Jöklarnir láta á sjá í þessari tíð

MODIS_18.júlí 2010Forsenda þess að jökull geti viðhaldið sjálfum sér er að sá snjór sem fellur á hann ofantil bráðni ekki yfir sumartímann.  Ofan á þann vetrarsnjó bætis síðan nýr snjór og jökullinn skríður þannig með tímanum út til jaðrana eða leysingasvæða sinna undan eigin þunga.

Þeir sem fylgjast grannt með afkomu jöklanna líta gjarnan til snælínunnar, en það er sá staður í jöklinum á hverjum tíma þar sem komið upp úr gömlum jökulís í snævi liðins vetrar. Snælínan færist upp eftir jöklinum eftir því sem líður á sumarið. Jafnvægislína er hún kölluð sá staður í jöklinum þar sem snælínan nemur staðar að hausti áður en snjóa tekur á ný

Eftir tiltölulega snjóléttan vetur á hálendinu og þar með víðast á jöklum landsins og eina þáhlýjustu sumarbyrjun sem sögur fara af þarf engan að undra að snælínan fer nú hratt upp eftir jöklunum.  Á tunglmyndum í sæmilega góðri upplausn má gjarnan sjá þessi skil í jöklinum á milli vetrarsnævarins og jökulhjarnsins.  Reyndar getur öskufall úr Eyjafjallajökil gert mönnum nú heldur erfiðara fyrir við svona greiningu úr lofti.  

Á MODIS mynd frá því gær, 18. júlí í hæstu upplausn (250m)  má glögglega sjá í Hofsjökli snælínuna.  Hún er hins vegar öllu ógreinilegri í Langjökli og sýnist sem snælínurnar séu tvær til þrjár, nokkuð sem fær ekki staðist.  Við samanborð korta með hæðarlínum má ætla að snælínan í Hofsjökli sé nú komin í um  1200 til 1300 metra hæð.  Ef við yfirfærum það á Langjökul má ætla að ekki vanti mikið upp á það að snælínan nái upp á topp sem er í um 1350 metra hæð á norðurhluta Langjökuls.

Hvað Hofsjökul áhrærir að í jöklamælingaleiðangri í lok sumars 2008 var jafnvægislínan álitin hafa verið í 1210 til 1350 metra hæð (sjá skýrslu hér um afkomu Hofsjökuls 2007-2008).  Nú sem sagt upp úr miðjum júlí lætur nærri að sambærilegri stöðu verði brátt náð og þá er allur ágústmánuður eftir !

Þess má geta að jöklamælingahópur Veðurstofunnar (áður Vatnamælinga Orkustofnunar) hefur reiknað afkomu Hofsjökuls neikvæða öll árin, allar götur frá 1995 sem er síðasta jákvæða árið í þessum skilningi.  Hofsjökull er því að rýrna og ekki nær yfirstandandi ára að snúa þeirri þróun við.  Öðru nær.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband