýindi og sumarblíða ætli að verða á austanverðu landinu frá Eyjafirði austur úr og eins suðaustanlands.  Hiti fer hæglega yfir 20 stig og jafnvel 25 nái sólin að skína glatt.  Óvissan er einmitt helst bundin skýjafarinu í SV-áttinni sem spáð er á laugardag.  Um vestan- og suðvestanvert landið verður við þessi skilyrði meira og minna skýjað og yfir daginn einhver súld eða rigning sennileg. Sums staðar gæti þó hangið alveg þurrt og hitinn þetta 11 til 15 stig. Vestantil á Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjörðum gæti orðið strekkingsvindur, þar líka hlýtt og líklega úrkomulaust og skýjað með köflum. 

Sunnudagur 20. júní:

Mestu hlýindin gefa heldur eftir, en engu að síður eru ágætar líkur á um og yfir 20 stiga hita þegar best lætur austanlands og ekki síður suðaustan- og sunnanlands.  Vindur verður meira vestalægur, jafnvel norðvestlægur ef af líkum lætur.  Strekkingur eða 10-12 m/s víða um norðvestanvert landið.  Ekki er spáð úrkomu á landinu, en vestantil verður skýjað að mestu og þar gæti orðið vottur af súld.  

 

 

 

 

 


Skjótt skipast....

picture_16_1000694.png27 stiga spá Veðurstofunnar fyrir laugardaginn hélt í sólarhring, en skjótt skipast veður lofti eins og sagt er.  Ekki síst á það við um veðurspárnar.  Nú er spáð 17°C og skúraveðri.  Í dag er að sjá smávægilegt lægðardrag með skýjum og einhverri úrkomu austur með norðurströndinni.  Slíkt er í raun nóg, allir þættir ekki lengur í botni þó svo að hlýtt loft sé yfir landinu.

Það breytir því ekki að enn er útlit fyrir væn sumarhlýindi norðaustan- og austanlands komandi daga.  


Sumarhlýindi eystra

cartoon-sun-thumb1008854.jpgÍ gær fór hitinn í 19,9°C á Hallormsstað.  Næstu daga lítur út fyrir einkar hagfelld skilyrði austanlands.  Það er spáð meira og minna landvindi þ.e. SV- og V-átt og það sem meira er loftið með þessu virðist stöðugt fara hlýnandi eftir því sem líður á vikuna. 

Spá Veðurstofunnar fyrir hádegishitann á Egilsstöðum svo tekið sé dæmi er eftirfarandi:

  • 14. júní:  18°C
  • 15. júní:  18°C
  • 16. júní:  17°C
  • 17. júní:  19°C
  • 18. júní:  24°C
  • 19. júní:  27°C

Þessir tveir síðustu dagar virka nú við fyrstu sýn ekkert sérlega trúverðugir, en málið er að loftið yfir landinu verður sérlega hlýtt gangi spáin eftir. Ekkert þó afbrigðilega, en nóg þó til að koma hitanum einhversstaðar um austanvert landið yfir 25°C svo fremi að sólin nái að skína og hafgolunni verði haldið frá með V- eða SV-átt af einhverju tagi.

Sumir eru komnir í sumarfrí og ef menn eru nú að leita að áningarstað með sumarblíðu ætti valið ekki að vera erfitt. Austanvert landið, frá Eyjafirði og austur úr.  Suðaustanlands ætti einnig að verða flesta þessa daga sólríkt og hlýtt, þó einhverjir dropar verði í þeim landshluta fyrsta kastið.  


Sumarþing Veðurfræðifélagsins

kristjan10_langtimaspa.pngSumarþing Veðurfræðifélagsins verður haldið í Víðgelmi að Orkugarði, Grensásvegi 9, þriðjudaginn 15. júní. Þingið er ókeypis og opið öllum er áhuga hafa á veðri og veðurfari.

Að þessu sinni skipast efnistök þingsins að mestu í tvo flokka, annars vegar efni sem tengjast veðurspám og hinsvegar tölfræðilegri úttekt á veðurfari.

Það er sönn ánægja að bjóða upp á erlendan gestafyrirlesara á sumarþinginu, dr. Kevin R. Wood, sem starfar hjá Joint Institute for the Study of the Atmosphere and Ocean (JISAO) sem er hluti af bandarísku haf- og loftrannsóknastofnuninni NOAA. Hann mun setja þingið með erindi er fjallar um langtímaveðurlag við Norður-Atlantshaf.

Dagskrá þingsins

  • 13:00 - Inngangur
  • 13:05 - Kevin Wood: Langtímaveðurlag við N-Atlantshaf (flutt á ensku)
  • 13:40 - Trausti Jónsson: Vik frá landsjöfnuðum hita. Árstíðasveifla.
  • 13:55 - Óli Páll Geirsson: Hágildi í úrkomu
  • 14:10 - Birgir Hrafnkelsson: Hágildi/lággildi í hitastigi

14:25 - Kaffihlé

  • 14:50 - Einar Sveinbjörnsson: Sumarspár - má eitthvað gagn hafa af þeim?
  • 15:05 - Kristján Jónasson: Ný langtímaspá fyrir öldina
  • 15:20 - Marius 0. Jonassen: On the possibility of improving a numerical weather prediction (NWP) system with input from an Unmanned Aircraft System (UAS)
  • 15:35 - Hálfdán Ágústsson: Hléiður - kynngi Snæfellsjökuls yfir Reykjavík
  • 15:50 - Guðrún Nína Petersen: Sögur að handan - fréttir af norræna veðurþinginu 2010

16:00 - Þingi slitið

 Myndir er frá Kristjáni Jónassyni sem ætlar að fjalla um nýja langtímaspá fyrir öldina.


Júní 1910 - fyrir einni öld

Í bókinni Veður á Íslandi í 100 ár eftir Trausta Jónsson fær júní 1910 þessi eftirmæli: "Kalt. Nokkuð skakviðrasamt vestan- og norðanlands framan af mánuðinum, m.a. gerði alhvíta jörð suður í Borgarfjörð, síðast 13. júní, en annars var betri tíð."

Ástæða þess að ég rifja hér upp tíðina fyrir hundrað árum er ekki sú að veðurfarið hafi verið sérlega afbrigðilegt með einhverjum hætti, heldur að afrakstur vinnu NOAA vestur í Bandaríkjunum á endurgreiningu veðurkorta liggur nú fyrir.  Dagleg veðurkort má nú nálgast allt aftur til ársins 1891.  Einfölduð yfirborðskort loftþrýstings hafa alllengi verið fáanleg svo langt aftur, en nú hefur tekist að reikna út ástand og lóðsnið alls lofthjúpsins út frá tiltölulega fáum athugunum á jörðu niðri.  Eins og gefur að skilja þarf víða að fylla í eyður og stunda ágiskanir, en niðurstaðan kemur engu að síður á óvart fyrir það hversu trúverðug hún er í raun.  Ég fjalla sérstaklega og nánar um þessa aðferðarfræði síðar, en einbeita mér hér frekar að júní 1910 og hvað hann sýnir.

Fyrst er hér veðurkort, sem afrakstur þessarar endurgreiningar. Talað er að snjóað hafi suður í Borgarfjörð, síðast 13. júní. Kortið hér að neðan sýnir hæðina á 1000 hPa fletinum og jafngildir þrýstingi við jörð í raun. Gildistíminn er 13. júní kl. 00. Sjá má að lægð hefur verið á Grænlandshafi og S-átt  á landinu. Sú til hægri sýnir hita í 850 hPa.  Hann hefur samkvæmt þessu verið um -2°C og bara sæmilega milt og engan veginn nógu kalt til þess að frá fram snjókomu.

 

picture_37_999832.pngpicture_38_999833.png

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta getur vart talist trúverðugt og skoðaði ég dagsetningar í kring. Ekki tókst að finna skýr skilyrði til snjókomu um þetta leyti þ.e. kalda N- eða V-átt.  

Ef hins vegar er tekið meðaltal hita í 1000 hPa fletinum allan mánuðinn kemur fram greinilegt kuldafrávik upp á 0,5- 1,0°C frá meðallagi á mest öllu landinu.  Athugið að viðmiðunartímabilið er ekki hin hefðbundnu 30 ár, hér 1921 til 1950.  Í Stykkishólmi var þannig frekar kalt og meðalhitinn ekki nema 6,8°C.  Það er næstum tveimur gráðum undir meðallagi og er það stuðst við sömu árin til viðmiðunar og hér.  

picture_39_999835.png

Þessa endurgreiningu frá NOAA sem svo miklar vonir eru bundnar við þarf klárlega að skoða með varúð. Dæmið hér að ofan frá því fyrir nákvæmlega öld eða 13. júní 1910, sýnir að hafa þarf varann á við túlkun. Og þá gef ég mér það vitanlega að dagsetningin í bók Trausta sé ekki röng !


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 57
  • Frá upphafi: 1790944

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 55
  • Gestir í dag: 9
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband