24.11.2010
Loftslagslist á Langjökli
Í dag er greint frá því m.a. í Fréttablaðinu að listakonan Bjargey Ólafsdóttir taki þátt í fjölþjóðlegum umhverfislistahópi sem lætur til sín taka til að vekja athygli á laftslagshlýnun af mannavöldum. Þetta eru samtökin 350, en talan vísar til þess hlutar koltvísýrings sem margir ætla að séu nokkurs konar efri mörk þess sem viðundandi sé til að koma í veg fyrir verulega hlýnun lofthjúpsins. Til samanburðar er styrkurinn rétt tæplega 390 ppm nú, en hann mældist um 350 ppm skömmu fyrir 1990.
Verkefni listamannanna er gott og göfugt og gengur út á stór umhverfislistaverk á jörðu niðri og á umfang þeirra að vera svo mikið að verkin eiga að vera sýnileg utan úr geimnum. Framlag Bjargeyjar er að mála útlínur ísbjörns uppi á Langjökli eins og sjá má á úrklippu Fréttablaðsins. Bjargey ætar að nota alkóhólblandaðan matarlit og dreifa honum með garðaúðurum með aðstoð 20 sjálfboðaliða. Verkið hófst í dag í prýðilegu veðri á Langjökli.
Hins vegar var það stærðin á listaverkinu sem ég staldraði við, en samkvæmt fréttinni kemur þið til með að verða 90 x 60 m að umfangi. Sá flötur er nú alls engin ósköp uppi á jökli sem nær yfir rúmlega 900 ferkílómetra lands. 1/2 ha sem verkið þekur er þannig um 1/200.000 af flatarmáli Langjökuls og langsótt held ég að sjá slíkan "punkt" utan úr geimnum t.d. frá gervihnetti, meira að segja í háupplausn.
Það er síðan annað mál sú oftúlkun Bjargeyjar að fullyrða að ísbjarnarkomurnar hér í fyrravor hafi verið af völdum loftslagsbreytinga og/eða hörfunar íssins. Um það er ógerningur að segja til um, en Bjargeyju er vorkunn, því ýmsir hafa fullyrt eitthvað svipað, m.a. umhverfisráðherra.
Síðan er þarna í þessari sömu frétt einhver sérkennileg tenging verkefnisins við Knút sem sagður er Danakonungur. Hélt fyrst að veri væri að tala um um hinn fræga þýska ísbjarnarhún með sama nafni, en á sennilega að vera hinn skrautlegi Knud prins (1900-1976), sem var yngri bróðir Friðriks VIII og þar með einnig sonur Kristjáns X, síðasta kóngsins yfir Íslandi.
Síða verkefnisins, þar sem sjá má nokkur listaverkanna er hér. Bíð spenntur eftir því hvernig til tekst á Langjökli.
Flokkur: Veðurfarsbreytingar | Breytt 25.11.2010 kl. 08:33 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það er nú svo sem ekki mikið við því að gera að fólk hafi ekki allar staðreyndir málsins á hreinu (enda ekki alltaf auðvelt að hafa það allt á hreinu - þekki það sjálfur), en það er þó góðra gjalda vert að reynt sé að vekja athygli á þessum málum.
Við skulum vona að þetta sjáist frá geimnum, þó að það virki sem langsótt við fyrstu sýn, ég mun fylgjast með þessu allavega.
Sveinn Atli Gunnarsson, 24.11.2010 kl. 20:40
Ýmis koanar rugl og þvættingur veður uppi í loftslagsumræðunni og þykir fínt! Það þori ég nú að fullyrða. Þori hins vegar varla að láta það uppi að svona myndlist lít á sem umhverfisspjöll.
Sigurður Þór Guðjónsson, 24.11.2010 kl. 21:26
Hér má sjá að allir ísbirnir dóu út á síðasta hlýundarskeiði.
Rauða Ljónið, 24.11.2010 kl. 22:52
Það hefur nýlega komið í ljós að ísbirnir aðgreindust frá brúna birninum fyrir um 150.000 árum. Ísbirnir hafa því sennilega þróast í það að vera ísbirnir á síðasta ísaldarskeiði og eru því mjög ung tegund - álíka gömul tegund og vér ofurgáfuðu nútímamenn.
Emil Hannes Valgeirsson, 24.11.2010 kl. 23:27
Reyndar meinar Bjargey Knút Danakóng sem var uppi rétt fyrir árið 1000. ég fann fyrir þig link á Wikipedia svo þú getir skoðað http://en.wikipedia.org/wiki/Cnut_the_Great
þóra gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 26.11.2010 kl. 12:31
Hér má sjá myndband af ísbirninum á Langjökli, http://vimeo.com/17224808
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.11.2010 kl. 23:45
Hér er virkur tengill, http://vimeo.com/17224808
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.11.2010 kl. 23:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.