Hápunktar ársins 2010 í veðrinu

versl_m_helgi_2010_001.jpgHið nýliðna ár 2010 markar talsverð spor í veðurfarssögu landsins eins nú fram hefur komið í fréttum.  Annað eins metaár hefur ekki orðið í mínu veðurminni, nema ef vera skyldi árið 1979, sem allt var á kuldahliðinni.

Ég hef tekið saman nokkur atvik eða meðalgildi veðurþátta sem mér finnast hvað merkilegust fyrir þetta sögulega ár.

  • Á Akureyri mældist úrkoma í janúar innan við 1 mm.  Slíkt er algert einsdæmi að vetrarlagi.  Þó voru alhvítir dagar 24 talsins, þökk sé fannfergi jólanna frá fyrra ári, því sá snjór hélst langt fram eftir mánuðinum.
  • Óvenjulega langur samfelldur þíðukafli í janúar.  Í Reykjavík var ekki frostdagur frá 8. til 28. janúar.
  • Sérlega snjólétt var suðvestan- og vestanlands um miðbik vetrarins.  Þannig var alautt sums staðar samfellt í vel á annan mánuð.
  • Mjög mikið snjóaði á skömmum tíma syðst á landinu 25. og 26. febrúar og mældist snjódýptin 100 sm í Vík í Mýrdal eftir að slotaði.
  • Maímánuður var óvenju hægviðrasamur og meðalvindhraði á landinu aldrei verið lægri.  Einnig var hlýtt og ekki mælst mildari maí á Hveravöllum (frá 1966) en nú.
  • Sumarbyrjunin var sérlega hagfelld og góðviðrið nánast einstakt.  Í júní voru slegin meðaltalsmet mánaðarins bæði í Reykjavík og í Stykkishólmi.
  • Sumarið (júní-september) var það hlýjasta sem sögur fara af eða frá upphafi mælinga í Reykjavík og Stykkishólmi.  Eftir því var tekið hvað sumarið var allt jafnhlýtt, engin sérstök kuldahret og heldur ekki hitabylgjur sem orð er á gerandi.  Í því ljósi vekur það athygli að hæsti mældi hiti sumarsins náði ekki nema 24,9°C á Möðruvöllum í Hörgárdal og sá dagur kom ekki fyrr en í september.
  • Dagurinn 10.10.10 eða 10 október var mörgum mjög eftirminnilegur sökum óvenjulegra hlýinda orðið þetta áliðið.  Einkum þótti hlýtt á fjöllum þar sem hitinn komst í rúm 17 stig í tiltölulega hægum vindi.  Loftið yfir landinu var reyndar komið langt sunnan að og af hálfgerðum hitabeltisuppruna.
  • Veðrabrigðin um og upp úr 20. október voru snögg og segja má að landinu hafi verið kippt úr löngu og góðu sumri beint inn í veturinn.  Eiginlegt haustið eins og við þekkjum það var því heldur stutt, sumir mundu segja að  það hafi farið hjá þetta árið.
  • Loftþrýstingur hefur aldrei mælst hærri að jafnaði hér á landi og árið 2010.  Þó ná mælingar aftur til ársins 1822.  Þetta met sætir miklum tíðindum og af óvenju mörgu því sem merkilegt má teljast á árinu 2010 stendur þetta upp úr að mínu mati ásamt sumarhlýindunum.
  • Árið í heild sinni var í flokki þeirra þurrustu á landinu.  Sérstaklega var ársúrkoman lítil á Suðvestur- og Vesturlandi.  Beint samhengi er á milli hins óvenju háa loftþrýstings og lítillar úrkomu ársins.
(myndin er fengin frá Guðbrandi Þorkeli Guðbrandssyni og er tekin á Snæfellsnesi norðanverðu í áttina að Snæfellsjökli 7. ágúst 2010)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Sigurðsson Diego

Gaman að lesa þetta. Takk fyrir.

Hörður Sigurðsson Diego, 4.1.2011 kl. 02:25

2 identicon

Skemmtileg samantekt hjá þér Einar yfir veðurfarslega gott ár  .

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 4.1.2011 kl. 08:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 61
  • Frá upphafi: 1788779

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 57
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 9

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband