7.7.2010
Víða enn leiðinlega hvasst á landinu
Syðst á landinu náði veðrið hámarki í nótt, en laust fyrir kl. 3 sló vindmælirinn í 45 m/s í hviðu á Steinum undir Eyjafjöllum. Miðað við vindmælingar á Stórhöfða sem oft er ágætt að hafa til viðmiðunar þegar A-veður eru borin saman og styrkur þeirra metin, að þá var veðurhæð nú tiltakanlega minni en 1. júlí. Þó verður að hafa í huga að nú ber veðrið öll merki NA-áttar fremur en A-áttar.
Kl. 06 var lægðin 971 hPa suðaustur af landinu. Svona alvöru lægðir á miðju sumri eru næsta fátíðar og í raun sérstakt rannsóknarefni hvað veldur að fá tvær slíkar í syrpu, sérstaklega þegar horft er til þess að raunverulega svalt pólarloft er ekki til staðar sem byggingarefni þeirra ef svo má komast að orði.
En nú laust fyrir kl. 09:30 má sjá að enn er leiðinlega hvasst víða á landinu og veðurhæðin sums staðar til trafala ferðalöngum. Athyglisvert er m.a. að sjá að í Skaftafelli hefur vindur verið fremur hvass og byljóttur nú í morgun og slegið í 26 m/s. Vonandi að allt hafi gengið vel á tjaldstæðinu þar. Á Sunnanverðu Snæfellsnesi er líka víða ansi vindasamt og nú rétt áðan sló mælir Vegagerðarinnar á Kjalarnesi í 35 m/s í mestu hviðu. Þar er því varhugavert að vera á ferðinni nú með aftanívagna.
Lægðin verður á dóli hér undan Suðausturlandi næsta sólarhringinn og rúmlega það og viðheldur hér NA-strengnum og helst hann því lengur en góðu hófi gegnir nú í júlí. Um norðvestanvert landið alveg til morguns.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 10:07 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
... og enn bíðum við austfirðingar eftir SV-áttinni sem átti að vera ríkjandi í allt sumar
Eysteinn Þór Kristinsson, 7.7.2010 kl. 10:18
Þú færð í það minnsta ekki SV-áttina þessa vikuna Eysteinn. Mikið hefur rignt fyrir austan síðustu dag og sýnist mér að úrkoman á Fáskrúðsfirði sé orðiðn um 250 mm frá því að gáttirnar opnuðust 1. og 2. júlí !
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 7.7.2010 kl. 10:59
Ég hef ekkert vit á veðri en mér finnst allur sumarfílingur, sem var svo sterkur síðan einhvern tíma í maí, hafa horfið með fyrri lægðinni 1. júlí. Það er hryllingur að horfa til Esjunnar hér út um gluggann. Minnir mann swinging sixties! Ég er líka að pæla í hvað sé í gangi og við hverju megi fara að búast. Það er mín reynsla, byggð á kannski skeikulu minni, að þegar mikill rosi kemur skyndilega með látum eftir langvarandi góðviðri um hásumar, hvað þá eitt ofan í annað, þá nái sumarið sér aldrei aftur almennilega á strik. Að þetta gerist akkúrat í byrjun venjulega besta sumarmánaðarins er virkilega ills viti.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.7.2010 kl. 14:13
Það er núna 11 stiga hiti á nyrstu og næst nyrstu veðurstöð heimsins!
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.7.2010 kl. 14:40
Er þetta það sem koma skal?
Er þetta kannski eðlilegt íslenskt sumar?
Voru seinustu sumur óeðlileg?
Spyr sá sem langar í smá sól, en fær ekki.
Hermann (IP-tala skráð) 7.7.2010 kl. 21:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.