8.4.2010
Óvenju hár loftþrýstingur í vetur
Í yfirliti Veðurstofunnar fyrir nýliðinn vetur er bent á þá staðreynd að loftþrýstingur þessa mánaða (des-mars) hafi ekki verið hærri frá því veturinn 1968-1969. Meðalloftþrýstingurinn í Reykjavík reyndist hafa verið 8,4 hPa yfir meðallagi og verður það að teljast nokkuð stórt frávik. Eins og frá er greint í yfirlitinu hefur meðalloftþrýstingur fyrir vetrarmánuðina aðeins fjórum sinnum verið hærri frá upphafi mælinga 1823 eða í 187 ár.
Hár loftþrýstingur nú tengist afbrigðilegu tíðarfari á norðanverðu Atlantshafi og á í Evrópu í vetur. Fyrirstöðuhæðir hafa skotið upp kollinum hér fyrir sunnan og suðvestan land öðru hvoru í vetur og þess á milli hefur Grænlandshæðin ráðið lögum og lofum. Lægðagangur hér við land náði sér fyrir vikið lítt eða ekki á strik. Þurrt hefur verið eftir því á landinu og fremur hægviðrasamt svona í heildina tekið.
Á línuriti fyrir daglegan loftþrýsting í Reykjavík frá 1. des til 31. mars má sjá þrjú lengri háþrýstiskeið, það mesta frá því skökku eftir jól og fram undir 10. janúar. Fyrstu dagar desember einkenndust af lægðagangi og síðan aftur skammvinnt tímabil um miðjan janúar. Dýpri lægðir hafa annars að mestu haldið sig víðsfjarri.
Fróðlegt verður að fylgjast með þróun loftþrýstingsins hér við land, en lengri háþrýstitímabil geta orsakað breytingar á stóru myndinni, hitafrávikum í sjónum, varmaflutningi hafsins o.s.frv.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 3
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1790157
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.