6.6.2010
Merkilega hár hiti á hálendinu
Tók eftir því í morgun að á korti Veðurstofunnar kl.09 var hæstur hitinn á Sandbúðum á Sprengisandi í 820 metra hæð. Hitinn þar var þá 14°C og hækkandi í sterku sólskininu. Í gær fór hitinn þarna í tæpar 19 gráður og eins var vel hlýtt í fyrradag.
Mér þykir nokkuð merkilegt að sjá hversu hlýtt er í sólskininu á hálendinu þetta snemma sumars. Við skulum athuga að það er ekki nema 6. júní. Vanalega er snjó enn að leysa í þessari hæð, klaki í jörðu er fram á sumarið og geislar sólar fer þá í leysinguna en ekki upphitun sandanna og þar með loftsins. Sumarhlýinda er þannig ekki að vænta á hálendinu í venjulegu árferði fyrr en í fyrsta lagi í lok júní og oftast ekki fyrr en komið er fram í júlí.
Sjá á tunglmynd (MODIS) frá því í gær, 5. júní kl. 14 að snjó hefur að mestu tekið upp á hálendinu. Það er helst að sjá fyrningar svona úr lofti á Nýjabæarafrétt við Eyjafjarðarbotn og eins í Bleiksmýrarárdrögum þar austur af. Þarna er háslétta í um 800-1000 metra hæð. Myndin tekur líka af allan vafa. Bullandi bólstramyndun á Sprengisandi og Hofsafrétti norðan Hofsjökuls. Bólstrarnir eru órækur vitnisburður um það að jörðin hlýnar og varmi streymir upp í stað þess að bræða ís og snjó.
Á Hveravöllum var einnig sérlega hlýtt í gær eða tæplega 16°C. Ekki veit ég hvað það er í sögulegu samhengi, en hitinn hefur vissulega farið yfir 20 stigin í júní þar, en vissulega alveg í lok mánaðarins. Hins vegar er maímetið 15,7°C á Hveravöllum frá 27.maí 1977. Það ártal vekur upp ákveðin hugrenningatengl því afar snjólétt þótti á hálendinu veturinn 1976-1977 líkt og nýliðinn vetur.
Myndin af skálanum í Sandbúðum er fengin af síðu Jóns Skjaldar Karlssonar mótorhjólagarps og tekin á miðju sumri fyrir nokkrum árum.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Gæti verið að gjóskan sé að stuðla að minna hitatapi frá jörðu eða á einhvern hátt að halda í varma frá sólu ?
Vilhjálmur Árnason, 6.6.2010 kl. 13:29
Ég fæ ekki séð að gjóska hafi áhrif á miðhálendinu að þessu leytinu. Snýst um endurkast sólgeislunarinnar og þann varma sem nýtist í upphitun. Á Sprengisandi er yfirborðið dökkt fyrir, því sem næst svart. Öðru máli skiptir þar sem gróður og hann kaffærður af gosösku. Síðan á sjálfum Eyjafjallajökli þar sem öskuskaflarnir drekka í sig varma sólarinnar í stað þess að hreinn jökulinn virkar líkt og spegill !
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 6.6.2010 kl. 16:36
Önnur spurning; geta þessi hlýindi á hálendinu haft áhrif á veðurfar og/eða hitastig á láglendi?
Sveinn Atli Gunnarsson, 6.6.2010 kl. 22:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.