15 stiga frost í nótt

101128_0900.pngSamkvæmt yfirliti Veðurstofunnar varð kaldast í nótt í byggð á Þingvöllum eða -15,2°C.  Fá fór frostið í 14,7 stig í Húsafelli og litlu minna var það í Stafholtsey.  Þá mældist lægstur hitinn -14 stig á Sauðárkróksflugvelli. Allir eru þessir staði þekktir kuldapollar í froststillum.  Á hálendinu fékkst lægsta talan ofan úr Veiðavatnahrauni eða -16,4°C.

Yfir landinu miðju er staðbundinn miðja hæðar með þrýsting um og yfir 1040 hPa.  Hún er hluti víðáttumikils háþrýstings sem nú ríkir á stóru svæði umhverfis landið. Meðfylgjandi kort frá Veðurstofunni frá kl. 09 í morgun sýnir hæðina nánast yfir miðju landinu.  Horfur eru á því að frostið herði heldur, einkum í innsveitum og fari staðbundið yfir 20 stig í kvöld og nótt.  Úti við sjóinn er sums staðar alveg frostlaust og þannig var hiti +1°C i Grímsey nú kl. 09.

Annars sækir að okkur með hægð úr vestri heldur mildara loft í nótt og á morgun, næstu daga verður samt heldur kalt við yfirborð í innsveitum norðaustan- og austanlands.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það var -10°á KR vellinum þegar ég fór út kl 8 í morgun.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 11:28

2 identicon

Það er kalt í allri norðanverðri Evrópu þessa dagana. Í einum stað í Noregi t.d. mældist yfir 30 stiga frost í nótt, sem er met í nóvember á þeim stað  - og er þessu veðri spáð þar út alla vikuna. Meira að segja í Osló er verið að spá upp undir 20 gráðu frosti í vikunni.

Sama var upp á teningnum í fyrravetur þar ytra, nokkuð sem virkar skrítið í ljósi alheimshlýnunarinnar.

Torfi Stefánsson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 11:31

3 identicon

Komiði sælir

Í Röros í Noregi hefur frostið farið undir -30 C° núna þrjá daga í röð. Röros er 6000 manna fallegur og gamall námubær (Á arfleiðarlista UNESCO) og þekktur kuldapollur. Reyndar má geta þess að Röros er í 1100 metrum yfir sjávarmáli, og það frekar norðarlega í mið-Noregi. 

Ástæðan fyrir þessum kulda hefur ekkert með "loftlagskólnun" að gera. Þetta er vegna norðlægrar fyrirstöðuhæðar (Núna yfir Íslandi) sem gerir það að verkum að vestlægir vindar út af atlantshafi ná ekki inná á meginlandið, en í staðinn nær austlaugir Síberíu-vindar yfirhöndina. Það er ekki hægt að einblína á Evrópu þegar kemur að loftlagsástandi. T.d. í BNA er hitinn sumstaðar langt yfir venjulegu hitastigi. Í New York hefur hitinn marg oft farið yfir 20 C° í þessum NÓVEMBER mánuði, eitthvað sem gerðist ekki mjög oft, en er farið að bera á meir og meir í seinni tíð.

Kveðja,

Jóhann

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 11:46

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Kaldir vetur munu og geta komið, hvað sem líður hnattrænni hlýnun, enda er hnattræn hlýnun jú hnattrænt meðaltal hitastigs á heimsvísu yfir allt árið, en ekki bara einstök kuldamet eða staðbundnir kaldir vetur. En þessi umræða virðist þó dúkka upp á hverjum vetri, jafnvel þó svo hitastig sé í hæstu hæðum á heimsvísu, sjá Hitastig á heimsvísu í október og þróun fyrir árið 2010.

Sveinn Atli Gunnarsson, 28.11.2010 kl. 16:29

5 identicon

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 28.11.2010 kl. 18:49

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hér má sjá Röros síðustu daga.

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.11.2010 kl. 19:36

7 Smámynd: Hörður Þórðarson

Íslendingar mega þakka fyrir að ekki er kaldara. Í Yakutsk í Rússlandi, sem liggur sunnar en Reykjavík, er meðalhiti Nóvember -29 stig en meðalhiti Janúar er þar -40.

Hörður Þórðarson, 28.11.2010 kl. 23:43

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Smá kuldakast í Jakútsk líka núna. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 28.11.2010 kl. 23:48

9 Smámynd: Birnuson

Sæll Einar. Þú nefnir kuldapolla; hverjir eru helztu kuldapollarnir í á höfuðborgarsvæðinu og eru skipulegar hitamælingar í þeim? Ég spyr vegna þess að í kuldanum undanfarið hef ég tekið eftir því að munurinn á hitanum í Fossvogsdal og í Öskjuhlíð við Veðurstofuna getur verið allt að 5°C.

Birnuson, 29.11.2010 kl. 11:41

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Fyrir rúmum 30 árum bjó ég um tíma í Fossvogsdal, Kópavogsmeginn, skammt frá Birkihlið. Þaðan sást Veðurstofuhúsið vel. En við vissar aðstæður var miklu kaldara þarna í dalnum en á Veðurstofunni, t.d. á stilltum haustdögum. Hitamælirinn minn var réttur. Reykjavík er orðin ansi stór og veitti ekki af að koma upp sjálfvirkum stöðvum hér og þar. Á Hólmi var lengi veðurstöð og þar er alræmdur kuldapollur en byggðin í Norðlingaholti er komin þar ansi nærri þó hún komist líklega ekki alveg í pollinn. Mér skilst reyndar að Veðurstofan hafi meiri áhuga fyrir veðurstöð til að mæla rokið í Gróttu, þar sem engir búa, heldur en kanna veðurlagið í byggum borgarinnar þar sem þúsundir eiga heima!

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.11.2010 kl. 13:36

11 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Það er rétt að kuldapollur er í Fossvogsdalnum í stillum, einnig í Fífuhvammsdal í Kópavogi.  Svo og í Laugardal og út undir Laugarnes.  Sigurður Þór nefnir hér Hólm ofan byggðar og líklegt þykir mér að kalt geti innig orðið í nýju byggðinni á bökkum Elliðavatns.  Við Reykjavíkurflugvöll, sérstaklega í Vatnsmýrinni við Norræna húsið, Öskju og þar um slóðir held ég líka getir orðið kalt, en skjól þar er ekki eins eindregið og á hinum stöðunum sem nefndir hafa verið til sögunnar.  Í Mosfellsbær er síðan enn einn þessara staða í Reykjadal upp undir Reykjalundi.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 29.11.2010 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788784

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband