Afbrigðilegur vetur í N-Evrópu

Vetur í Svíþjóð2010/SMHI.jpgÍ Skandinavíu og norðanverðri Evrópu þótti veturinn með kaldasta móti og sums staðar meiri snjór en menn eiga að venjast.  Veturinn í veðurbókum margra á norðurhveli endar 28. febrúar.  Við á Íslandi teljum hins vegar með réttu mars til vetrarmánaða og í veðurfarsyfirliti er veturinn því mánuði lengur hér en annars.

Í S-Svíþjóð gáfu mælingar til kynna að ekki hefði verið þar kaldara frá 1963.  Á landsvísu er þetta kaldasti vetur frá 1987.  Veturinn þótti snjóþungur í S-Svíþjóð og víða voru sett snjódýptarmet, um og yfir 100 sm t.d. á Gautalandi við Gautaborg og þar um slóðir.

Ísbað í Danmörku/DMI Jens HjortkjærÍ Danmörku var meðalhiti vetrarins -1,5°C eða 2,0 stigum undir meðallagi.  Kaldasti veturinn frá 1996 og sá 17. í röð kaldra vetra frá upphafi mælinga 1875.  Meðalhiti þessara þriggja mánaða var um -1,5°C heilt yfir landið.  Þetta er vissulega kalt og í samanburði við Reykjavík sýnist mér í fljótu bragði að í um þrjú skipti á síðustu 50-60 árum hafi verið álíka kalt samanlagt þessa sömu mánuði. 

Í Noregi þótti hitinn líka lágur og reiknaður vera um 2,5 stigum undir meðallagi og það gerir veturinn þann 11. kaldasti frá árinu 1900. Á vesturströnd Noregs hafa menn nokkrar áhyggjur af vatnsforða hinna fjölmörgu vatnsaflsvirkjana sem þar er að finna. Stólað er mjög á ríkulega vetrarúrkomuna í rekstri þessara stöðva, en í ár reyndist hún vera aðeins 28% af meðallagi og hefur aldrei verið minni

"Austan fjalla" í Noregi, við Osló og þar um slóðir hefur á sama tíma verið fremur snjóþungt, þótt úrkoma hefi verið langt undir meðallagi.  Þar var eftir því tekið hvað frostið var viðvarandi og kom nánast ekki þíða frá því á í byrjun desember og fram undir lok febrúar.  Norðar og reyndar í allri N-Skandinavíu þótti tíðarfarið hins vegar ekki vera eins afbrigðilegt.  Þar hefur t.a.m. oft orðið mun kaldara en nú.

Víðar í N-Evrópu var tíðarfarið með nokkrum ólíkindum, en hafa verður í huga að fólk flest var orðið nokkuð vant hinum ríkjandi mildu vetrum síðustu 15 árin eða svo. Í Hollandi segir veðurstofan þar í landi að veturinn hafi verið sá kaldasti frá 1979 og í S-Englandi hefur ekki verið snjóþyngra frá 1982 og ekki kaldar í 31 ár. 

3223557075_4197b06a5a.jpgOg hver skyldi svo vera ástæða þessarar köldu og og snjóþungu tíðar ?  Í raun er hægt að kenna veðurfarið einu afdrifaríku atrið að mestu.  Nefnilega því að Azoreyjahæðin hefur ekki haldið sig á réttum slóðum í vetur.  Eins og ætla má af heiti þessa fyrirbæris er alla jafn háþrýstisvæði á Atlantshafi með miðju nærri Azoreyjum úti af Portúgal.  Vitanlega er á legu hennar og umfangi ýmiskonar breytileiki eins og gefur að skilja. Þetta gríðarmikla háþrýstisvæði hefur mikið að segja um allan lægðagang austur yfir Atlantshafið og beinir það mildu og röku lofti af hafi með SV-vindum inn yfir norðanverða Evrópu og ekki síst er úrkomusamt norður með allri V-strönd Noregs og eins hér á landi.  Hæðin góða hefur lengst af í vetur verið á hálfgerðu flandri.  Í fyrsta lagi hefur meðallega hennar verið bæði sunnar og vestar á Atlantshafi og stundum hefur hún klofnað upp í tvö eða fleiri smærri kerfi og jafnvel skotið kryppu hingað norður eftir, yfir sunnanvert Grænland og Ísland, eins og var raunin lengi í janúar. 

Myndirnar eru fengnar af síðum SMHI og DMI og ljósmyndari hraustu konunnar í ísbaðinu í Danmörku er Jens Hjortkjær.    Veðurfræðingurinn er óþekktur en veðurkortið sýnir engu að síður Azoreyjahæðina á góðum degi þegar hún ræður ríkjum á N-Atlantshafi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hjá Rutgers háskóla í New Jersey, sem er meðal elstu háskóla Bandaríkjanna, á ættir að rekja til ársins 1766, er eins konar snjórannsóknarstofa, Global Snow Lab. Þar er hægt að finna mæligögn um snjóþekju á norðurhveli síðan 1967.

Þetta kemur í ljós varðandi snjóþekju á norðurhveli jarðar í des., jan. og feb. 1967-2010 (er það ekki viðmiðunarvetur í veðurfræðum?):

Lóðrétti skalinn er í ferkílómetrum.

 

 http://wattsupwiththat.files.wordpress.com/2010/03/2000_decade_snow.png


 Er síðasti áratugur sá snjóþyngsti frá upphafi þessara mælinga, a.m.k. miðað við norðurhvel jarðar?  

-

Nú þarf maður að gæta sín aðeins. Ferlarnir eru villandi þar sem þeir byrja við 44.000.000 ferkílómetra. Ekki við núll.  Þetta er þó sama villandi framsetning og þegar verið er að sýna hnatthlýnun eða styrk CO2 .

  Gröf eru héðan.  Mæligögn héðan.

Ágúst H Bjarnason, 4.3.2010 kl. 11:30

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Athyglisvert innlegg, Ágúst

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.3.2010 kl. 02:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788784

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband