15.11.2010
Kuldatíð það sem af er nóvember
Fyrstu 14 daga þessa nóvembermánaðar hefur hitinn mælst að jafnaði -0,5°C í Reykjavík og á Akureyri um 1 stigi meira. Það er vissulega enn of snemmt að segja hvað gerist í þessum málum þann helming mánaðarins sem eftir er.
Nóvembermánuður hefur ekki endað undir frostmarki í Reykjavík frá 1996 og reyndar hefur mánuðurinn aldrei verið undir meðaltali (+1,1°C) á þessari öld. Síðustu þrjú skiptin (2007,2008 og 2009) um 2 stigum yfir meðaltalinu. Síðari hlutinn þarf því að vera ágætlega mildur til að tosa hita nóvember upp að meðaltali sínu. Kuldinn nú er vissulega nokkur viðbrigði og stílbrot á afar góðu hausti og væntinga um að hiti ársins yrði með þeim mesta sem mælst hefur. Vonir um slíkt hafa dvínað mjög. Sjá hér annars pælingar Trausta í svipaða veru
En aftur að 1996. Þá hafði ekki verið kaldara í nóvember í meira en 20 ár (1973). Meðalhitinn í Reykjavík mældist -1,9°C og stóðst þannig samjöfnuð við sæmilega kaldan febrúar ef út í það er farið. En þetta haust voru talsverð líkindi með veðurfarinu og nú. Október þótti mildur, en með vetrarkomunni kólnaði líkt og nú. Við tóku vikur sem einkenndust af lofti úr norðri, en þó var kuldatíðin ekki samfelld og gerði a.m.k eina skarpa hláku. Þjóðin hafði um annað að hugsa þessa daga í nóvember en það að hitamælar landsins voru að sýna frost, því þann 5. hófst hið sögulega Grímsvatnahlaup sem tók af brúnna við Gígjukvísl. Margir fóru kjölfar þess austur á sand, einmitt í björtu og fremur köldu veðri !
En hvað svo ? Hvernig skyldi desember hafa verið ? Tíðarfar var hagstætt stendur í Veðráttunni fyrir desember 1996. Lítill snjór og loftvægi var óvenju hátt.
Þó líkindi séu talsverð á milli 1996 og 2010 er annað sem ber í milli. Nú þykir t.a.m. vera orðið snjóþungt sums staðar á Norðurlandi sem ekki var þá. Fyrir þá sem tröllatrú hafa á endurteknum í veðurfarinu verð ég að hryggja með því að líkindin nú og þá eru eingöngu tilviljun og það sem tók við eftir 15.nóv. þá hefur alls ekki forspárgildi í dag. En það er alltaf gaman að sjá hlutina hafa á sér keimlíkt svipmót !
Ljósm: Helgi Björnsson, 1996.
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 01:24 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Er þetta bara ekki forspárgildi fyrir veturinn?
Veturinn í fyrra var askaplega mildur. Aftur á móti var veturin kaldur í norðanverðri Evrópu. Nú virðist þetta hafa snúist við og það er spurningin hvort að þetta sé það tíðarfar sem við munum upplifa í vetur.
Ég spái því að kallt verði fram undir lok apríl á næsta ári.
Desember verði kaldur og snjóasamur.
Janúar enn kaldari og snjóar enn miklir.
Febrúar eitthvað mildari með snarpri og hlýrri lægð um miðjan febrúar, en svo kólnar aftur.
Mars svalur og suddalegur með snjóéljum og slyddu í bland.
Apríl eilitið betri en mars og annars á svipuðu róli.
Í maí fer svo loksins að rofa til með bland af vætu og sól til skiptis.
Hvað segir þú um tíðarfarið í vetur, Einar?
Ægir B. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 11:46
Hún fær aukið vægi spáin þín Ægir þegar þú lest hana eins og ljóð ! !
Ég treysti mér hins vegar ekki að spá svona nákvæmlega út veturinn, en lýsing þín gæti átt við vetrarveðráttuna eins og hún var í raun um og eftir 1980.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 15.11.2010 kl. 17:10
já fínasta ljóð þarna, senda þetta í ljóðakeppni ;)
Skv: http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html (sem þú notar stundum Einar, minnir mig) , þá kemur hingað hlýrra loft um helgina, veit reyndar ekki alveg hvernig á að túlka þetta þar sem mig minnir að þetta sé háloftaspá en eftir þrýstilínunum að dæma þá eru alla vega þarna lægðir að dæla suðrænu lofti norður.
Ari (IP-tala skráð) 15.11.2010 kl. 19:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.