5.12.2010
Samtíningur um sérkennilegt tíðarfarið
Þeir eru margir sem dásamað hafa í mín eyru tíðarfar undanfarinna tveggja vikna. Gjarnan látið fylgja með að froststillur séu mun kærkomnari á aðventunni en næðingurinn og krapahryðjurnar sem flestir tengja frekar við veðurfar þessa árstíma. Ljósmyndin er úr Eyjafirðinum og tekin á dögunum af Jóni Inga Cæsarssyni.
Höfum það hugfast að þessi einkennilega tíð hjá okkur tengist kuldanum og snjókomunni á meginlandi Evrópu og jafnvel einnig þurrkunum sem sagt hefur verið frá í Ísrael.
Segja má að fyrirstöðuhæð hefi ríkt í grennd við landið allt frá sunnudeginum 21. nóvember, en þá urðu líka straumhvörf í meginhringrás loftsins við N-Atlantshaf, sem aftur hefur djúpstæð áhrif á veðrið í Evrópu. Erfitt er að benda á eitthvað eitt sem skýra kann þessa breytingu sem varð, það er meira að segja alls ekki auðvelt svona eftir á.
Í stuttu máli hefur ríkt hér neikvæður fasi hinnar svokölluðu Norðuratlantshafssveiflu (NAO).
- Jákvæður fasi NAO: Verður þegar lægðagangur er frá austri til vesturs yfir Atlandshafið og braut lægðanna nærri Íslandi eða hér skammt sunnan við land. Jafnframt er háþrýstisvæði staðsett vestur af Portúgal, nærri Azoreyjum. Yfir meginland Evrópu berst þá milt og úrkomusamt loft, en á sama tíma er kalt við á Vestur-Grænlandi.
- Neikvæður fasi NAO: Þá er þrýstimunur á milli Íslands og Azoreyja minni, jafnvel hærri þrýstingur við Ísland. Lægðabrautin færist til suðurs inn yfir Miðjarðarhaf og N-Afríku. Milt verður við V-Grænland, en heimskautaloft streymir úr norðri og austri yfir Norður- og Vestur-Evrópu.
Nánari útlistun á hinni áhugaverðu Norðuratlandshafssveiflu má lesa t.d. í fróðleiksmola á vef Veðurstofunnar og eins er bent á umfjöllun á Wikipedia.
Þegar fasi NAO er áberandi neikvæður einkennist veðurlagið m.a. af eftirfarandi þáttum:
- Ríkjandi vindáttir verða frá SV til N, í stað hinnar algengu A-lægu átta.
- Úrkomulítið er í veðri og stundum sérlega þurrt.
- Loftþrýstingur er hærri en í meðallagi, hægviðri tíð og lítið um storma.
- Ýmist er frekar kalt eða mjög milt.
Þessi síðasti þáttur þarfnast útskýringa. Sé vindáttin norðlæg beinist kalt loft yfir landið og gjarnan er að vetri slík N-átt hæg og yfirborð landsins kólnar þá vegna útgeislunar (að vetrinum). Hin hliðin á þessum sama peningi er sú að loft með mjög suðlægan uppruna berst hingað í SV-átt. Staðsetning fyrirstöðuhæðar sem oftast er undirliggjandi fyrir langa kafla með neikvæðum NAO stýrir því hvort loftið er suðlægt eða norðlægt að uppruna.
Frá 21. nóv til 5. des hefur meðalloftþrýstingur í Stykkishólmi verið um 1025 hPa og er það um 23 hPa yfir meðalagi árstímans. Í Reykjavík hefur úrkoman þessar tvær sömu vikur mælst á milli 6 og 7 mm. Þar er um fimmtungur þess sem ætla mætti að kæmi í mælana á jafnlöngum tíma í byrjun vetrar.
Í sjálfu sér er ekki óalgengt að sjá fyrirstöðuhæðir á okkar slóðum að haustlagi eða í vetrarbyrjun, en slíkt ástand varir oftast ekki nema í örfáa daga, sjaldnast lengur en 10-12 daga.
En hvað svo um áframhaldið ?
Flestar tölvureiknaðar spár gera ráð fyrir því að í stórum dráttum haldist einkenni þessa kafla sem hófst eins og áður sagði 21. nóvember, næstu tvær vikur hið skemmsta. Ekki er þó um sömu fyrirstöðuhæð að ræða. Það sem frekar gerist er að um leið og slík koðnar niður, sem er jú óhjákvæmileg örlög þeirra þegar þegar milt loft þeirra berst norður í mun kaldar umverfi, að þá sprettur stöðugt ný upp, nokkurn veginn í kjölfar hinnar fyrri. Kortið hér til hliðar er GFS spákort Bandarísku Veðurstofunnar sem gildir 15. desember kl. 06. vissulega langt fram í tímann, en sama hvar borið er niður, reiknilíkönin eru ekki þessa dagana að brjótast úr viðjum hins neikvæða fasa NAO.
Líka má skoða sérstaka spá um gildi á NAO, einnig frá Bandarísku Veðurstofunni. Það sem súluritið sýnir er 10 daga spá fyrir gildi NAO og athugið að það er eitt og hið sama fyrir allt N-Atlantshafið (tekur mið af þrýstimun Azoreyja og Íslands). Súlurnar eru alltaf spá og sjá má að straumhvörfunum um 20. nóvember er ágætlega spáð. Eins er greinilega spáð svipuðu ástandi næstu 10 daga. Fylgnin á milli spágildis og raungildis er tæplega 0,7 frá því í ágúst. í 7 daga spá er fylgnin enn betri eða 0,84.
Gangi þessi spá eftir má hæglega fara að tala um afbrigðilegt tíðarfar með upp undir mánaðarlangan kafla með fyrirstöðuhæðum við Ísland og Grænland sem koma í veg fyrir eðlilegan loftstraum af Atlantshafinu inn yfir meginland Evrópu. Fari svo á veturinn enn eftir að herða tökin á þeim slóðum.
Ég mun í öðrum pistlum fjalla um ýmsar birtingarmyndir þessa ástands og bregða jafnframt ljósi á áþekka kafla að vetri frá fyrri tíð.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 17:43 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788784
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Haustljóð. (Baggalútur)
Drulluskíta helvískt haust,
hata ekkert fremur
Djöfuls ömurð endalaust,
allar vonir kremur
Kuldinn hér á Reyðarfirði er ekki mikill á celsíus kvarðanum, en mikið asskoti er hann napur samt. Hefur væntanlega með rakastigið að gera.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.12.2010 kl. 21:36
.... er þetta ekki skárra svona:
Drulluskíta helvískt haust,
hata ekkert fremur.
Djöfuls ömurð endalaust,
allar vonir kremur.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.12.2010 kl. 21:38
Eins dauði er annars brauð. Það er algilt og óhrekjanlegt.
Hörður Sigurðsson Diego, 5.12.2010 kl. 21:47
Takk annars fyrir þínar áhugaverðu og fróðlegu færslur.
Hörður Sigurðsson Diego, 5.12.2010 kl. 21:48
Þessi hæð er nú komin á heldur ískyggilegan stað fyrir okkur.
Sigurður Þór Guðjónsson, 6.12.2010 kl. 14:45
Sæll Einar,
Ég er að vinna við virkjanaframkvæmdir á vesturströnd Grænlands rétt norður af Ilulissat á 69.3°N (um 350 km norðan við heimskautsbaug). Hér hefur varla komið frost svo heitið geti í mánuð eða svo. Gekk upp á fjall á mánudaginn 29.nóv alveg upp við jökulinn. Fékk í fangið SV vind ca. 15-17m/sek og ca 6° til 8° hita beint af jökli. Er þetta afbrigðilegt veður fyrir staðsetningu og árstíma ?
1-2° frost núna.
Stefán Már Ágústsson (IP-tala skráð) 7.12.2010 kl. 07:21
Sæll Einar. Hér er tengill á útdráttinn úr alveg nýrri grein í Tellus þar sem fjallað er um tíðni fyrirstöðuhæða á þessu svæði í ERA-40 gagnasafninu. Greinin er opin í landsaðgangi.
http://onlinelibrary.wiley.com/doi/10.1111/j.1600-0870.2010.00492.x/abstract
Trausti Jónsson, 7.12.2010 kl. 21:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.