11.4.2010
Vindsviptingar á Árskógsströnd
Greint var frá því í fréttum að tjón hefði hlotist af í SSV-roki í gærkvöldi á bænum Krossum á Árskógströnd. Umferð var stöðvuð um tíma vegna veðurhæðarinnar og eins fjúkandi lausmunum þvert fyrir veginn.
Í gær fjallaði ég aðeins um líkindi til þessa að staðbundnir vindstrengir myndu vafalítið ná sér á strik norðanlands og tengdi m.a. við skotvindinn hér hærra uppi. Á kortinu fra Samsýn sést afstaða ágætlega. Bærinn Krossar er ofan við þjóðveginn, nærri þeim stað þar sem er Á í Árskógssandur. Um þetta leyti í gærkvöldi var vindur í um 1400 metra hæð um miðbik Norðurlands í hámarki eða eitthvað um 30-35 m/s af SV. Óx vindurinn ákveðið með hæð. Tröllaskaginn er skörðóttur og hæstu fjöll teygja sig upp í um 1.500 metra hæð.
Ofan Krossa er Krossafjall sem hæst er rétt tæplega 1.000 metrar og eftir því endilöngu er nokkuð skörp fjallsegg. Myndin sýnir bæinn og fjallið ofan við á sumardegi og lesa má um staðhætti á vef Árskógsstrandar. Þarna hefur vindurinn til fjalla borast niður, ekki ósennilega fjallabylgja sem brotnað hefur fram yfir sig í hæð og vindorkan borist niður á láglendið hlémegin fjallanna. Á Hámundastaðahálsi nokkru utan við Krossa og reyndar þar sem Krossafjalli sleppir er Vegagerðin með nýlega uppsettan vindmæli. Þar mældust 26 m/s seint í gærkvöldi og hviðumælirinn var að slá upp í 41 m/s. Í ljósi foktjóns á Krossum má ætla að á þeim slóðum hafi styrkur vindhviðunnar ekki verið undir 50 m/s.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788784
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Einar, þetta var ansi kröftugt í gær sjálfur var ég þarna í veðurhamnum að berjast við að hemja þakblötur og fleira lauslegt, áður en dimmdi mátti sjá hvernig byljirnir komu einmitt niður Krossafjallið þar sem (blautur / þungur ) snjórinn var rifinn upp og kom í gusum niður hlíðina. Merkilegast þótti mér þó að sjá rúllubagga fljúga yfir þjóðveginn út við Hámundarstaði rétt eins og þarna væru bara fótboltar á ferðinni ! Gaman væri að vita hversu vel heyið var þurkað sem var í þessum rúllubggum. Annars var nánast stöðugur særenningur á fyrðinum milli Árskógstrandar og Hríseyjar og oft risu háir strókar upp úr sjónum. Núna er hinsvegar vorveður, sunnan gola og um 10°
Skafti Brynjólfsson (IP-tala skráð) 11.4.2010 kl. 11:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.