30.10.2008
Tíð slys í vetrarumferð í Noregi
Norræni slysatryggingarisinn If (Storebrand+Scandia+Sampo) hefur reiknað út athyglisverðar tölur um slys í umferðinni í Noregi síðasta vetur. 17% allra óhappa og slysa þar sem einkabílar komu við sögu eru beinlínis rakin til þess að bílarnir óku á sumardekkjum í vetrarfærð.
Þetta er hátt hlutfall og það kemur í ljós að slysin áttu sér stað yfir allan veturinn, frá því snemma þegar bílar eru almennt séð enn ekki komnir á vetrardekk og þar til um vorið þegar síðbúin hálka eða snjór gerði ferðalöngum skráveifu. Meira að segja i N-Noregi þar sem íbúar eru mjög vanir erfiðuðum aksturs skilyrðum voru 10% óhappa og slysa rakin til vanbúinna hjólbarða.
Þess má geta að innan við helmingur allra bifreiða í norska bílaflotanum setur negladekin undir að vetrarlagi.
Þekki ekki til talna hér á landi, hvort yfir höfuð sé vitað hversu mörg óhappa á vegum úti sem og innanbæjar megi beinlínis rekja til vanbúinna ökutækja og er ég þá að horfa til hjólbarðanna. Nagladekkjaumræðan hér á landi hefur að mínu mati oft verið of svart/hvít og heiftúðug. En höfum hugfast að tíðarfarið hé er líka svo breytilegt hér á landi að það geta komið vetur sem bíleigandi heggur þurrt malbikið svo að segja allan veturinn á meðan sá næsti er þannig að akstursskilyrði eru meira og minna slæm og ekki er hættandi á annað er að vera að vel negldum dekkjum öryggisins vegna.
Utan úr heimi | Breytt 26.8.2009 kl. 13:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Vísindamenn vestur í Kaliforníu hafa með nýjum mæliaðferðum endurmetið styrk mjög öflugrar gróðurhúsalofttegundar í andrúmsloftinu. Um er að ræða tilbúna lofttegund sem á íslensku gæti útleggst sem köfnunarefnisþríflúor, eða NF3 (ritillinn hér gefur ekki kost á réttum rithætti efna). Snefilefni þetta finnst í mjög litlum mæli í andrúmsloftinu.
Áður var áætlað að heildarmagn efnisins næmi um 1.200 tonnum í heild sinni. Með nýjum aðferðum hefur hins vegar komið í ljós að magn köfnunarefnisþríflúors er öllu meira eð um 5.400 tonn og magn þess eykst um 11% á ári að því að talið er. Nú er þetta magn sem hlutfalla af heildinni afskaplega lítið eða 0,0004 ppb ( parts per billion). Lofttegundin var hins vegar nánast óþekkt fyrir 1978. Hið lága hlutfall væri ekki þess virði að á það væri litið nema fyrir þá staðreynd að NF3 er 17.000 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.
Til þessa hefur verið horft fram hjá köfnunarefnisþríflúors í stóru myndinni og lofttegundin ekki ein þeirra gastegunda sem er kveðið á um í Kyotó samþykktunum. Þrátt fyrir mat manna á meira magni NF3 en áður var talið veldur gastegundin ekki nema um 0,04% af heildargróðurhúsaáhrifunum.
Þetta efni er nokkuð notað í tölvu- og hátækniiðnaði og kaldhæðni örlaganna er sú að hvatt hefur verið til notkunar þess í stað PFC efna sem eru viðurkenndir skaðvaldar í samhengi aukinna gróðurhúsaáhrifa. PFC (flúorkolefni) hafa gríðarlega langan líftíma að því er álitið í andrúmslofti eða allt að 50 þús ár. Áður var álitið að aðeins um 2% af NF3 slyppi út í iðnferlum þar sem efnið er notað. Þessar nýju mælingar og árleg aukning um 11% bendir til annars. Eins og áður er getið er efnið manngert þó svo að aðeins sé um einfalt efnatengi þekktra frumefna að ræða. Um ¾ hluti framleiðslunnar er notaður í gerð á örflögum í tölvur og afgangurinn í þá fljótandi kristala sem sjá má á skjám (liquid crystal display), eins og á þeirri algengu gerð vekjaraklukku sem hér sést.
Það eru vísindamenn við Scripps haffræðistofnunina í San Diego sem hafa gert þessa rannsókn og frá henni greint í tímaritinu Geophysical Research Letters. Vitneskjan um hraðari aukningu á NF3 en áður var álitið verður áreiðanlega til þess að alþjóðasamfélagið mun setja strangari skorður við notkun þessarar gastegundar.
Hér er fréttin sem ég sæki efni þessa pistils að mestu til.
Veðurfarsbreytingar | Breytt 26.8.2009 kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2008
Góðæri á skíðasvæðunum landsmanna
Mikið hefur snjóað að undanförnu, sérstaklega fyrir norðan. Á Ólafsfirði nam úrkoman um helgina þannig yfir 100 mm og féll hún öll mest öll sem snjór. Alþekkt er hvað ofankoma skilar sér verr í mælana en slydda eða rigning og því er ekki útilokað að um raunverulegt vanmat sé að ræða. Áður voru komnir um 50 mm.
Skíðasvæðin fyrir norðan opna nú eitt af öðru. Á Dalvík byrjuðu menn að skíða fyrir helgina og þar var opið í dag og auglýstar æfingar. Meðfylgjandi mynd Óskars Óskarssonar frá því í gær (sunnudag) gefur vel til kynna nægan snjó og hann er vel að merkja komin að ofan, en ekki úr snjóbyssum.
Í Tindaöxl í Ólafsfirði er stefnt að því að opna á morgun og í Skarðsdal á Siglufirði um helgina. Sömu sögur er að segja frá Tindastól, en þar á að reynda að opna um helgina. Þó mikill snjór sé á Akureyri, hefur skafið að mestu í Hlíðarfjalli og brekkurnar þar því að mestu auðar enn.
Á skíðasvæði Ísfirðinga er allt á kafi í snjó og erfiðleikar með að troða snjóinn niður. Þó átti að reyna að opna byrjendalyftuna í dag. Ófært er með öllu upp á göngusvæðið skv. frétt á skíðavefnum fyrir vestan.
Í Oddskarði er ekki nægur snjór enn og heldur ekki í Bláfjöllum. Þó er þar hægt að stunda gönguskíði. Reyndi ég það sjálfur í dag ásamt konu minni í um 10 stiga frosti og það öðru sinni á fáum dögum. Sjá má á myndinni sem ég tók þetta fína spor, en starfsmenn Bláfjalla og skíðafélagið Ullur hafa í sameiningu lagt um 1200 metra langan hring frá Suðurgili. Því má með réttu segja að Bláfjöllin hafi nú þegar verið opnuð !
Að sjálfsögðu rekur mig ekki minni til þess að þetta mikill snjór hafi verið kominn þetta víða á landinu svo snemma fyrr. En sjálfur er ég vitanlega ekki meðal þessara elstu manna sem svo oft er vitnað til.
Vísindi og fræði | Breytt 26.8.2009 kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.10.2008
Meiri hafís um þetta leyti árs í fyrra

Eftir miðjan október stækka þau hafsvæði sem þakin eru ís mjög hratt. Þetta haustið er engin undantekning frá þeirri reglu og merkjanlegur hafís sem hægt er að greina á tunglmyndum hefur borist hratt til suðurs með Austur-Grænlandsstraumnum, en þó að mestu með strönd Grænlands.
Eins og meðfylgjandi samanburðarmynd frá Ingibjörgu Jónsdóttur ber með sér að þá var dagana ca. 16.-20. október orðin þá þegar mun meiri útbreiðsla ís í fyrra en nú er hér norðvestur- og norðurundan. Einhverjum kynni það skjóta skökku við að haustið eftir fregnirnar um minnsta ísinn á norðurhjara í lok sumars, að þá skuli hafa verið meira um ís í Austur-Grænlandshafi en nú er ! Ekki síður ef horft er til þess að þennan október hefur verið mun kaldara á norður af Íslandi er var í fyrra. Því mætti ætla að hafísþekjan væri meiri en annars mætti gera ráð fyrir.
Hafísþekjan er ekki einföld viðureignar. Hún stjórnast af mörgum samverkandi þáttum, hitafars, sjávarseltu, strauma og vinda. Eins og ætíð þegar kemur fram á veturinn verður fróðlegt að fylgjast með ísreki norðan úr Framsundi og eins hvað kalda og ferska sjóinn djúpt undan Íslandi leggur (beinlínis frýs) í miklum mæli.
Veðurfarsbreytingar | Breytt 26.8.2009 kl. 13:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.10.2008
Norðan af Melrakkasléttu
Sigurjón Jósepsson sendi mér þessar frá því á laugardag. Á Rauðanúpi fór veðurhæðin (10 mín vindur) í 39 m/s, sem er alveg óskaplegur vindur á láglendi þar sem engin fjöll eru til vindmögnunar.
Ekki veit ég fyrir vissu hvaða bæ myndir Sigurjóns sýnir á Sléttu, en ljóst má mera að bæði grjóthnullungar og þari hefur borist langt upp á land.
Myndirnar má stækka með tvísmellingu.
Veðurfar á Íslandi | Breytt 26.8.2009 kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2008
Meiri skemmdir á hafnarmannvirkjum
Jón G. Guðjónsson í Litlu-Ávík í Árneshreppi sendi Morgunblaðinu meðfylgjandi mynd í gær þar sem sjá má skemmdir sem urðu á bryggjunni á Gjögri í briminu á föstudag. Ég hef sjálfur gengið út á þessa snotru bryggju á fögrum sumardegi, en hún er nýtt m.a. af smærri fiskibátum sem ýmist róa eða landa á Gjögri.
Jón sendi mér aðra mynd af sjávargangi norður á Ströndum sl. föstudag með eftirfarandi texta af síðu sinni www.litlihjalli.it.is
Nú undanfarna daga hefur verið mikill sjógangur hér við ströndina.
Veðurstöðvar hér við Húnaflóa og á Sauðanesvita hafa verið að gefa upp sjólag Stórsjó eða Hafrót.Í Stórsjó er ölduhæð áætluð 6 til 9 metrar.
Í Hafróti er ölduhæð áætluð 9 til 14 metrar.
Allt ber þetta saman við mælingar öldudufla á þessum slóðum.
Hér í Litlu-Ávík hefur sjór gengið inn í fjárhúskjallara sem skeður ekki nema í mestu sjóum.
Myndin hér með er tekin um kl 10:30 í gær (föstudag) en háflæði var þá kl 06:00.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.10.2008
Öldugangurinn á Húsavík og Siglufirði
Nokkrir þættir unnu saman þegar sjór gekk á land á Siglufirði og á Húsavík í fyrrinótt.
1. Vindáttin var óhagstæð og þegar hann er á NV og V stendur beint inn á Húsavíkurhöfn og Siglufjörður er einnig opinn við þessi skilyrði. Hafnirnar á Ólafsfirði og Raufarhöfn svo dæmi séu tekin eru hins vegar í vari.
2. Veðurhæðin hafði verið óskapleg og ölduhæð úti fyrir afar mikil. Verst er að öldumælingadufl á Grímseyjarsundi var úti svo engar tölur er að hafa þaðan. 11-13 metra ölduhæð kæmi mér ekki á óvart, jafnvel hærri ef því er að skipta. Aðalgeir Egilsson veðurathugunarmaður á Mánárbakka sagði mér að brimið hefði verið með því mesta sem hann myndi eftir og enn er haugasjór eða hafrót eins og það kallast í athugun á sjólagi.
3. Loftþrýstingur var lágur eða um og undir 970 hPa. Við lágan loftþrýstinginn lyftist sjórinn sem nemur um 0,85 sm á hvert hPa. Ætla má að sjávarborðið hafi hækkað um nærri 40 sm þess vegna. Á móti kemur að smástreymt var þegar hæst var snemma í gærmorgun.
Engu að síður hefur ölduhæðin og áhlaðandi öldunnar næst landi ásamt beinum vindáhlaðanda valdið mestu um sjávarhæðina við land og því að sjór olli tjóni í höfnunum. Enda virðis mér að mestur sjógangur hafi orðið nokkru áður en háflóð var fyrir norðan, jafnvel á fjöru, en þá var veðurhæðin einmitt hvað mest.
Oftast eru sjávarflóð samspil allra fjögurra þáttanna, þ.e. vinds, öldu, loftþrýstings og flóðhæðar (sjávarfalla) en það þarf þó ekki alltaf að vera svo.
Hafþór Hreiðarsson á Húsavík er með fleiri myndir á fréttavef sínum 640.is
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2008
Sjóðandi vitlaust veður norðaustanlands
Eins og sjá má þá á veðurkorti Veðurstofunnar frá kl. 22 af NA-landi er alveg hreint sjóðandi vitlaust veður á annesjum norðaustanlands og með því allra versta sem maður hefur séð á síðari árum á þessum slóðum. Davíð Guðmundsson vildi vita hvort þessar tölur stæðust og þá þá væntanlega helst á Rauðanúpi á Melrakkasléttu. Það eru engar forsendur, enn a.m.k. til þess að slá einhverjar af þessum mælingum út af borðinu.
Vona ég innilega að allt blessist nú og fari vel hjá fólki á Norðaustur- og Austurlandi í nótt !
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.10.2008
Lægðin er foráttudjúp
Á þessu vinnukorti veðurfræðinga frá því kl. 18 má sjá að lægðin er greind (með tölvuforriti) um 944 eða 943 hPa djúp úti af Húnaflóa. Sjá má á vefsíðu hjá Veðurstofunni hvernig hún barst fyrr í dag til norðurs, en hefur eftir því sem á daginn hefur liðið færst til vesturs. Ætla má að lægðin sé um þetta leyti að ná hámarskdýpt og fari að grynnast úr þessu. Ferillinn er hringlaga og jafnvel spírallaga. Hvað úr hverju fer miðjan að halda til suðvesturs og siðar suðurs.
Versti veðurhamurinn er fyrir vestan lægðarmiðjuna og þar er líka mesta ofankoman, s.s. eins verið hefur síðustu klukkustundirnar víðast á Vestfjörðum. Alveg næst miðjunni er veður hins vegar skaplegra, alla vega hvað veðurhæðina áhrærir. Því mun veðrið lagast mjög á Vestfjörðum fari miðjan þar yfir síðar í kvöld, en síður á meðan hún heldur sig á Húnaflóanum.
Mikið er á bæta í vind (NV átt) á Snæfellsnesi þegar þetta er skrifað laust fyrir kl. 19 og við Faxaflóa og á Reykjanesi rýkur hann upp um k. 21 til 22 og verður hvasst með hryðjum fram undir morgunn.
Það er heppilegt við Faxaflóann að smástreymt er um þessar mundir, en í V og NV -áttinni verður engu að síður þó nokkur sjógangur nærri flóðinu um og eftir kl. 01 í nótt.
Veðurspár | Breytt 26.8.2009 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.10.2008
Krassandi lægð stefnir beint á landið
Hún er mjög myndarleg lægðin sem dýpkar nú mjög suðvestur í hafi og virðist ætla að stefna beint á okkur á morgun, fimmtudag. Kl. 18 er þrýstingi í miðju spáð undir 950 hPa eins og sjá má á meðfylgjandi spákorti fengið af vef mbl.is (gildir 23. okt kl 18.)
Lægð þessi virðist ætla að koma æðandi með stefnu ca. á suðaustanvert landið og ganga síðan inn í sjálfa sig svo að segja yfir landinu rétt áður en hún nær fullri dýpt. Þegar ferilinn er þessi verður veðrið ekki endileg verst í SA-áttinni áður en lægðin kemur upp að landinu heldur frekar í N eða V-áttum á meðan á hringsólinu við landið stendur.
Veðurfræðingarnir á vaktinni á Veðurstofunni eiga skiljanlega ekkert of auðvelt með að sjá fyrir nákvæma þróun fyrir, enda getur minniháttar frávik í spáðum ferli lægðarinnar haft afgerandi þýðingu fyrir veðrið. Í athugasemd veðurfræðings er einfaldlega varað við óvissu, sem þýðir í raun að lítið getur verið að marka veðurspár nema til næstu klukkustundir í senn.
En hvernig sem öllu líður mun þessi lægð ekki bera með sér tiltakanlega hlýtt loft, það fer að mestu fram hjá fyrir austan land. Um leið og samskil lægðarinnar (með SA-áttinni) verða farin hjá verður því stutt í snjókomu og hríð.
Veðurspár | Breytt 26.8.2009 kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 65
- Frá upphafi: 1791703
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar