Í Bláfjöllum í rafmagnsleysi

Bláfjöll 19.jan mbl.is_Árni SæbergVar í Bláfjöllum í kvöld á skíðum með fjölskyldunni á fyrsta opnunardeginum.  Það var ansi napurt ef ekki hreinlega nístandi kuldi að sitja í nýju stólalyftunni "Kónginum" sérstaklega við efsta staur.  Veðurhæðin var á að giska 13-15 m/s og ansi fjárans mikið frost sem beit í kinnar. Kl. sjö þegar allt myrkvaðist í einni sviphendan var ég búinn að taka af mér skíðin, en krakkarnir voru einhvers staðar þarna úti. Kannski föst í lyftunni eða í myrkum brekkunum.  Við tók óvissa og fálmkennd leit.  Ekki þýddi að hringja (allir með farsíma) því kerfið var yfirhlaðið enda um þúsund manns á svæðinu.

Við vorum heppin og engin sat fastur í þær 20-25 mínútur sem tók að bakka lyftunni.  Verð ég að hrósa starfsmönnnum Bláfjalla fyrir fumlaus viðbrögð og olíumótorinn í Suðurgilinu var kominn fljótt í gang, en hann gerir einmitt kleyft að keyra vírinn til baka.  Á leiðinni heim sáum við í fyrsta lagi útvarpsbílinn sem keyrði niður raflínuna um 1 km frá Bláfjallaskála og sendimastur hans lá út á hlið.  Bílstjórinn sat hnípinn með áhyggjusvip inn í þessum sérbúna bíl sem í vegkantinum líktist helst vængbrotnum fugli.  Þarna vantaði sárlega myndavélina til að festa þessa sjón í minni.  Lögreglan og björgunarsveitarbílar streymdu líka að.

Sjálfvirka stöðin í Bláfjöllum (Bláfjallaskáli)  mældi ANA 9 m/s kl. 19 og -7°C.  Hímandi í loftinu í stól lyftunnar gerir það að verkum að sá sem þar er getur sig lítið hreyft og vindkæling á bert hörund er mikil.  Í mínum huga voru aðstæður í kvöld beinlínis hættulegar þeim sem ekki voru vel búnir.  Ég sá m.a. nokkra húfulausa sem vitanlega er algert glapræði.  Miklu fleiri voru hins vegar vel gallaðir og útbúinir.

Vindkælingartafla sem finna má á þessari slóð (Halldór Björnsson á VÍ) og ég tel vera nokkuð áreiðanlega  gefur til kynna að teknu tilliti til vindkælingar hafi frostið við Bláfjallaskála jafngilt um -25°C í logniOfar þar sem bæði var meiri vindur og ívið kaldara (13 m/s og -9°C -> mín ágiskun)  hafi frostið samsvarað um -30°C miðað við logn.

vindkæling 

Í slíku vetrarríki eins og verið hefur að undanförnu skiptir vitanlega miklu að fólk klæði af sér kuldann.  Vindkæling á bert hörund er ágæt vísbending um samspil forst og vindsins og gefur manni til kynna þörfina á hlýjum undirfötum, fjölda peysa og þörfinni á góðum húfum og vettlingum/hönskum.

Rakst á lýsingu á hugi.is eins þeirra sem sat fastur:

" Ég var einn þeirra sem var efst í lyftunni, næstum því uppá topp. Félaga mínum var orðið skítkalt en ég var ágætur, enda súper vel klæddur.

Fyrir mitt leyti þá vil ég segja að mér finnst að það ætti að koma upp kallkerfi yfir svæðið til að láta fólk vita hvað sé í gangi. Sumt fólk var orðið vel paranoid.

Sumir gætu átt það til að gera eitthvað óskynsamlegt í stressi og óráði.. Annars höndluðu bláfjöll þetta mjög vel miðað við búnaðinn sem þarna var til staðar.

Ég fer mjög líklega aftur í fjöllin á morgun :D"


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband