Landtaka hvítabjarnarins og tengsl við hafísinn

ismax.png /Ingibjörg JónsdóttirIngibjörg Jónsdóttir hefur útbúið athyglisvert hafískort.  Það sýnir mestu útbreiðslu íssins í nú janúar og þar með vetrarins ef út í það er farið.  Að sögn Ingibjargar er kortið gert eftir bestu fáanlegu upplýsingum með fjarkönnun.  Tekið er fram að þessi útbreiðsla sé mat, ónákvæmni getur átt sér stað þar sem ekki sést alltaf mjög gisinn ís og þaðan af síður stakir jakar.  Engu að síður má ætla að kortið fari all nærri raunverulegri hámarksútbreiðslu. Sjá fleiri kort og upplýsingar á síðu Ingibjargar.

Inn á kortið eru teiknaðir hafstraumar eftir straumakorti sem kennt er við Unnstein Stefánsson sem um árabil var prófessor í haffræði við HÍ.

Ég tek undir þau sjónarmið sem heyrst hafa að æði langsótt sé að björninn hafi borist með ísnum, nema þá kannski með óbeinum hætti.  Ísinn er einfaldlega of fjarri.  Þórir Haraldsson líffræðingur á Akureyri, veit æði mark um lífshætti og atferli hvítabjarna.  Hann sagði í gær í viðtali við Sjónvarpið að minnkandi hafís almennt séð á norðurhjaranum gerði það að verkum að vera kynni að  birnir færu frekar á flakk.  Þessi kenning er áhugaverð, en aðeins kenning.  Sjálfum þykir mér þekking okkar á atferli þess hluta stofns hvítabjarna sem heldur sig að mestu á ísnum í Austur-Grænlandsstraumnum vera heldur brotakennd.  Hvað með framboð af æti ? 

Karl Skírnisson segir í grein í Náttúrufræðingnum; " Aðalfæða ísbjarna eru kópar hringanóra og kampsels, en þeir eru auðsótt fæða á rekís norðurhjarans á útmánuðum og á þeim tíma safna ísbirnir miklu spiki á fáum mánuðum, sé allt með felldu."[Náttúrufræðingurinn 78(1-2), bls. 39-45, 2009.]

Hver er þáttur kæpingar þessara selastofna á ísnum nærri Jan Mayen sem vitað er að skiptir birnina miklu.  Eru selastofnarnir þeir sömu og áður ?  Hafa þeir kannski flutt sig um set með hlýnandi sjó ?  Kæpa þeir á öðrum tíma og þá annars staðar ?  Hver getur svarað þessum spurningum ? 

Það er klárlega verkefni fyrir duglega íslenska vísindamenn að gera sig enn frekar gildandi í  rannsóknum á vistfræði og líffræði þess hluta stofns hvítabjarnarins sem heldur sig á ísnum hér fyrir norðan og vestan land.      

Viðbót 29. jan kl. 08.  Þór Jakobsson segir í Morgunblaðinu í dag að alls ekki sé hægt að útiloka að straumar beri smájaka frá sjálfum meginísjaðrinum.  Slíkar dreifar sjást ekki öðruvísi en með berum augum í dagsbirtu.  Meginstaumurinn norðan Kolbeinseyjar er einmitt vestanstæður og þessi kenning er því ekki svo galin hvað varðar Óslandsbjörninn.  Eins verðum  við að hafa í huga að þó sjávarhiti sé ekki sérlega hár bráðna smájakar út öllum tengslum við meginísjaðarinn á nokkrum dögum.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ef björninn barst ekki með ís einhvern hluta leiðarinnaar hvernig í ósköpunum komst hann þá til landsins? Þetta er spurning sem er ósvarað. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.1.2010 kl. 22:51

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Við nánari skoðun, virðist þessi ísbjörn ekki hafa synt mjög langt.... sagði í kvöldfréttum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 28.1.2010 kl. 23:32

3 Smámynd: Jón Aðalsteinn Jónsson

Sendu ekki Noregskonungar njósnara í gerfi sjávardýrs þetta skildi þó ekki hafa verið dulbúin flugumaður frá Evrópusambandinu

Jón Aðalsteinn Jónsson, 29.1.2010 kl. 08:05

4 identicon

Sæll Einar, þakka þér og ykkur hinum fyrir áhugaverðar hugleiðingar.

Að mínu mati hefur björninn komið með ísnum, jafnvel á þéttri hafísspöng innan um gisnari ís. Þessi ís barst í austur, brotnaði upp í ölduróti og bráðnaði að lokum. Frostmark sjávar er -1,92°C (þ.e. í fullsöltum sjó en nálgast 0°C meira eftir því sem sjórinn er seltuminni) þannig að sjávarhiti hefur ekki þurft að vera mikill til að bræða ísinn. Einhverjir jakar hafa getað farið lengra í austur með Austur Íslandsstraumnum og bangsi með þeim. Þá hefur verið orðið of seint fyrir hann að komast aftur að meginísnum, í fyrsta lagi kominn ansi langt frá honum en einnig hefði hann þurft að synda á móti straumnum þessa löngu leið. Kannski sá hann ljósari himinn ofan við snævihulið landið þó hann væri of langt frá landi til að sjá fjöllin - og ákveðið að stefna þangað. Þetta eru auðvitað getgátur.

Að mínu mati er útilokað að halda uppi hvítabjarnaeftirliti. Það er ekki nokkur leið að fylgjast með öllum jökum sem berast með straumnum austur á bóginn, hvað þá björnum á sundi, hvorki með fjarkönnun né eftirliti úr flugvélum. Það veitir fólki aðeins falska öryggiskennd að gefa til kynna að slíku eftirliti sé sinnt eða að hægt sé að sinna því.

Hitt er annað mál að það borgar sig að fylgjast með ísnum eins og hægt er, nú eru til að mynda til mjög góðar gervitunglamyndir með nákvæmni upp á rúma 100 m. Í janúar komu margar slíkar myndir auk þess sem Landhelgisgæslan flaug oft yfir svæðið. Þessar myndir sýndu engan ís austan við röndina sem er teiknuð inn á kortið hér að ofan. Hins vegar eru allar líkur á að jakahrafl hafi komist eitthvað austar án þess að þess sæust merki á myndum eða í flugi.

Þegar birnir eru komnir á land, eins og nú í vikunni, er hins vegar sjálfsagt að reyna að fylgjast með á landi hvort fleiri birnir komi. Þetta er auðveldara ef snjóhula er lítil og þar sem landslag er tiltölulega slétt. Ég veit hins vegar ekki hversu auðvelt er að sjá hvítabirni í hitamyndavélum; þeir gefa ekki frá sér mikla hitageislun. Auðunn Friðriksson hjá Landhelgisgæslunni segir að hitamyndavélar þeirra nemi  hitamun upp á 0,5°C - kannski er það nóg? Hér væri gaman að fá svar frá hvítabjarnasérfræðingum.

Það væri áhugavert að reyna að reikna út hversu lengi eftir hafíshrinur (þó þessi síðasta hafi alls ekki verið hörð) fólk þyrfti að hafa gætur á björnum.  Dæmið frá 2008 sýnir að það er nokkuð langur tími.

 Kær kveðja, Inga

Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 29.1.2010 kl. 11:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788784

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband