22.1.2010
Útsynningur - loksins !
Ég hef verið að bíða í allan vetur eftir að útsynningur með éljum gerði vart við sig. Nánast með ólíkindum að ekki hafi gert éljaveðráttu suðvestan- og vestanlands fyrr en nú þennan veturinn. Er við hæfi að fá þetta hressandi veðurlag á sjálfan Bóndadaginn. Klakkarnir koma vel fram á veðursjá Veðurstofunnar kl.13:15. Kunnuglegir "hnappar" þar á ferðinni.
Fyrir nokkrum dögum, varð hálfgildings útsynningur. Þá komu veimiltítulegir klakkar úr suðri og suðaustri, í raun loft frá Bretlandseyjum, dreggjarnar af kuldunum sem þar voru. Þá voru ekki él heldur skúrir og það langt á milli þeirra að ísaði á götum og gangstéttum með þeirri afleiðingu að þrjár til fjórar tylftir manna slösuðu sig á Höfuðborgarsvæðinu einu saman.
En sem sé, vertu velkominn kæri útsynningur með þínum fagurlöguðu klökkum, hörðu litlu snjókúlunum og hressandi vindblæ úr suðvestri !
En vel að merkja þetta er bara mín óska veðrátta í einn dag, ekki lengur, svo það sé á hreinu. Enda spáir svo að ekki þarf að hafa áhyggjur af því að útsynningur verði að gera mönnum lífið leitt alveg á næstunni.
Svo njótið endilega dagsins !
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Væri ekki ráð að yrkja ljóð um útsynninginn - ég skal byrja :
Nú anda kaldir vindar kúlum hörðum
klakkar fagrir, augum land á gjóa
sjá þar glitta í opinn Faxaflóa
og fjöllin brátt kitla í háum þröngum skörðum.
Höskuldur Búi Jónsson, 22.1.2010 kl. 14:11
Haltu nú áfram, Drangsnesskáld, með sonnettuna
Svo mættirður setja hana fullbúna á Leirinn, Höskuldur félagi.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 22.1.2010 kl. 14:50
Var að rekast á þetta blogg sem gestir veðurbloggs Einars gætu haft áhuga á.
http://vulkan.blog.is/blog/vulkan/
Pálmi Freyr Óskarsson, 22.1.2010 kl. 20:16
Ég sé að dr. Haraldur segir að ekki hafi náðst ljósmyndir af gjóskuflóði. Ég man hinsvegar ekki betur en til séu ljósmyndir af flóðinu frá Mt. St. Helens 1980. Bæði var að ljósmyndarar voru í talsverðri fjarlægð frá gosinu, sem náðu myndum, og svo fannst filma í vél eins jarðfræðings, sem fórst í flóðinu. Nokkrar myndanna var hægt að skoða, þótt filman væri raunar ansi mikið skemmd. Þetta mátti lesa um í umfjöllun National Geographic árið eftir og þar birtust myndirnar, sem ég vitna til hér að ofan.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 08:24
Sæll Einar.
Þú ert einn af þeim fáu sem ég veit um sem fagnar útsynningi...
Hafðu þökk fyrir að vera öðruvísi!
Sigurjón, 24.1.2010 kl. 03:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.