Illviðrið í Frakklandi í gær - manntjón af gáleysi

_47398206_008870902-1.jpgStormurinn illskeytti sem gekk yfir Frakkland, Niðurlönd og N-Þýskaland í gær hefur ekki fengið mikla umfjöllun hér á landi þrátt fyrir meira manntjón af völdum óveðurs en mig rekur minni til síðustu árin a.m.k.  Sjónir manna beinast eðlilega kannski að skjálftanum risastóra við Chile.

Látum vera að milljón manns hafi orðið fyri rafmagnsleysi, líka þó hús og eignir hafi skemmst í veðurofsanum, en að um 50 manns skuli láta lífið beinlínis vegna veðursins er mikið og krefst þess að málin séu skoðuð ofan í kjölinn.  Lægðin sem óveðrinu olli reyndist sérlega illskeytt.  Sjá má á meðfylgjandi korti af BBC hver ferill lægðarinnar var.  Miðjan var yfir norðvestanverðum Iberíuskaganum síðdegis á laugardag (27. feb) og tók síðan strikið yfir norðaustanverðan Biscayaflóa um leið og hún dýpkaði.  Veðurkortið sem fengið er af Brunni Veðurstofunnar sýnir ástand mála kl. 03 aðfaranótt sunnudags.  Lægðin var um 970 hPa, ekki svo djúp, en hún var mjög kröpp.  Sérstaklega er SV-vindröstin sunnan lægðarmiðjunnar skeinuhætt.  Kjarni vindsins þar fór yfir hið fagra hérað Vendee og með fylgdi allt að 8 m ölduhæð. 

_47391564_xynthia_storm_path_466.gifFlestir þeir sem létust bjuggu í strandbænum L'Aiguillon-sur-Mer í Vendee.  Eftir því sem ég kemst næst æddi flóðbylgja yfir sjóvarnargarð sem þarna er og yfir hjólhýsabyggð handan hans.  En garðurinn sem vernda á íbúanna fyrir ágangi sjávar er víst frá tímum Napóleons og yfirvöld hafa lengi gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að styrkja og hækka. Helst að færa hann jafnframt lengra upp á land, en sú ráðstöfun mundi fórna eftirsóttri ströndinni.  Þetta er klassískt álitamál í skipulagi strandhéraða sem vinsæl eru hjá ferðafólki, einkum að sumarlagi.  Íbúar Vendee  eru ómyrkir í máli í fjölmiðlum í dag og saka stjórnvöld um fyrirhyggjuleysi.

picture_31_966128.pngEn hvað með veðurspár ?  Af hverju voru strendurnar ekki rýmdar ef hætta var á öldugangi og hárra sjávarstöðu ? Alla þessi þætti á að vera hægt að sjá fyrir í dag.  Spákortið hér er dönsk útgáfa úr HIRLAM spákerfinu.  Reiknuð sólarhringsspá gerði ráð fyrir þessari þróun, nánast í smáatriðum. Ef eitthvað að þá var lægðin spáð dýpri en reyndin varð síðan.

Ekki er að efa að veðrinu var spáð, en hvað þá með viðvaranir til fólks svo ekki sé talað um viðbragðsáætlanir.  Við fyrstu sýn virðist þessi mál hafa verið í algjöru skötulíki hjá Frökkum og hægt hefði verið að koma í veg fyrir flest þessara dauðsfalla.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta eru athyglisverðar vangaveltur hjá Einari og beinir sjónum manns að því hvernig almannavörnum sé háttað í okkar nærumhverfi. Almannavarnir snúast nefnilega um meira en björgunarsveitir og sjúkragögn þegar ósköpin hafa dunið yfir, þær snúast líka um fyrirbyggjandi ráðstafanir. Lögum samkvæmt eiga sveitarfélög að gera almannavarnaáætlanir fyrir sitt stjórnsýslusvæði. Þar eru (eiga að vera) metnir þeir áhættuþættir, sem menn sjá fyrir sér að geti gilt á viðkomandi svæðum. Þar á reyndar að hafa í huga fleira en náttúruvá, þ.e. sjúkdómafaraldra, stríðsástand, skemmdarverk og skæruliðastarfsemi og annað sem almannahætta getur stafað af. Mér er t.d. kunnugt um að almannavarnanefnd Skagafjarðar er að endurmeta gildandi áætlun og fer þar í alla grunnvinnu á áhættumati. Við Íslendingar erum auðvitað skv. skýrslum Evrópusambandsins afskaplega frumstæð og óþroskuð í öllum okkar samfélagsmálum að manni skilst, en greinilega gætu þó Frakkar tekið okkur til fyrirmyndar á þessum sviðum.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.3.2010 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 1788788

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband