Síðasti vetrardagur

Í dag síðasta vetrardag er viðeigandi að tala aðeins um snjókomu, þó svo að vísast eigi víða eftir að snjóa fram á sumar eins og við vitum.

Myndin sem hér fylgir er af einkar stórgerðri ofankomu sem gerði undir kvöld síðasta laugardag (17. apríl).  Halldór Guðmundsson á Ólafsfirði sagði að hann hefði sjaldan sé jafn stórar og miklar flygsur falla til jarðar. Þetta hefi eiginlega verið meira og stærra en það sem oft er kallar hundslappadrífa.  Skilgreining orðabókar á  hundslappadrífu er mikil og stórflygsótt snjókoma í logni.  

Þegar veðurkort frá þessu kvöldi eru skoðuð kemur í ljós að um þetta leyti voru hitaskil að ganga yfir norðanvert landið með samfelldri úrkomu frá lægð vesturundan.  Vindur samfara þessum skilum var hægur, ekki aðeins við sjávarmál, heldur líka í fjallahæð, þar sem blés afar meinleysislega af suðaustri.

Úrkoma hefst oftast sem smágerður ískrystall hátt uppi í þykkninu þar sem frostið er talsvert oft um eða yfir -20°C.  Samloðunarhæfni krystallanna er mikil og sem og vöxtur þeirra í röku lofti. Snjórinn tekur að falla til jarðar, en yfirleitt er vindur nægur ásamt viðnámi við fallið til þess að tæta í sundur krystallana sem hanga saman.  Í miklum vindi verður ofanhríðin því oft þannig að snjókornin eru smágerð og vel rúnnuð af árekstrum sín í milli.  Oft þannig að erfitt er að greina það sem kemur að ofan frá skafrenningi sé hann umtalsverður.

Hins vegar fá klessurnar næði til þess að hanga saman og vaxa þegar vindur er mjög hægur eða því sem næst logn.  Í hægu fallinu rekast þær "mjúklega" á og sameinast.  Verða þannig stærri og stærri, en á móti sundrast þær aftur í fallinu.  Mjög stórar snjóklessur úr lofti er líka helst að vænta þegar hiti er við frostmark, jafnvel aðeins yfir frostmarki.  Blaut snjókoman hefur einn meiri samloðunarhæfni, en sú sem þurr er nokkuð eindregnu frosti. 

Þessa má geta að til eru ýmis orð yfir stórgerða snjókomu, s.s. skæðadrífa eða logndrífa. Á Vestfjörðum þekkist einnig að kalla snjókomu í logni kafaldsmygling eða einfaldlega lognmygling. 

Ólafsfjörður 17.apríl 2010/Halldór Guðmundsson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sem betur fer á að fara hlýnandi um og eftir helgi: http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html

Þessi sumardagurinn fyrsti verður samt ekki jafn kaldur og ,,Sumardagurinn fyrsti" árið 1949, þegar frostið mældist -7 C° kl 12 að hádegi. Það er kaldasti sumardagurinn fyrsti frá því áreiðanlegar mælingar hófust í Reykjavík.

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 21.4.2010 kl. 23:57

2 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gleðilegt sumar.

Höskuldur Búi Jónsson, 22.4.2010 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband