Haust í Nýja Englandi

98547460_11208403dfÉg hef dvalið frá því fyrir helgi skammt frá New York borg í himnesku haustveðri.  Í þessum heimshluta eru skil á milli árstíða skýrari en við eigum að venjast.  Gestgjafar mínir segja að sumarhiti hafi ríkt fram undir mánðarmótin sept/okt, þá kólnað lítillega, en þessa síðustu daga orðið enn svalara og innfæddir dregið fram úlpurnar.

Í miðju laufskógabeltinu sem liggur þvert í gegn um N-Ameríku er haustlitadýrðin nánast ólýsanleg, en mest ber á hlyninum.  Lauf hans er þó ekki enn orðið alveg rautt á mínum slóðum, og sennilega ein til tvær vikur í það að haustlitadýrðin nái hámarki.  Hér er tengill á sniðugt "haustlitakort" fyrir Nýja England sem heimamenn geta notfært sér.  Lauftréin eru aðlöguð birtustýrð að mestu og því er lítill breytileiki í lauffallinu á milli ára. Með öðrum orðum hefur haustveðráttan lítið með tímasetningu haustlita og lauffalls að gera.

N-áttin sem hér hefur verið síðustu daga, líkist mjög þeirri sömu á Íslandi, þ.e. sunnanlands.  Loftið er þurrt og ekki ókunnuglegt.  Hér er hinsvegar landmassinn í norðri nánast óendalegur og fer kólnandi mjög hratt upp frá þessu.  Ef vindur stendur af landi í ríkjunum í norðaustri við landamæri Kanada má gera ráð fyrir alvöru vetrarveðráttu fljótlega í nóvember, en suðaustanvindurinn af Atlantshafinu ber hins mega með sér hlýtt og rakt loft, rétt eins og á sunnanverðu Íslandi.  En lengra nær samanburðurinn fyrri þessi tvö ólíku landsvæði ekki.   


Útlit fyrir kuldatíð til mánaðarmóta.

90Langtímaspár eru nú flestar á sömu bókina.  Allt útlit er fyrir að næsta vika verði kalsa- og vindasömHríðar meira og minna fyrir norðan og austan.  Um land allt kólnar og lengst af vægt frost.  Það verða tvær djúpar lægðir ferðinni sem mest kveður að í þessu tilliti.  Sú fyrri á mánudag og verður hún að öllum líkindum fyrir  suðaustan landið og því NA og N- átt hér.  Seinni lægðin og álíka verður síðan á ferðinni á miðvikudag/fimmtudag ef spár ganga eftir.  Sunnan og suðvestanlands ekki tiltakanlega mikil úrkoma en hitastigið lengst af næstu viku þetta 3 til 5°C undir meðallagi árstímans.

Í þar næstu viku eða frá 27. okt. er í raun ekki að sjá neinar marktækar breytingar, þó minni atgangur í lægðunum og ekki eins úrkomusamt.  Þó engu að síður norðlægar áttir ríkjandi og fremur svalt í veðri.

Það er síðan ekki fyrr en um eða upp úr mánaðarmótum að við förum að sjá hlýrra loft nálgast að gagni úr suðvestri, þá með hækkandi hitastigi og veðurlagi sem gera má ráð fyrir í nóvember, þ.e. þegar skiptast á þýður og vægir frostkaflar, rigningu, einkum sunnan- og vestanlands, en slyddu og snjókomu hærra uppi.      

Spákortið er frá ECMWF, keyrsla 17. okt kl. 00 og gildir mánudag kl. 18.  (vedur.is/mbl.is)


Skýringar komnar fram á sveiflum í hinum gríðarmikla Jakobshavn skriðjökli

ilulissat_700572.jpgJakobshavn skriðjökullinn á vesturströnd Grænlands er án ef einn sá tilkomumesti í veröldinni.  Hann kallast Sermeq Kujalleq á Grænlensku og kelfir hann út í djúpan og langan Ilulisat fjörðinn.  Norðan hans við Diskóflóa kúrir Jakobshavn með sína rúmlega 4000 íbúa. Jökullinn skilar af sér um 20 milljónum tonna af ís út á fjörðinn árlega og Sermeq Kujalleq er því eins konar risa útgáfa okkar Breiðamerkurjökuls.

Nákvæmar mælingar á jöklinum allt að 120 km upp í upptök hans inni á hájökli Grænlands hafa verið gerðar allt frá árinu 1991.  Framan af óx jöklinum ásmeginn og hann þykknaði frá 1991 til 1997 á sama tíma og ýmsir aðrir jöklar á Grænlandi voru heldur að rýrna.  En eftir 1997 tók Jakobshavn skriðjökulinn að rýrna mjög hratt og á tímabilinu 1997 til 2001 lækkaði yfirborð hins 15 km langa fljótandi jökuls á firðinum um 35 metra. Þetta er mun hraðari og meiri þynning en var á nálægum skriðjöklum á landi.

Nýverið fékkst skýring á því hvað olli þessari miklu breytingu, sem ekki er rakin með beinum hætti til hita eða úrkomu og heldur er ekki um framhlaupseiginleika þessa gríðarstóra skriðjökuls að ræða.  David  Holland í Center for Atmospher Ocean Science í New York fer fyrir hópi vísindamanna. Þeir birtu niðurstöður sínar á dögunum í Nature Geoscience,  en það ágæta rit er nýtt af nálinni. Greinarnar eru læsilegri en margar aðrar samærilegar m.a. í Nature, en tímaritið er skilgetið afkvæmi þess.

Til að gera langa sögu stutta voru það snöggar breytingar sjávarhita við V-Grænland sem urðu til þess að meira ísmagn bráðnaði. Hækkun sjávarhita er rakin til breytinga hér við land sérstaklega á árunum 1995-1996.  Íslenskar mælingar og rannsóknir hafa gefið skýrt til kynna að hafsvæðin hér suðvesturundan hlýnuðu mjög um þetta leyti vegna aukins innflæðis Atlantssjávar með Irmingerstraumnum.  Þetta tímabil aukningar innflæðis hlýs og selturíks sjávar hér fyrir vestan og suðvestan land stendur enn yfir eftir því sem ég veit best og á verulegan þátt í þeirri hitastigshækkun sem komið hefur fram á mælum hér á landi síðasta áratuginn eða svo. 

Hlýsjórinn berst inn í sk. Labradorhringrás og vestur fyrir Grænland, þar sem þessa sjávar verður vart á dálitlu dýpi undir kaldari og ferskari sjó.  Hlýi sjórinn berst á endanum ngeo316-f1norður á Diskóflóa og þar tekur hann til við að bræða Jakobshavn-jökulinn neðanfrá í orðsins fyllstu merkingu.

Myndin sem hér fylgir með er úr grein Hollands og félaga og er ætlað að skýra hvað þarna er á seyði.  Sú kollsteypa sem hér varð í straumakerfinu þessi árin 1995-1997 er síðan rakin til stóru loftslagssveiflunnar NAO (North Atlantic Oscillation) sem yfirgaf sinn 6-7 ára jákvæða (NAO +) ham svo að segja á einum degi í nóvember 1995 og fór í neikvæðan fasa upp úr því (NAO -).  Ég fjalla kannski nánar um NAO síðar, en hér er beinn tengill á  grein Hollands og  félaga.


Mikilvæg rannsókn í loftslagmálunum.

img650x367.jpgFjölmargar rannsóknir undir flaggi loftslagsfræðanna fara nú fram um um allan heim. Þær eru margvíslegar, snúa að sjálfu loftslaginu sem og afleiðingum á náttúru og  samfélög. 

Eins sú skondnasta sem ég hef fregnað af, er rannsókn sem lýtur að losun metangass í landbúnaði.  Eins og kunnugt er og hér hefur áður verið gert að umtalsefni, er metangas skæð gróðurhúsalofttegund og u.þ.b. 20 sinnum virkari en samsvarandi magn af koltvísýringi.  Uppsprettur metangass eru einkum frá ræktarlandi, sér í lagi frá hrísgrjónarækt, en  einnig  losnar metangas í miklum mæli við búfjárhald. Aukning í styrk metans í andrúmslofti er löngu hafin og í raun allt frá því að maðurinn fór að yrkja jörðina, þó svo að aukningin sé meiri nú en fyrr á öldum samfara fjölgun mannkyns.

Hingað til hafa menn álitið að losun metangass frá búfé eigi sér einkum stað með freti, enda myndast gastegundin við meltingu fæðu. Norsk rannsókn sem nú á sér stað við hinn merka Landbúnaðarháskóla á Ási í Noregi leiðir hins vegar annað í ljós.  Megnið af metangaslosuninni á sér stað við ropa, en aðeins 1 % kemur með prumpi í það minnsta jórturdýra. Þetta skiptir auðvitað höfuðmáli og ljóst að kýr og kindur hafa verið beittar rangri sök í áravís.  Gott fyrir okkur að vita að fretið er skaðlaust með öllu, en ropinn hins vegar baneitraður loftslaginu til lengri tíma séð. 

Á myndinni má sjá norskt tilraunadýr með þar til gerða grímu og loftsslöngur sem safna sýnum til efnagreiningar.   


Veðurbloggið aftur í gang

Undanfarna daga hef ég átt í talsverðum vandræðum með niðurhal mynda hér á blog.is.  Líklegast heimatilbúinn vandi.  Lítið varið í veðurvef með aðeins þurrum texta. Nú er sum sé allt komið í lag.  Færslan hér að neðan er ný þó hún fjalli um dálítið gamalt efni í dag.  Myndin varð hins vegar að vera með.

Snjórinn er óvenjulega snemma á ferðinni SV-lands

Í fjármálhvirfilbyl undanfarinna daga eru vafalítið flestir búnir að gleyma snjókomunni sem gerði í Reykjavík fyrstu daga mánaðarins. Hér eru síðbúnar vangaveltur um þann snjó sem orsakaði m.a. snemmbúnar langar biðraðir á hjólbarðaverkstæðum. 

Var þessi snjókoma í höfuðborginni óvenjulega snemma á ferðinni.  Slíkur samanburður við fyrri ár er ekki alltaf einfaldur, því taka verður tillit til þess hvort snjófölin sé minniháttar og hana taki upp nánast jafnharðan eða hvort um sé að ræða meiri snjó þar sem snjódýptin mælist í nokkrum sentímetrum og að snjórinn tolli aðeins.

Kristín Hermannsdóttir á Veðurstofunni fletti upp í gagngrunninum sem nær aftur til 1949.  Kom í ljós að aðeins einu sinni á þessum tæpum 60 árum hefur snjóað viðlíka þetta snemma og nú gerði. Það var árið 1969.  Þá snjóaði síðasta dag septembermánaðar og mældist snjódýptin þá 8 sm.  Hélst sú snjóföl í tvo til þrjá daga áður en hana tók upp.  Þetta er í eina skiptið sem finna má dæmi þess að snjóað hafi í september í Reykjavík (mögulega þó fyrir 1949).

Að morgni föstudagsins 2. október reyndist snjódýptin vera 9 sm. í Reykjavík.  Snjóinn tók hins vegar upp að mestu þann dag og þann næsta, enda lítið um ský og heit sólin enn tiltölulega hátt á lofti. 

Þessi snjókoma SV-lands er því nokkur tíðarfarslegur viðburður.  Hann hefur hins vegar lítið forspárgildi fyrir vetrarveðráttuna og þaðan af síður fer hann saman við stóru tíðindi efnahagsmálanna hér á landi og þau straumhvörf sem við erum að horfa upp á þessa dagana.

fyrstisnjorhaust2008_697417.jpgTunglmyndirnar sem hér fylgja með eru fengnar frá Ingibjörgu Jónsdóttur (tengill). Þetta eru ljósmyndir úr MODIS tunglunum,  teknar með sólarhringsmillibili.  Á þeirri efri má greina snjó yfir víða um landið, en takið eftir að jörð er t.d. auð á utanverðu Reykjanesi. Á neðri myndinni, degi síðar (4. október) hefur snjófölina tekið upp allvíða.  Ský eru yfir norðausturhluta landsins og því fátt um samanburð þar.  Meira að segja inn á Landmannaafrétti og Tungnáröræfum hefur sólin náð að bræða snjóinn í gær. 

Athyglisverð er snjóröndin þvert yfir Mýrarnar, frá Borgarfirði og vesturúr.  Varpa má fram ýmsum getgátum hvers vegna þetta sé svona.  Líklegast er að þarna hafi verið ek. skil í veðrinu þegar snjóaði en línuna  er þó ekki að sjá á efri myndinni þó vissulega sé það greinilegt að fölin er ógreinilegri nær fjöllunum á Mýrum en niðurfrá.  Einnig getur gróður átt hlut að máli, en kjarrlendi heldur betur snjónum en opnar engjar og móar.  Mikið er um birki- og víðikjarr á þessum slóðum en síðast þegar ég gáði óx það á víð og dreif en ekki í reglustrikuðum röðum ! 

 

 

 


Vísindaþátturinn á útvarpi Sögu

Á útvarpi Sögu er nú á dagskrá síðdegis á þriðjudögum vísindaþáttur sem haldið er úti af þremur ungum mönnum, þeim: Björn Berg Gunnarssyni, Sævari Helga Bragasyni og Sverri Guðmundssyni.  Allir eru þeir miklir áhugamenn um stjörnuskoðun og halda úti afar aðgengilegum og áhugaverðum stjörnufræðivef, stjörnuskodun.is.

Í síðustu viku mætti ég í viðtal ú vísindaþátt þeirra þriggja til að spjalla um loftslagsbreytingar og ýmsar hliðar þeirra.  Spjalli fór vitanlega út um víðan "veður"-völl eins og gefur að skilja í klukkustundar þætti.

Fyrir áhugasama er hann nú aðgengilegur á vefnum á meðfylgjandi slóð:

http://www.stjornuskodun.is/component/content/article/42-frettir/344-visindatatturinn


Venju fremur snörp vindhviða undir Hafnarfjalli í nótt.

HafnarfjallUm kl. 01 sl. nótt, mældi stöð Vegagerðarinnar vindhviðu upp á 47 m/s.  Þetta gildi er hátt þegar að því er gáð að sjálf veðurheiðin var ekki svo ofboðsleg.  SA-veðrið er satt að segja ekki nema svona venjulegur stormur ekkert sérlega illskeyttur ef út í það er farið.

Veðurhæðin (10 mín vindhraði) mældist á sama tíma um 22 m/s undir Hafnarfjalli.  Hviðustuðullinn reiknast því vera um 2,1 en sú tala er fundin með því að deila veðurhæðinni upp í hæstu mældu  hviðu um svipað leyti.  Í desember-illviðrinum í vetur sem leið mældust mestu hviður í tvígang 63-64 m/s.  Þá var veðurhæðin vel yfir 30 m/s.  Hviðustuðullinn því svipaður, en oftar er hann nú samt á milli 1.6 til 1.9 í hvassri SA-átt undir Hafnarfjalli.

Myndin er úr myndasafni mbl.is frá því í fyrra. 


Ekta íslensk fönn

479992Fyrsti snjórinn kemur alltaf á óvart. Í sjálfu sér þarf það ekki að vera fréttnæmt að fyrsti snjórinn eða hálkan komi fólki í opna skjöldu.  Þannig er það ævinlega, nema þegar veturinn lætur bíða eftir sér fram undir jól eins og stundum vill verða.

Í gær var greint frá því að strætisvagn hefði runnið niður bratta brekkuna í Gilinu á Akureyri í fljúgandi hálku.  Þá þegar voru fjallvegir sumir hverjir norðanlands orðnir þungfærir og Axarfjarðarheiðin ófær.

Síðan tók að snjóa suðvestanlands af þó nokkurri ákefð í gærkvöldi þegar frekar sakleysislegt en kalt lægðardrag kom úr vestri og skil þess yfir sunnanvert landið. 

Ekta íslensk fönn sungu Stuðmenn og þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir snjódýptin sem er mæld er kl. 09.  Margir spyrja vitanlega, hvenær hafi snjóað þetta snemma síðast.  Sjálfur ligg ég ekki á slíkum samanburði, en get fullyrt að þetta mikil ofankoma er klárlega með allra fyrstu skipum a.m.k. í höfuðborginni.  Þá skal því haldið til haga að í fyrra snjóaði í Mýrdal og V-Skaftafellssýslu 15.september og þótti sú ofankoma heyra til viðburða eins og lesa má um hér.

Alloft gerir smáföl seint í september eða byrjun október sem varla mælist og tekur hafnharðan upp. En nú finnst manni snjórinn meiri en svo, upp undir það að vera ökkladjúpur.  

Það kúnstuga er að ekki er ætlast til þess að tíma vetrardekkja renni upp fyrr en 15. október, en eins og svo oft áður reynist illgerlegt að troða veðráttunni inn í almanökin.  

Ljósm. mbl.is/Brynjar Gauti 


Úr sumri beint í vetur !

Erum við að sigla inn í haust laust ár ?  Vitanlega er þetta orðaleikur, en vel mætti halda að svo væri.  Svo snögg eru umskiptin nú þennan síðasta dag september og þaðan fyrsta í október.  Eftir afar mildan og hagfelldan septembermánuð, sérstaklega fyrir norðan fram yfir þ. 25. dembist nú yfir okkur vetrarlegt loft úr norðri með snjókomu og frosti norðan- og austantil.

Á meðfylgjandi kortum af vef mbl.is tákna blái liturinn eins konar vetur.  Þar er um að ræða kaldara loft en sem nemur -5°C í 850 hPa fletinum eða í um 1.300 til 1.400 metra hæð. Venjulega táknar framrás þessa lofts hita um frostmark á láglendi þegar geislun sólar nýtur ekki við.  Það væri ekki til frásagnar sæjum við "bláa" loftið slengjast yfir landið í einn dag, jafnvel tvo.  Meinið er hins vegar samkvæmt tölvuspánum að kalt loft virðist ætla að verða hér nokkuð þaulsetið næstu daga með heldur lágu hitastigi lengst af a.m.k. fyrir árstímann. Kortið til hægri gildir 3. okt kl. 18.

Og ekki er að sökum að spyrja; Grænlandshæðin sprettur upp eins og gorkúla við þessar aðstæður og mun eiga sinn þátt í viðhaldi ástandsins.

 3. okt 2008, spákort /mbl.is30. sept kl. 18/mbl.is

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 1791704

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband