Til hamingju Íslendingar !

3722657685_b914515688.jpg10,8°C meðalhiti í Stykkishólmi í júní er staðreynd.  Svo hlýtt hefur aldrei orðið þar í júnímánuði frá upphafi athugana 1845.

Í mínum huga og margra annarra eru þetta stórtíðindi í veðurfarssögu landsins.  Í Stykkishólmi hefur nefnilega verið mældur hiti samfellt lengur en annars staðar á landinu.  Til grundvallar þessu glæsilega veðurmeti liggur því saga mælinga til 165 ára.

Enn ein væna sumarbyrjunin á landinu er staðreynd það sem af er þessari öld, en júní 2003 og 2007 voru á landsvísu með þeim hlýrri.  Það er að verða nokkuð um liðið síðan að upphaf sumarsins var markað kuldum og  hægri gróðurframvindu, eins og svo algengt var síðustu þrjá áratugi 20. aldarinnar.  Þetta sést ekki bara á því hvað trjágróður er allur vaxtarlegur heldur má segja að það sé að verða nánast regla að heyskapur bænda fari að mestu fram í júní, með undantekningum vitanlega. 

En það er full ástæða til að óska öllum landsmönnum til hamingju með hitametið í Stykkishólmi !


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Þór Strand

Einar hvað var þetta mikið meira en það sem kemur næst og hvenær var það?

Einar Þór Strand, 2.7.2010 kl. 11:11

2 identicon

Hver var meðalhitinn á öðrum mælistöðvum á Snæfellsnesi s.s. Kolgrafarfirði, Grundarfirði, Gifuskálum?

kveðja

Ingi Hans

Ingi Hans Jónsson (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 12:48

3 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ágæt samantekt er á vef veðurstofunnar um samanburð við fyrri ár hér.  Meðalhitinn frá sjálfvirku stöðvunum Í Grundarfirði og á Gufuskálum er auðvelt að reikna og eins að bera saman við aðra mánuði.  Áreiðanlega eru þar líka met, en ekki hefur verið mælt lengi, þó frá 1970 á Gufuskálum ef ég man rétt.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 2.7.2010 kl. 12:59

4 Smámynd: Einar Þór Strand

Reyndar er ég að velta fyrir mér hvaða áhrif færsla veðurstöðvarinnar hérna í Hólminum hafði á mælingarnar.

Einar Þór Strand, 2.7.2010 kl. 14:19

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Má óska til hamingju með hin skelfilegu gróðurhúsaáhrif?! Eiga menn ekki fremur að vera með lífið í lúkunum?

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.7.2010 kl. 19:57

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Mikið er alltaf  gott að sjá merki um hlýnun. Ekki er ég með lífið í lúkunum. Væri frekar með það þar ef kólnun væri í vændum .

 Annars væri fróðlegt að frétta meira af færslu veðurstöðvarinnar sem Einar Þór minnist á. Voru gamla og nýja stöðin reknar samtímis um skeið til að átta sig á áhrifum breytingarinnar?

Ágúst H Bjarnason, 3.7.2010 kl. 09:10

7 identicon

Væn sumarbyrjun er skammgóður vermir ef haustveðrin byrja 1. júlí. (29,9 m/s)

Óskar J. Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 11:26

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Á vefsíðu Veðurstöðvarinnar er tekið fram að færsla stöðvarinnar geti skapað óvissu upp á 0,2° en þetta met sé vafalaust. En samanburðarmælingar vegna flutninga voru aldrei gerðar en hnik jefur komið fram stundum vegna flutninganna Menn hafa víst gert sitt besta til að samræma alla mæliröðina. Á elstu veðurstöðvum og líka þeim yngri eru altaf ýmis vafaatriði vegna flutninga stöðva, breytinga á skýlum, mannaskiptum  og ýmsu öðru. Algerlega ''hrein'' og vafalaus gagnraöð um hvaða veðurþátt sem er er ekki til.  

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2010 kl. 13:00

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í sambandi við tímalengd Stykkishólms í hita langar mig til að nefna eitt. (Reyndar vantar fjóra mánuði árið 1919). Tímaröðin er þess vegna rofin þá ekki hafi verið lengi.  Athugað var í Reykajvík frá því um 1820 og til 1854, lengst af án þess að athugað væri í Stykkishólmi. Mælingar þessar eru taldar a.m.k. svo áreiðanlegar að þær hafa verið transpóneraðar til Stykkishólms til að hægt sé að gera mæliröðina þaðan lengri aftur á bak í tímann og línurit eftir þeim hafa birst í prentuðum ritum. Ég hef því lengi velt því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum þessi tólf ára eyða í Reykjavík, 1854-1865,  eða jafnvel til 1870 ef árin1866-1870 þykja tæp, hefur ekki brúuð eftir athugunum frá Stykkishólmi. Þá fengjum við óslita hitaröð frá sama stað til 1820, að vísu ekki sérlega nákvæma fyrstu árin en betri en ekkert. Frá 1880 til 1907 var athugað á vegum dönsku veðurstofunnar í Reykajvík en líka eru til hitamælingar 1871-1879. Frá 1907 til 1919 hefur Reykjavíkurhiti verið reiknaður eftir skeytastöð sem þá var, en lengst af á þessum árum var líka athuga á Vífilsstöðum. Veðurstofan tók svo til starfa 1920.  Það er því til samfelld hitaröðí Reykjavík frá því um 1820 til okkar daga nema 1854-1865. Ég ætla að leyfa mér að láta þann vafa uppi að Stykkishólmur sé endilega betur að þeim heiðri kominn en Reykajvík að hafa samfelldustu hitaröð á landinu. Stykkishólmur er þarna ofmetinn á kostnað Reykajvíkur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2010 kl. 17:25

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi svigi á ekkert að vera þarna!

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2010 kl. 17:27

11 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lengstu hitaröð er víst betra að segja en samfelldustu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.7.2010 kl. 17:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1788782

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband