9.1.2010
Litadýrð á himni á Akureyri
Ég er staddur á Akureyri og hún var tilkomumikil sjónin undir sólsetur þegar við blöstu hátt á vesturhimninum þessi föngulegu glitský. Myndin er fengin að láni hjá Jóni Inga Cæsarssyni Akureyringi og ljósmyndara.
Eins og fram kemur á fróðleiksgrein Veðurstofunnar um tilurð glitskýja eru þau ekki eiginleg ský. Heldur kristallar efnasambanda sem þéttast í þoku hátt upp í heiðhvolfinu, í um 15-30 km hæð. Glitskýin myndast þegar mjög kalt verður í þessari hæð, og er kuldinn þarna uppi forsenda þéttingarinnar. Það þarf að vera um 70 til 90 stiga frost. Oftast er ekki alveg svo kalt, en forsendur eru helst um hávetur, sín hvorumegin vetrarsólhvarfanna í desember og fram eftir janúar.
Veðurkortið hér sýnir kuldann í 30 hPa þrýstifletinum sem er í rúmlega 20 km hæð. Sjá má að hitinn var um -80°C í dag (gildistími korts 9. jan kl.00) og kaldasti kjarninn er staðsettur hér norðurundan. (sjá slóð hér) Hlýindin hér niðri og í veðrahvolfinu eru því ekki í neinu samhengi við kuldann þarna uppi. Rannsóknir hafa þrátt fyrir það leitt í ljós ýmis tengsl hringrásar heiðhvolfs við veðrahvolfið. Séu þessi spákort fyrir 30 hPa skoðuð má glögglega sjá að kalt verður áfram í þessari hæð næstu daga og því talsverðar líkur á að aftur sjáist til glitskýja skömmu eftir birtingu eða um sólsetur.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 19:35 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég er einmitt líka stödd á Akureyri og sá litadýrðina, ómetanlegt að sjá svona skemmtileg fyrirbrigði!
Elín Björk (IP-tala skráð) 9.1.2010 kl. 21:19
Bý í Fljótunum, þar var afar fallegt glitský að morgni þessa sama dags, nánar tiltekið um tíuleytið. Um tíma var það alveg hringlaga minnti helst á gríðarstóran litfagran hnött.
þorlákur (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 09:59
Oft er mikil fegurð himinsins á Akureyri - og raunar víðar á landinu eftir að sól tekur að hækka á lofti eftir vetrarsólhvörf og litbrigði þá ólýsanleg.
Tryggvi Gíslason
Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.