Í skúr í Mýrdal

Er búinn að vera á ferðalagi um Suðausturland undanfarna daga og ók í gær í áttina til Reykjavíkur. Undanfarna tvo til þrjá daga hafa skilyrði til myndunar bólstraskýja verið sérlega hagstæð enda háloftkuldi til staðar.  Nokkuð hefur verið um síðdegisskúrir til landsins, einkum í uppsveitum Suðurlands og Borgarfjarðar og eldingar komið fram á mælum.

En aftur að ferðalaginu í gær.  Við ókum til vesturs og bjart var til hafsins en bólstrarnir hnykluðust upp í áttina til fjalla.  Í Skaftafelli var þurrt, en skúraleiðingar niður á Skeiðarársandi og ekið var um mikla skúr við Lómagnúp.  Á Klaustri var hann nýfarinn að skvetta úr sér og fólk sem ég hitti þar sagði að kvöldið áður hefði líka gert skúr og sú varað meira og minna í rúmlega 2 klst.  Gert síðan fallegasta veður um kvöldið.  Áfram var haldið og nú sagði ég, Vík, það er staðurinn, við sjávarsíðuna og hlýtur að sleppa !

picture_148_1008541.pngÞangað var ekið og þungar skúraleiðingar voru bæði yfir Eldhrauninu og Mýrdalssandi.  Mjög dimmt var að sjá við Hjörleifshöfða, enda höfðu þurrkurnar vart undan þegar þar var ekið.  En eins og við manninn mælt að um leið og komið var yfir Múlakvísl stytti upp og sólin skein á Víkurkauptún.  Hér verður gott að vera sagði ég og tjaldið var drifið upp.  En svartur var hann í austrinu, eiginlega kolsvartur.  Í þann mund sem tjaldið var að komast upp gerði kaldan gust, þann sem maður finnur gjarnan rétt fyrir rigningarskúr.  Hann varð sem sé ekki umflúin, bakkinn dökki við Hjörleifshöfða var á leið vestureftir og í kjölfarið fylgdi kröftugt regn í um 1/2 klst.  Svo mikið rigndi að allt fór bókstaflega á flot.  Fólk flúði í skjól og margir höfðust við í bílum sínum á meðan á ósköpunum dundi.

Sé í mælingu hér í Vík að úrkoman nam um 9 mm í þessari eftirminnilegu miðsumarskúr á stað sem ég hélt að mundi örugglega slepp við síðdegisskúrirnar !!!   En svo stytti upp og gerði þessa fínu kvöldkyrrð og ómótstæðilega birtu sem ég þekki einmitt svo vel úr Mýrdalnum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Síðdegisskúrirnar voru sko ekki einungis til landsins, hér í Vogum við Vatnsleysuströnd fengum við hressilega rigningardembu á okkur seinni partinn í gær (12/7)

Þetta byrjaði með kröftugu hagléli um hálf-sex leytið og síðan fór að rigna með þvílíku offorsi að ég hef aldrei lent í öðru eins (og hef þó oft séð rigna mjög kröftuglega, bæði í Noregi og Kanada). Demban stóð yfir í rúman hálftíma, lauk með kröftugu hagléli og skildi landið eftir grá-hvítt á stórum svæðum og þykkt lag af vatni á blómabeðum og göngustígum í lóðinni.

Það sem mér fannst einkennilegast var að ég heyrði ekki eina þrumu í öllu þessu, nú hljóta svona dembur með hagléli og öllu að eiga sinn uppruna í þrumuklökkum (CB), ekki eru skúraskýin (Cu) nógu há fyrir svona lagað? 

Sigvaldi Eggertsson (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 11:26

2 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Það sem er merkilegra við þessar miklu skúrir sem hafa gengið yfir, að það rigndi ekkert í Keflavík sem heitið getur, kom ein smá skúr í gærkvöld, meðan allt var á floti í Vogum og náði reyndar í innstu hverfin í Innri Njarðvík. Einnig þegar allt var á floti á Reykjavíkursvæðinu á laugardag kom ekki dropi úr lofti hér í Keflavík. Öðru vísi mér áður brá. En núna fyrir hádegi á Þriðjudegi er ég búinn að heyra þrumur í fjarska og dágóðar skúrir hafa fylgt í kjölfarið.

Gísli Sigurðsson, 13.7.2010 kl. 13:09

3 identicon

Já það er skúraveður núna en hvað varð samt um þetta "rigningarsumar" sem var spáð? Man ekki hvort þú gerðir það eða vitnaðir í aðra

Ari (IP-tala skráð) 13.7.2010 kl. 19:41

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Vilja menn endilega að komi rigningarsumar? Ekki nenni ég að gera miklar rellur út af langtímaspám fyrir marga mánuði. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.7.2010 kl. 23:40

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En til vara spái ég því að verði skítaveður það sem eftir er sumars ef sumar skyldi þá kalla!

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.7.2010 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband