12.12.2010
Hvernig vega skal tímabil með háþrýstingi ?
Gefin eru út mánaðarmeðaltöl loftþrýstings fyrir hverja stöð, rétt eins og gildi hita og fleiri þátta. Stundum er áhugavert að skoða skemmri meðaltöl en þau sem ná til heilla mánaða. Ég er ekki að tala um útgildi, þ.e. tilvik hárra eða lágra mælinga eða tímabil sveiflna sem vara í aðeins tvo til þrjá daga. Heldur frekar nokkurra daga eð vikna tímabil þar sem veðurlag helst svipað og með áþekkum einkennum.
Fróðlegt er að bera saman þann kafla sem hófst hjá okkur 20. nóvember og hefur að mestu varað síðan, við eitthvað sem kallast má sambærilegt veðurlag. Þessi kafli hefur einkennst af háum loftþrýstingi, en þó hefur loftvogin ekki staðið mjög hátt allan tímann.
Ég prófaði að taka 20 daga meðaltöl loftvogarinnar fyrir hvern dag og skoða hvers löng slík tímabil verða þar sem loftvogin stendur í a.m.k. 1020 hPa að jafnaði þessa 20 daga. Þessi aðferð er alfarið heimasmíðuð. Allt eins má reikna 10 daga meðaltal og telja samfellur með 1030 hPa o.s.frv.
Að haustlagi og í vetrarbyrjun, þ.e. í október, nóvember og desember hafa á síðustu 60 árum (frá 1949) komið fyrir í Reykjavík örfáar slíkar háþrýstisamfellur þar sem meðalloftvog hefur í 20 daga verið yfir 1020 hPa. Þessar eru helstar:
- 1965 (nóv)
- 1985 (nóv)
- 1993 (okt)
- 1995 (nóv)
Í dag 12. desember hefur 20 daga samfella með 1020 hPa varað í 10 daga í Reykjavík (12 í Stykkishólmi). Myndin sýnir einmitt 20 daga afturvirkan meðalþrýsting. Þetta slær út lengsta tímabilið til þessa (gögnin ná aftur til 1949) sem var í nóvember 1965.
Háþrýstiskeiðið nú er því orðið það lengsta að haustinu og í vetrarbyrjun í a.m.k. 60 ár. Ef við tökum með janúar og febrúar sem ekki er óeðlilegt kemur í ljós að bæði í febrúar 1965 og í janúar-febrúar 1963 voru talsvert lengri 1020 hPa samfellur og sú 1963 varði í 40 daga. Í dag er enn er spáð háum loftþrýstingi og því ættu einhverjir dagar að bætast við, þó líkast til nái þeir ekki lengd háþrýstikaflans 1963. Báðir þessir löngu kalfar með háum loftþrýstingi að vetri voru í aðdraganda hafísáranna svokölluðu, en hafís varð landfastur fljótlega í kjölfar háþrýstikaflans í febrúar 1965.
Ekki er rétt að taka mars til maí inn í þrýstingssamanburð sem þennan, en þá og einkum þegar kemur fram á vorið er loftþrýstingur að jafnaði hvað hæstur hér á landi. Það er vegna þess að kalt og þungt heimskautaloftið nær þá mestri fyrirferð og tiltölulega hár loftþrýstingur mælist því svo dögum og vikum skiptir. Það eru semsagt allt aðrar aðstæður sem valda háum mældum loftþrýstingi þá en að haustinu eða um miðjan vetur.
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.