Skil nálgast nú landið. Það hefur verið kalt í dag og nokkurt frost. Hlýrra loft úr suðaustri verður nokkra stund að ryðja hinu kalda í burtu. Það má því gera ráð fyrir að í nótt verði snjómugga í Reykjavík og nokkur hríð undir morguninn. Á þeim tímapunkti þegar flestir fara á stjá eða um og fyrir kl. 8 eru líkur til þess að farið verði að blota nærri sjávarmáli, en það gæti allt eins orðið nokkru síðar um morguninn. Eins og ævinlega mun snjóa lengur áður en slyddu og rigningar verður vart í efri byggðum, eða austurhluta Höfuðborgarsvæðisins sem liggur í um 80-120 metra hæð.
Það verður fróðlegt að fylgjast með í fyrramálið, en líkast til eru öll tiltæk snjóhreinsunar og hálkuvarnartæki í viðbragðsstöðu suðvestanlands og fara út um leið og hvíta efnið birtist af himnum ofan !
Veðurspár | Breytt 26.8.2009 kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Segja má að vindhviðurnar hafi meira og minna verið 35 m/s og meiri undir Hafnarfjalli frá því fyrir kl. 20 í gærkvöldi. Sú snarpasta kom í nótt um kl. 3 eða 52 m/s. Meðalvindhraðinn hefur lengst af verið 24-28 m/s. Bílar hafa vitanlega beðið veðrið af sér, enda sýna dæmin að veðurhamur sem þessi getur verið beinlínis hættulegur.
Eins og komið hefur fram er einnig annar staðar við Vesturlandsveginn þar sem vindur nær sér mjög á strik við aðstæður sem þessar. Það er á Kjalarnesi nærri vigtarplaninu við suðurmunna Hvalfjarðarganganna. Austar á Kjalarnesi er þekktur óveðurs- og vindhviðustaður. Það er fljótlega eftir að komið er upp úr Kollafirði. Vindmælir Vegagerðarinnar þar kallast einmitt Kjalarnes, en á þeim stað hvessir við önnur skilyrði en nú eru þ.e. í N-átt.
Ástæða þess að svo sérlega hvasst er einmitt nú undir Hafnarfjalli er sú að loftið yfir landinu er stöðugt, þ.e. hitafall með hæð er lítið í lægstu lögum. Slík skilyrði eru frekar til staðar þegar hlý SA-áttin þarf að ryðja mjög köldu lofti sem verið hefur yfir landinu í burtu. Fleira kemur þó til s.s. almennt eðlisástand þess hlýja lofts sem berst til landsins.
En í öllu falli þá brotna bylgjur í loftinu frekar í stöðugu ástandi þegar þær verða fyrir bröttum fjöllum eins og Hafnarfjalli. Staðbundnir vindsstrengir myndast og iðuköst loftsins verða meiri en annars væri.
Þegar þetta er skrifað kl. 9:10 styttist mjög í það að vind lægi og í kjölfarið snúist til SV-áttar.
![]() |
Bíða veðurs í Borgarnesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðurfar á Íslandi | Breytt 26.8.2009 kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2007
Fannfergi í Austurrísku Ölpunum
Ég tók sérstaklega eftir því í íþróttafréttum Sjónvarps í gær að það hlóð niður snjó í orðsins fyllstu merkingu þegar sýnt var frá að ég held fyrsta heimsbikarmóti vetrarins í Austurríki.
Veðrið í Austurríki var líka sérlega eftirtektarvert um nýliðna helgi. Lægð sem fór til suðausturs yfir Mið-Evrópu (sem mér sýnist vera sú sama og olli sjávarflóðunum í Norðursjó) dró með sé kalt og rakt loft yfir Þýsku og Austurrísku Alpana. Afleiðingin var sú að sums staðar hríðaði ákaflega. Vindur var staðbundið það mikill að tjón hlaust af. Loka þurfti vegum á meðan aðrir tepptust vegna snjóa og ófærðar. Svo mikið var fannfergið í héraðinu Arlberg að á einu skíðasvæðanna, Langem mældist snjódýptin 112 sm eftir tveggja sólarhringa úrkomu. Lech er sennilega þekktasti staðurinn í Arlberg og einangraðist bærinn um tíma. Það er svo sem ekki óþekkt, en svo snemma vetrar hefur það ekki gerst frá 1974.
Veðurfræðingar í Austurríki vilja mein að óveðrið með tilheyrandi fannfergi hafi verið svo óvenjulegt að við álíka megi búast ekki oftar en á 30-50 ára fresti um þetta leyti árs.
Myndin er frá Arlberg, en úr safni.
Utan úr heimi | Breytt 26.8.2009 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Fréttir hafa verið af hávaðaroki á Fáskrúðsfirði miklum vindhviðum. Ekki er svo langt síðan að vindmælir var settur upp á Fáskrúðsfirði og hann er því einn af fáum þröngu fjörðunum sem að maður þekkir ekki svo ýkja vel til vindafars í illviðrum. Svo er að sjá sem að mesta vindhviðan hafi verið um 39 m/s í hádeginu, en meðalvindur ekki endilega svo hár eða 13-15 m/s. Þessi munur segir manni að fjöllin þvert á vindáttina svo að segja, keyra niður iðustrauma úr hvassari vindi við brún fjallanna.
Kortið hér að ofan (fengið af vef VÍ) sýnir vind í 850 hPa fletinum eða í um 1200-1300 metra hæð kl. 15. Þá er mesti SSV -strengurinn nýgenginn yfir þarna fyrir austan og er í kjarna hans allt að 35-40 m/s. Það skal því engan undra að eitthvað af þessum vindi haf náð niður þegar þarna blés af þessum styrk þvert á fjöllin og firðina. Þá vitum við það hér eftir að SSV átt af þessum styrk samfara hlýju og stöðugu lofti er skeinuhætt á Fáskrúðsfirði.
Annars dýpkaði lægðin ört í morgun og hún varð klárlega eitthvað dýpri, en spár gáfu til kynna í gær. Kortið er greining Bresku Veðurstofunnar frá því á hádegi og þar var hún 959 hPa.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 7.9.2009 kl. 17:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bráðnun hafíss í lok sumars hefur leitt til þess að þræða má hins svokölluðu NV-leið um N-Íshafið. Hér eru nokkur atriði til umhugsunar:
1.
Jafnvel þó svo að ísinn haldi áfram að minnka á næstu áratugum er aðeins verið að tala um nokkrar vikur á ári sem þessi siglingarleið væri opinn.
2.
Vetrarísinn lokar siglingarleiðinni frá því í október og fram í júlí. Á þessum slóðum er ísinn þykkari og meiri fram á sumarið en Asíumegin í Íshafinu.
3.
Þó svo að hnattræn hlýnun leiði til þess að frostið á veturna verði ívið minna en áður, breytir það ekki þeirri staðreynd að vetrarmyrkrið er til staðar og kröftug útgeislunin sem gerir það að verkum að tiltölulega ferskan sjóinn leggur strax um haustið.
4.
Það er rangt að halda því fram að NV-siglingaleiðin hafi nú opnast í fyrsta sinn. Hún reyndist fær á 4. áratug 20. aldar, þegar hlýtt var á öllum norðurslóðum (m.a. hérlendis) og ísinn þarna norðurfrá var minni í lok sumars en bæði áður og síðar varð.
5.
NA-leiðin með Síberíu er miklu mun raunhæfari. Þar er vetrarísinn þynnri og stór hluti hans bráðnar á sumrin. Stærra hafsvæði með landi opnast því á sumrin og helst opið lengur en áður.
6.
Náttúrulegar sveiflur í veðurfarinu mun leiða til þess á næstu árum eða áratugum að ís mun aftur vaxa um tíma í N-Íshafinu þó svo að hann fari minnkandi á löngum tímaskala. Beinlínuþróun eins og mörgum er afar hugstæð í þessum efnum fyrirfinnst ekki í veðráttu norðurhjarans. Sveiflurnar hafa sýnt sig vera mjög miklar á tímaskalanum 15-30 ár.
![]() |
Ólíklegt að norð-vesturleiðin verði notuð þótt hún opnist |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.9.2007
Hvað hefur Zimov fram að færa ?
Þetta er einkennileg frétt á mbl.is sem skilur eftir sig fleiri spurningar en svör. Hvað hefur Loðfílasaur frá forsögulegum tíma á túndrum Síberíu að segja hvað varðar loftslagsbreytingar? Ekki dugar að vitna í Reuter, því hvergi kemur fram með hvaða hætti þessi forsögulega leðja á að hafa áhrif. Manni dettur svo sem í hug metangas sem losnar úr læðingi, en varla í svo miklum mæli að svartsýnustu spár eigi eftir að blikna í samanburði við spá hins rússneska vísindamanns Sergei Zimov.
Ég bíð spenntur eftir framhaldinu því hálfkveðin vísan hér er verri en engin vísa. Verður meira á morgun ágætu Moggamenn og konur ??
Myndin er af umræddum Sergei Zimov
![]() |
Loðfílasaur flýtir hlýnun jarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðurfarsbreytingar | Breytt 7.9.2009 kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.9.2007
Hríð fyrir norðan
Heldur er hann nú farin að dúra vestantil laust fyrir kl. fimm en á sama tíma belgir hann sig upp austanlands. Upp úr kl. þrjú fór meðalvindurinn upp í 26 m/s á Höfn í Hornafirði, en hviðurnar voru nú samt ekkert óskaplegar. Á Kjalarnesi er enn hvasst þegar þetta er ritað og voru hviður upp á 40 m/s á fjórða tímanum. Í morgun voru álíka hviður á Hraunsmúla í Staðarsveit á Snæfellsnesi og Bæjarins Besta segir frá því að nokkurt foktjón hafi orðið á Patreksfirði í gærkvöldi.
Nú um miðjan daginn vekur það ekki síst athygli mína að það er hríðarveður til landsins fyrir norðan. Þannig snjóaði kl. 15 á Mýri í Bárðardal og á Grímsstöðum á Fjöllum og skyggni var ekki nema um 1 km á báðum stöðum. Svipað var umhorfs í Mývatnssveit. Snjókoma í Mývatnssveit í september er ekki óalgeng, en á árunum 1961-1990 féll um 17% septemberúrkomunnar í Reykjahlíð við Mývatn sem snjókoma. Auðvitað eykst hlutur snjókomu eftir því sem líður á mánuðinn, en ég er viss um að Þingeyingar eru ekkert að kippa sér upp við þessa ótíð.
Ljósmynd fengin af mbl.is/Jón Sig. Blöndós og ber í snævi þakin fjöllin í dag 13. sept.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 7.9.2009 kl. 17:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2007
Land öfganna, líka í veðurfarinu
Það er ekki ofsagt að Bandaríkin séu land öfganna. Það að sjálfsögðu líka við um í veðurfarinu, enda er landið víðfemt og nær á milli tveggja heimshafa sem nóta veðrið mjög ásamt landflæminu norðurundan og hinum hlýja og raka Mexíkóflóa í suðri.
Það er alltaf athyglisvert þegar veðurmet eru sleginn eins og nú virðist í gangi t.a.m. hvað varðar hita í Georgíufylki. Hitt er rátt að veðráttan hefur sveiflast þarna fyrir vestan öfganna á milli í sumar. Þannig var snemma í sumar óskaplega heitt í miðvesturríkjunum, úrkomumet féllu í Texas í júlí og í Tennessee var met þurrkur í sama mánuði. Í júlí mældist líka óvenju hár hiti í Klettafjallafylkjunum við landamæri Kanada og þá var hitinn markvert undir meðallagi þar sem þessa dagana falla veðurmet og þannig mætti áfram telja.
Meðfylgjandi kort eru fengin af síðu NOAA.
![]() |
Öfgar í veðurfari í Bandaríkjunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utan úr heimi | Breytt 8.9.2009 kl. 09:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.8.2007
Missögn í frétt af DEAN
Í þessari frétt mbl.is er ekki alveg nákvæmlega rétt með farið. Það var í hittifyrra, 2005, sem að Atlantshafsfellibylir ollu miklum usla. Katarína var vitanlega 5. stigs fellibylur en mestur þótti Wilma í október sem herjaði á Mexícó. Í Wilmu fór þrýstingur í miðju niður í 882 hPa, sem er lægsti þrýstingur sem vitað er um í Atlantshafsfellibyl. Dean er nú 909 hPa og orðinn 5. stigs fellibylur skv. fregnum frá fellibyljarannsóknarstöð NOAA.
Í fyrra var virkni fellibylja á Atlantshafinu hins vegar með minnsta móti, þvert á spár um annað. Eins skýringin sem týnd var til sögunnar er þessi hér.
![]() |
Dean farinn að láta finna fyrir sér í Mexíkó |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þegar þetta er skrifað upp úr kl. 10 virðist sem skil lægðarinnar sú komin inn á sunnanvert landið og það versta í vindinum sé um það vil að ganga yfir. Ekki er hægt lengur að tala um það að verulega hvasst sé. Skaplegt er nú bæði undir Eyjafjöllum og við Hafnarfjall. Á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar sé ég um 16-17 m/s eru á suðurlandsvegi við Ingólfsfjall og vindur þar nokkuð byljóttur. Sömu sögu er að segja frá Blönduósi og við Gilsfjarðarbrú, NA-átt í báðum tilvikum. Þetta eru betri fréttir en áður fyrir ferðamenn með aftanívagna. Á ég ekki von á öðru en að ferðalög ættu að ganga vel fyrir sig upp úr þessu í dag, en betra er að leita upplýsinga t.d. hjá Vegagerðinni um staðbundinn vind, áður en haldið er í hann.
Lægðin okkar góða er vissulega djúp, en fyrir vikið er hún fjarlægari en áður var ætlað og því nær hinn mikil vindur umhverfis hana nú ekki landinu, nema rétt á meðan skilin eru að ganga yfir. Breska Veðurstofan greinir hana 962 hPa kl. 06 (sjá kortið) og það gerir hana vissulega með allra dýpstu ágústlægðum á N-Atlantshafi.
En Trausti Jónsson hitti nefnilega naglann á höfuðið í Blaðinu í gær þegar hann sagði að lægðin væri undir áhrifum fyrirbæris sem líktist helst hitabeltisstormi vestan frá Ameríku sem gerði það að verkum að hún dýpkaði meira og hraðar sem dró jafnframt úr ferð hennar í áttina til Íslands.
Það breytir því ekki að frá sjálfri lægðinni verður hálfgert leiðindaveður víða um land á morgun, laugadag um leið og hún berst til austurs fyrir sunnan land. Því er útlit fyrir talsverðan NA-streng á mest öllu landinu. Þá þurfa ferðalangar að gæta að sér sérstaklega á sunnanverðu Snæfellsnesi og á Kjalarnesi.
![]() |
Eigendur húsbíla og hjólhýsa hugi vel að veðri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 8.9.2009 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 16
- Sl. sólarhring: 21
- Sl. viku: 80
- Frá upphafi: 1791718
Annað
- Innlit í dag: 11
- Innlit sl. viku: 58
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 9
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar