Hafísinn hefur nálgast landið

Þeir eru orðnir 11 eða 12 dagarnir sem öfugur þrýstistigull hefur ríkt á milli Íslands og Grænlands.  Með öðrum orðum, SV og V-áttir blása á Grænlandssundi í stað hennar ríkjandi NA-áttar á þessum slóðum

Þegar svo háttar til í nægjanlega langan tíma fer hafísinn í Austur-Grænlandsstraumnum (handan miðlínu Grænlands) að hrannast upp.  Þetta er eins konar ísstífla sem leiðir til þess að jaðarinn berst nær Vestfjörðum og á endanum að landi  haldist vindáttir svipaðar næstu daga og vikur.  

Ingibjörg Jónsdóttir (síða hennar hér)  hefur rýnt í tunglmyndir og niðurstaða hennar er að í morgun hafi meginjaðarinn verið 28 sjómílur frá landi þar sem hann var næstur.  Svo er að sjá sem nýmyndun íss  sé út frá meginjaðrinum og það vekur vissulega athygli þetta snemma vetrar.

hitamynd02122010.png

Venjulegar ljósmyndir er ekki að hafa nú í þegar hádegissólin er þetta lágt á lofti. Hins vegar hafa verið svo góð skilyrði í dag hvað skýjafar varðar að á venjulegum hitamyndum má greina nokkuð vel svæði hafíss norður og norðvestur af landinu. Í það minnsta útbreiðslu kalda sjávarins.  Við rétt veðurskilyrði, þ.e. kulda og hægan vind getur þessi seltulitli sjór hæglega lagt og myndað nýjan ís.   Sjálfum þykir mér útbreiðsla þessa kaldsjávar vera  allmikil eins og tunglmynd Veðurstofunnar frá kl. 15:16  sýnir reyndar vel (að neðan).

 Ekki er alltaf auðvelt að greina ský eða þoku frá sjónum, en í dag var það ekki vandkvæðum háð í heiðríkjunni.

Eðlilegri NA-átt í Grænlandssundi er ekki spáð næstu 10-12 dagana hið skemmsta svo að aðventan ætlar að verða okkur veðurdellufólki sérlega áhugaverð hvað þetta varðar a.m.k.

Hér er tengill á umfjöllun Trausta Jónssonar um vesturís, eins og venja er að kalla hafískomur, verði þær í svipuðu veðurlagi og nú snemma vetrar.  

 

 

 

 

 

 

101202_1516.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Einar,

Faðir minn sagði mér að þegar hann kom til Hafnar í Hornfirði þann 31. Maí 1979, til að leysa af héraðslæknin þar, hafi ekki verið stingandi strá að sjá. Grasið ekki einu sinni orðið grænt. Í fyrstu vikunni í júní rættist hinsvegar úr sumrinu sem ætlaði bara ekki að láta sjá sig. Fyrir vikið varð Maí 1979 kaldasti Maí mánuður 20.aldarinnar, örugglega hefur hafísinn og þrálátar N-lægar áttir haft þar áhrif. Ég spyr, vegna mikils hafís á þessum tíma, kemur vorið 1979 til með að endurtaka sig (þannig að vorið 2011 verður svipað)?

Kveðja, 

 Jóhann Grétar

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 3.12.2010 kl. 11:43

2 identicon

Langtímaspár benda til þess að háþrýstisvæðið (fyrirstöðuhæðin) sem hefur verið suður af Hvarfi undanfarna daga, muni þegar líður á vikuna hreyfast til austurs. Við það eykst SV-átt á Grænlandshafi og Danmerkursundi. Ekki minnkar það líkurnar á því að hafís nálgist norðanverða Vestfirði. En spár eru jú bara spár.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.12.2010 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1790162

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband