Milt var í lofti um land allt í dag og klárlega einn hlýjasti dagur sem núlifandi hafa upplifað í október. Mér finnst kannski ekki rétt að tala í þessu sambandi um hitabylgju líkt og gert er á mbl.is þó svo að vissulega sé hlýtt miðað árstíma.
Hér koma nokkrar tölur yfir hámarkshita dagsins:
17,0°C á Þingvöllum
16,8°C á Eyrarbakka
16,4°C í Ásbyrgi
16,2°C á Tálknafirði
Í öllum tilvikum er um mælingar sjálfvirkra mæla. Á Eyrarbakka er líka kvikasilfursmælir og hef ég ekki upplýsingar enn hvað hann sýndi. Áður hafði mælst hæstur hiti 15,0°C í október á Eyrarbakka, en þar hefur verið mælt nær samfellt frá 1923.
Á Þingvöllum er trúlega einnig um októbermet að ræða, en í Ásbyrgi og á Tálknafirði hefur aðeins verið mælt í örfá ár. Sé á línuriti fyrir Hveravelli að þar náði hitinn um 13°C í dag. Í metatöflu Sigurðar Þórs, sem hér er vitnað til (og hún er rétt) segir að þar hafi hæst mælst 10 stig !
Ég var að gera að því skóna að met gæti fallið í Reykjavík (15,7°C, 1. okt 1958). Hámarkshitamælirinn sýndi hins vegar 14,6°C í dag og litlu lægri hita í gær. Ágætis tilraun, en bæði var það að aðeins vantaði upp á goluna af SA og A framan af degi og eins dró ský fyrir sólu um miðjan daginn.
Síðan vekja þær athygli tvær mælingar Vegagerðarinnar uppi á fjöllum, annars vegar 17,4°C á Biskupshálsi á Möðrudalsöræfum og hins vegar 17,2°C á Gemlufallsheiði. Í báðum tilvikum var nánast logn þegar hitinn varð hvað hæstur og sóli skein. Ég hef svo sem enga ástæðu til að ætla annað en að þessar mælingar séu réttar og við verðum að hafa hugfast að í hæð var sérlega hlýtt og loftmassahitinn um 8-10°C í um 1.500 metra hæð. Það er með miklum ólíkindum að slíkt skuli gerast þetta seint eða að loknu sumri.Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 11.10.2010 kl. 21:37 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Já þetta er frekar magnað. Maður var að gantast við fólk einhvern tímann í miðjum september þegar það var góðviðri að það væri hægt að kalla þann dag seinasta dag sumarsins, en svo tæpum mánuði síðar þá er hægt að segja slíkt hið sama aftur!
Maður hefði nú haldið samt að staðir nálægt sjó hefðu ekki átt að ná svona hita, sbr. úthafs og meginlandsáhrifin, en einnig út af því að sól er ekkert svaka hátt á lofti þó hún vermi (sól var t.d. 19,2° í hádegisstöðu í dag en til samanburðar er hún rúmar 49° kringum sumarsólstöður)
Ari (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 00:08
Var að uppfæra metatöflurnar. Kvikasilfursmetið á Hveravöllum er 12,0° en hefur verið tvíslegið sjálfvirkt í þessum mánuði, 13,1° í dag og 12.7° þ. 4. Mælirinn við skíðaskálann í Seljalandsdal fór í dag upp í 18,5° hvort sem á nú að taka mark á honum eða ekki.
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.10.2010 kl. 01:02
Húnaflóaþokan lætur ekki að sér hæða. Ók frá Reykjavík til Skagafjarðar seinni partinn í gær. Uppi á Holtavörðuheiði var +12°C hiti, +6°C þegar komið var niður hjá Grænumýrartungu og ekið var inn í þokuna við Reyki og þar var +4°C og var hitinn að flökta milli +5°C og +3°C alla leið inn í Norðurárdal þar sem ekið er upp á það sem Vegagerðin kallar af vísdómi sínum Þverárfjall (en það örnefni hefur víst aldrei verið til að sögn staðkunnugra). Þar létti til og hér í Skagafirði var þá þokulaust að kalla en hitinn +6°C. Þokan lagðist síðan yfir hér líka í nótt (enda er Skagafjörður á veðurfarssvæði Húnaflóans) og hér er núna svartaþoka og skv. sprittmælinum mínum í 2ja metra hæð +4,8°C.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 09:15
Þetta var alveg einstakur dagur - brúðkaupsdagurinn okkar þar að auki. Lítið mál að vera í útimyndatöku í 14 stiga hita og andvara!
Elín Björk Jónasdóttir (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 14:51
10.10.10. - einn besti haustdaugur í manna minnum Vantar ekki r í haustdraugur?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 11.10.2010 kl. 20:52
Til hamingju Elín Björk og þið bæði með brúðkaupsdaginn !
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 11.10.2010 kl. 21:36
Sæll Einar,
Veist þú hvort og þá hvar er hægt að nálgast veðurlýsingar fyrir tiltekinn dag og spástöð á síðustu árum?
Með þökk fyrir fróðleg og áhugaverð skrif,
Finnbogi Óskarsson
Finnbogi (IP-tala skráð) 14.10.2010 kl. 11:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.