Norrænn loftslagsdagur 11. nóvember

nordiskklimadag138Sem hluti af undirbúnings loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP15) í Kaupmannahöfn í desember stendur norræna ráðherranefndin fyrir því sem kallast Norræni loftslagsdagurinn í dag 11. nóvember.

Dagskráin hér á landi er umfangsmeiri en ég hefði getað ímyndað mér. Í gær mátti sjá í fréttum sjónvarps tíðindi af stuttmyndagerð nemenda í Borgarholtsskóla um loftslagsmál þar sem sjónarhorn nemendanna virtist athyglisvert. Eins og fram kemur í frétt umhverfisráðuneytisins á m.a. að opna ljósmyndasýningu í Flensborgarskóla í Hafnarfirði sem ber yfirskriftina „Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands". Þessi sýning er samstarfsverkefni umhverfisráðuneytisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands og er sett upp í tilefni norræna loftslagsdagsins. Þá er heilmikil dagskrá í Langholtsskóla.

icebear138Það sem mér finnst áhugaverðast er það sem kallast heimsins stærsta farsímatilraunin. Þátttakendur eiga að vera í 7. – 10. bekk grunnskólans. 3-4 manna lið sem nota einn farsíma mega taka þátt.

Keppnin felst í að leysa tvö verkefni samtímis, Loftslagsverkefnið og Heita farsímann:

Loftslagsverkefnið

Í þessum hluta keppninnar reynir á hæfni nemendanna til að finna nýjar lausnir á loftslagsmálum. Nemendurnir fá sent verkefni sem þeir eiga að leysa á þremur tímum í gegnum símann. Loftslagsverkefnið fer fram í skólanum eða nærumhverfinu og notast verður við alla tækni í símanum (hljóðupptaka, mynd,kvikmynd).

Heiti farsíminn

15 spurningar um loftslagsmál, sem svarað er með því að velja einn af tveimur valmöguleikum.
Spurningarnar koma sem sms og er einnig svarað á þann hátt. Verkefnið er metið eftir fjölda réttra svara.

Það verður fróðlegt að sjá hve margir taka þátt hér á landi og eins væri reynandi að komast yfir spurningarnar og  verkefnin til birtingar hér svona eftir á !

 


Mannskæð IDA í lok slapprar fellbyljatíðar Atlantshafsins

Fellibylurinn IDA sem olli mannskaða þegar hann fór yfir Nigaragua á leið sinni áfram inn í Mexíkóflóa, er þriðji fellibylur þessa tímabils.  IDA er nú hitabeltisstormur, varla nema grunn lægð sé horft á þrýsting í miðju og gerir varla mikinn usla úr þessu þó svo að blásið sé í herlúðra í fréttaskeytum frá Bandaríkjunum.

Tímabilið er frá 1. júlí til 30. nóvember á Atlantshafinu.  Þrír fellibylir hafa komið fram, BILL og FRED auk þessa. Þeir voru báðir frekar öflugir, en FRED var aldrei nálægt því að koma nærri landi.

pastprofileATMyndin er fengin frá NOAA og sýnir uppsafnaða meðaltíðni eftir því sem líður á tímabilið.  Meðaltala skilgreindra fellibylja er 6, miðað við 3 nú.

Hitabeltislægðir koma fram þetta seint tímabilsins, en ólíklegt er að þær nái fellibyljastyrk úr þessu.  Ef við gefum okkur það að virknin sé svo gott sem búin hafa ekki verið færri fellibyljir og hitabeltisstormar á Atlantshafinu í yfir 10 ár eða frá því 1996. Ef IDA hefði ekki komið fram þyrfti að fara alveg aftur til 1982 og 1983 í samanburði.

 

Þetta haustið hefur hins vegar virknin verið meiri á Kyrrahafinu úti fyrir vesturströnd Mið- og Norður-Ameríku.  En það er hins vegar Asíumegin við Kyrrahafið sem fellibyljir hafa herjað á fjölmenn og viðkvæm landssvæði með miklum og alvarlegum afleiðingum, s.s. á Filippseyjum sem fengu tvo slíka yfir sig með skömmu millibili. 

Fellibyljasíða NOAA hér þar sem nálgast má urmull upplýsinga. 

 

 


Októberyfirlit á heimsvísu

Hér á landi var októbermánuður tvískiptur og dálítið sérkennilegur þegar upp var staðið.  Fyrsta vikan og rúmlega það mjög köld og hálfgert vetrarríki viða um land, en eftir föstudagsstormuinn 9. okt gerði hlýindi meira og minna það sem eftir var mánaðar.  Þó komu stutt norðanskot inn á milli.  Samantekið var mánuðurinn heldur hlýrri en í meðalaári, sérstaklega sunnanlands eins og lesa má í yfirliti Veðurstofunnar hér.

arcticSænska veðurstofan SMHI, hefur tekið saman upplýsingar héðan og þaðan um heiminn og þessi tíðindi eru þau helstu:

  • Október var kaldari en í meðalári í N-Evrópu og þ.m.t. í Skandinavíu
  • Miklar hitasveiflur voru einkennandi í Mið-Evrópu, þannig var slegið októberhitamet í Mulheim í Þýskalandi, 30,7°C (þ.7.).  Nokkrum dögum seinna snjóaði hinsvegar þegar kalt loft braust til vesturs frá Austur-Evrópu. Ekki hefur verið kominn meiri snjór í austurrísku Ölpunum í lok október í 25 ár. 
  • Fádæma vatnsveður gerði á Sikiley í byrjun mánaðarins.  og á Palermo féllu yfir 200 mm regns á einum sólarhring.
  • Við N-Íshafið var fremur hlýtt, sérstaklega í Síberíu þar sem meðalhitinn var allt að 10°C yfir meðallagi ! Ótrúlegt frávik verð ég að segja.
  • Í SA-Asíu héldu fellibyljir áfram að herja.  4 öflugir gengu á land með miklu tjóni og úrhelli. Fádæma úrhelli var á Taivan þegar einn þessara fellibylja fór hjá eða um 1.000 mm úrkoma á sólarhringsvísu.
  • Í suðurhluta Kanada og langt suður fyrir landamæri Bandaríkjanna var óvenjulega kalt í október. Sums staðar allt að 5°C undir meðalhitanum. Í Polebridge i Montana fór frostið alla leið niður í 25 stig fyrir miðjan mánuðinn sem þar þykir óvenjulegt svo snemma haustsins.
  • Í lok mánaðarins þegar sumarið nálgast á suðurhveli jarðar munaði engu í Argentínu að hitamet væri slegið fyrir S-Ameríku í mánuðinum þegar hiti á ótilgreindum stað náði +47°C.

 


Kolin taka fram úr olíunni

Flest bendir til þess að kolin séu nú aftur eftir áratuga forystu olíunnar tekið við sem stærsti valdur losunar koltvísýrings.  Þessu halda fram vísindamenn frá Noregi og Nýja Sjálandi ( þau Gunnar Myhre, Kari Alterskjær og David Lowe) sem sameiginlega hafa legið yfir tölfræði útblástursins. Brennsla kola hefur aukist hraðar frá því um árið 2000, en bruni á olíu og gasi.  Þar á SA-Asía mikinn hlut að máli, en jafnframt á það bent að vinnsla kola er enni í dag afar mikilvægur orkugjafi í mörgum ríkjum heims ekki síst í Bandaríkjunum. 

Þær eru vissulega sláandi þessar tölur um aukningu  losunar koltvísýrings.  Frá 1990, sem er fyrsta viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar til ársins 2008, hefur árlegur útblástur á CO2 aukist um 40% eða að jafnaði um 2,2% á ári.  Frá 2003-2007 jókst hraði aukningar enn meir eða um 3,7% árlega. Síðasta ár, sem sumir kenna við alþjóðlega fjármálakreppu segja greinendurnir að hægt hafi aftur á aukningunni.

Árleg aukning koltvísýrings/Gunnar Myre ofl. Environmental Recearch Letters. Línuritið sýnir árlega losun í mælieiningunni GtC (gígatonn kolefnis).  Ferlarnir eru tveir, aðeins ólíkir eftir gagnasöfnum losunar. Athugið að það er aðeins blekkjandi fyrir augað að skera y-ásinn við 6 GtC í stað 0. Til  samanburðar eru síðan spár um losun í ólíkum sviðsmyndum þeim sem IPCC styðst við.  Sjá má að raunlosun fer næst sviðsmyndinni A1B.  

Fyrir þá sem vilja vita meira um sviðsmyndir losunar (á ensku)  er tengill hér.

Hlutur CO2 í lofthjúpi hefur farið úr 280 ppm frá um 1750 í 383 ppm árið 2007.  75% þessarar aukningar er tilkomin vegna bruna jarðefnaeldsneytis en 25% vegna vegna breytinga á landi sem til er komin að stórum hluta vegna skóga- og jarðvegseyðingar. 

Áhugasamir um losunarbókhald og aðferðir við að uppfæra tölur fljótt og vel er bent á aðgengilega grein Gunnars Myre og félaga úr Environmental Recearch Letters hér en línuritið er einmitt fengið úr henni. 


Tungl sem nemur yfirborðsseltu sjávar

smos_640 /www.esa.intNú í byrjun vikunnar skaut Evrópska geimferðastofnunin (ESA) upp nýju gervitungli eða fjörkönnunarhnetti á braut umhverfis jörðu.  Þetta tungl kallast SMOS og verður á pólbraut í um 800 km hæð.  Það mun fara 14 umferðir um jörðu á sólarhring og í hverri ferð ná nemar SMOS að skynja geislun frá jörðu á um 1.000 km breiðu belti. Það þýðir að hver blettur jarðar verður "myndaður" á um tveggja sólarhringa fresti.

Það sem er hvað merkilegast við þennan fjörkönnunarhnött sem bætist í hóp fjölmargra sem sveima á sporbaug um jörðu og senda gagnlegar upplýsingar í sífellu, er einmitt hin mjög svo sérhæfðu verkefnum sem honum eru ætluð.  SMOS er stilltur inn á það að nema eingöngu geislun frá jörðu á svokölluðu L-bandi og þar nánar tiltekið nærri tíðnisviðinu 1,4 GHz (Gígahertz).  Geislun jarðar er mjög veik á þessum tíðnislóðum og því eru nemarnir sérlega næmir.

En það sem næst að skoða með greiningu á þessu afmarkaða tíðnisviði eru þrír þættir í náttúrufari sem allir eru afar mikilvægir fyrir margra hluta sakir.  Í fyrsta lagi jarðvegsraki og þær breytingar sem verða á rakainnihaldi í efsta lagi jarðvegs og hefur bein áhrif á útgufun og þar með samskipti við lofthjúpinn.  Í öðru lagi breytingar í yfirborðsseltu sjávar.  Í áratugi hefur verið unnt að segja til um yfirborðshita sjávar, en ekki seltuna, sem er ekki síður mikilvæg fyrir eðlishætti og strauma sjávar.  Í þriðja lagi telja menn að nú verði hægt að sjá með þessu evrópska tungli þykkt á þunnum og nýmynduðum hafís.  Sá eignleiki er líka mjög gagnlegur, en þegar líður á veturinn eru víðáttumikil hafsvæði t.d. hér á norðurskautssvæðunum þakin slíkum ís og upplýsingar sem gefa færi á að greina aldur hans og eðli frá eldri ís hafa mikið hagnýtt gildi t.d. í siglingum Íshafsslóðir.   

Frekari upplýsingar má hafa hér á síðu ESA.

 


Snjó hefur að mestu tekið upp

Á þessari MODIS-mynd sem tekin var í heiðríkjunni í dag 1. nóvember skömmu eftir hádegi  má vel sjá að þær fannir sem komnar voru fyrir miðjan október og jafnvel seinast í september eru nánast alveg horfnar.  Um vestanvert landið er snjór aðeins í hæstu fjöllum. 

Til samanburðar er sambærileg mynd frá 28. september og munurinn er sláandi !  Og líka sjást verulegar breytingar norðanlands allra síðustu dag hér

Á mynd dagsins er undir háskýjaslæðunni  einhvers konar "krans" í Dyngjufjöllum um Öskjuvatn og hann er óneitanlega tilkomumikill.   Ekki kann ég að skýra hina mjóu bogadregnu línu úti af Skaga.  Við fyrstu sýn mætti ætla að þarna væri nýmyndun íss á ferðinni, nokkuð sem er afar ótrúlegt.  Nánari skoðun leiðir hins vegar í ljós að þetta eru ósköp venjulegir skýjahnoðrar.

 

MODIS 1. nóvember 2009 kl. 12:55


Glerhálka eða svartís ?

Reykjanesbraut 1. nóv 2009Suðvestantil á landinu myndaðist víða mikil hálka í nótt, jafnt á vegum, götum sem gangstéttum og stígum.    Götur voru flestar vel blautar þegar dimmdi í gærkvöldi og í kjölfarið bæði lægði og létti til.  Vegna útgeislunar frysti og vel má sjá á hitamælingum Vegagerðarinnar á  Reykjanesbrautveghitinn fór niður fyrir frostmark um kl. 2 í nótt.  Á því augnabliki byrjar ísinn að myndast þó svo að hiti í 2 metra hæð hafi verið talsvert ofan frostmarksins. Vegagerðin fylgist grannt með þessum hreyfingum og send eru tæki til hálkuvarna og -eyðingar um leið og skilyrði eru til staðar.

Bretar tala um black ice þegar vatn frýs á vegi.  Við köllum þetta stundum svartís.  Heitið er til komið að í rökkri eða myrkri sést ísingin ekki að mjög illa ólíkt hélu sem kemur þegar raki þéttist á vegi.  

Ég legg til að black ice verði kallað glerhálka upp á Íslensku.  Glærís eða glærahálka kæmi líka til greina, en gler er vitanlega gagnsætt líkt og ísfilman á svörtu malbikinu sem sést svo illa á vegyfirborðinu.

Eldri pistill um veðurskilyrði hálku af þessari tegund má finna hér.

 


Einkar mildur dagur á Vestfjörðum

Hún lætur ekki að sér hæða SA-áttin af þeirri gerðinni sem nú leikur um landið.  Hlý og væn.  Tók eftir því í morgun hvað hitinn var hár vestur á fjörðum.  Þar nær milt loftið í hæð að streyma niður í firðina og við það hlýnar það umtalsvert.  Það er engin væta sem heitið getur þarna á ferðinni og hnúkaþeyr með viðbótar dulvarma ekki til staðar. 

30 okt 2009 kl. 09 /Veðurstofa Íslands13°C kl. 09 skömmu eftir birtingu 30. október á Hólum í Dýrafirði, verður að teljast  allgott.  12 gráður voru á Flateyri, 11 í Bolungarvík, á Bíldudal og víðar.  

Á  Þverfjalli í 750 metra hæð (við gamla veginn yfir Breiðadalsheiði) voru 13 m/s kl. 9 og þar hiti +3°C líkt og sjá má á Steingrímsfjarðarheiði.

Á Hornbjargsvita gætir þessa áhrifa ekki þar sem loftið kemur beint af hafi, ekkert niðurstreymi vegna fjalla þar og því er umtalsvert lægri hiti á Ströndum.

Ég tala hér um SA-átt, en eins og sjá má er A-átt á flestum athugunarstöðum.  Í raun er SA-vindröst í lofti og uppruni loftsins úr þeirri áttinni. Í jaðarlagi lofthjúpsins, neðstu 1.000 metrunum eða svo sveigist vindáttin lítið eitt til hægri, þannig að vindur blæs örlítið inn í áttina að lægðarmiðjunni.  


Hvernig verður umhorfs, hlýni um 4°C ?

Hadley - Met Office, hlýnun um 4°CKomandi Kaupmannahafnarfundur loftslagsnefndar Sþ. mun að miklu leyti snúast um aðgerðir ríkja heims til að halda hnattrænni hlýnun loftslags af mannavöldum innan 2°C.  

Hadley rannsóknarsetur Bresku Veðurstofunnar (Met Office) hefur nú birt heimskort þar sem viðraðar eru helstu afleiðingar sem líklega kæmu fram, hlýnaði um 4°C að jafnaði á jörðinni.  Kortið er gagnvirkt og smella má á ólíka flipa til að sýna viðkvæm svæða og kalla fram frekari upplýsingar (á ensku).  Þessi "svarta" sviðsmynd sem að auki gerir ráð fyrir því að jarðarbúar verði um 7.500 milljónir árið 2080 dregur það mjög skýrt  fram hvað aðgengi að vatni takmarkast fljótt á stórum svæðum jarðar fari loftslag þetta ört hlýnandi.

Að baki þessarar myndar er reiknuð veðurfarsspá í líkani Hadley.  Fann ekki í fljótu bragði hvað mikil aukning koltvísýrings liggur þarna til grundvallar, en IPCC hefur gefið út að ef þáttur koltvísýrings (eða öllu heldur CO2 ígilda þegar aðrar gróðurhúsalofttegundir eru taldar með)  fer í 750 ppm leiði það til hlýnunar á bilinu 2,8-6,4°C með miðgildi í 4,3°C.  Þarna er miðað við hlýnun frá 2000 þegar hlutur koltvísýrings var um 375 ppm.

Þegar rýnt er sjálfhverft  í kortið og skoðað hve ólík hlýnunin er eftir heimshlutum tekur maður eftir kraðaki jafnhitalína við Ísland.  Gefur til kynna mikla óvissu um svörun hér við land þegar gert er ráð fyrir nánast stjórnlausum útblæstri gróðurhúsalofttegunda.  

Hér er tengill á kortið gagnvirka frá Hadley Center sem gefið er út af Met Office.  

     


Snjólaust á láglendi

Fyrr í mánuðinum var kominn þó nokkur snjór víða á láglendi.  Ekki aðeins fyrir norðan og vestan, heldur líka á sums staðar á Suðurlandi. Þannig var snjódýpt á Kvískerjum í Öræfasveit  metin yfir 20 sm um tíma  snemma í  mánuðiðunum fyrir stóra hvell, föstudaginn 9. okt.

Nú bregður svo við að í morgun gaf engin veðurstöðva Veðurstofunnar alhvíta jörð.  Ekki einu sinni í Fljótum eða við utanvert Djúp er snjór á láglendi og heldur ekki á Austfjörðum.  Það þó svo að snjóalög séu talsverð þetta snemma vetrar til fjalla, eins og þessi MODIS-mynd sýnir fyrr í dag og fengin er af vedur.is.  Í það minnsta norðan- og norðaustanlands. Merkilegt að sjá hvernig snjólaus Jökuldalurinn sker sig inn í landið á milli Jökuldals- og Fljótsdalsheiða. Eins Bárðardalur og Austurdalur í Skagafirði.  

Hlýtt verður allra næstu daga skv. spám, sértaklega á föstudag og þá tekur snjóinn upp og lengra upp eftir fjallshlíðunum.  Þá reyndar er allt sem bendir til þess að frostmarkshæðin verði nokkurn veginn ofan hæstu tinda landsins.

 

MODIS_091027_1410


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 10
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 71
  • Frá upphafi: 1790999

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 62
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband