Slöpp frammistaða í Útsvari

Rúv_utsvar_14jan2011.pngDatt inn í endursýningu á Útsvari RÚV frá því í gær á meðan ég var að bíða eftir kvöldfréttunum.  Þar áttust við lið Hafnarfjarðar og Norðurþings.  Liðin voru í miðjum klíðum í flokkaspurninganna þegar ég kom inn og síðasti flokkurinn Spámenn reyndist vera getgátur um veðurfræðinga Sjónvarpsins.  Fyrst birtist Kristín Hermannsdóttir, þá Einar Magnús Einarsson og að síðustu Hálfdán Ágústsson.  Hann var fimm stiga virði og átti samkvæmt því að vera erfiðastur viðfangs. Öll þrjú hafa flutt veðurfréttir í sjónvarpi í nokkur ár, en  Kristín lengst, sennilega í bráðum áratug (kannski þess vegna sem fékkst aðeins 1 stig fyrir að hafa upp á henni).  Skemmst er frá því að segja að þátttakendurnir sex í þessum útsvarsþætti voru algerlega út á þekju í þessum lið og gekk svarrétturinn fram og til baka á meðan svörin voru út í hött, þar til í lokin að einhver nefndi nafn Hálfdáns án þess að hafa föðurnafnið og fékkst því ekkert stig. 

Ég varð nú hálfklumsa við þessa frammistöðu. Sigmar þáttastjórnandi hafði á orði að þetta sýndi kannski stöðu veðurfregna í dag að enginn þekkti nein deili á þeim sem flytja veðrið í Sjónvarpi, dagskrárlið sem hefur allmikið áhorf. 

Þó ég hallist helst að því að einmitt þessir keppendur fylgist minna með veðri í sjónvarpi en aðrir landsmenn, að þá getur ástæða blankheitanna legið í öðru. Því að einmitt þessi þrjú: Kristín, Hálfdán og Einar Magnús halda sjálfum sér til hlés og renna bókstaflega inn í veðrið sem þau vilja svo gjarnan lýsa á sem greinarbestan hátt.  Fyrir vikið verða þau ekki nöfn á skjánum heldur meira ek. veðurandlit.  

Sjálfum finnst mér þau gera þetta vel og setja veðurspána fram á skýran og skiljanlegan máta fyrir fólk flest. Og þó ég fái stöku sinnum enn upphringingar þeirra vegna (eða hinna, Halla, Tedda og Ásdísar) þess efnis að staðið sé fyrir Austfjörðum að þá held ég að sjónvarpsveðrið sé nokkuð gott ef mið er tekið af þessum þrönga og á köflum einhæfa (og stundum leiðigjarna) stakks sem formið setur veðurfræðingunum í Sjónvarpi RÚV.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Það hefði kannski einhver munað eftir þeim ef þau hefðu tekið sér upp nick eins og Kristín Kaldi, Einar andvari og Hálfdán Haglél?

TómasHa, 16.1.2011 kl. 00:07

2 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

tja ekki veit ég það, ég var gersamlega ekkert hissa á þessu, ég man varla eftir því að hafa séð neitt þeirra fyrr. Enda fletti ég veðrinu upp á netinu og hef gert til fjölda ára (aðallega yr.no) þannig að ég þekkti heldur ekki andlitin, þvert á það sem Sigmar og Þóra töluðu um. Hugsa að svona sé farið um marga.

Halla myndi ég þekkja - en það er bara vegna þess að ég þekki hann annars staðar frá :þ

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 16.1.2011 kl. 00:23

3 identicon

Getur verið að þetta hai eitthvað með að gera ,,mennunarstig" fólksins ?

Bóndi eða verkamaður hefðu þekkt þetta fólk !

Þetta er mín kenning !

Háskólamenntað fólk er alltof upptekið af sjálum sér og sínum kolleggum !!!

JR (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 01:57

4 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Einar.

Ég horfi á veðurfréttir beggja stöðvanna og hef gert svo frá byrjun, nánast daglega. Ekki gæti ég þó nefnt nafn þessa fólks, fyrir utan Tedda en það er vegna óbeinna ættartengsla.

Staðreyndin er að nöfn verða ekki kunn af veðurskýringum einum saman, fleira þarf til. Eitt sinn var ég á gangi í Reykjavík. Þar mætti ég manni og heilsaði honum um leið og ég gekk framhjá. Ég þekkti manninn, það vissi ég, en gat engvan veginn munað hvernig. Um kvöldið rann upp fyrir mér ljós, þá mætti Trausti á skjáinn og flutti okkur veðurfréttir. Hann var þá nýlega byrjaður og þetta atvik varð til þess að ég mundi nafn hans vel eftir það. Hann varð reyndar kunnur flestum af nafni sínu þegar á leið.

Þeir veðurfréttamenn sem hafa komið með ýmsan aukafróðleik í veðurfréttirnar og gert hann að einskonar fræðsluþætti, eru líklegri til að verða nafnkunnir en þeir sem eingöngu útskýra spánna, jafnvel þó vel sé gert. Trausti var sennilega fyrstur til að gera þetta, en síðan hafa margir góði komið á eftir og orðið vinir þjóðarinnar. Það yrði of langt mál að telja þá upp, en þú veist hvað ég á við.

Oft heyrðist að þetta væri óþarfa spjall í þessum mönnum, þeir ættu bara að segja frá spánni. En samt urðu einmitt þeir nafnkunnir en ekki þeir sem eingöngu segja spánna.

Sjálfur hef ég mjög gaman af öllum fróðleik um veður og vildi sjá miklu meira um slíkan aukafróðleik í veðurfréttatímanum. Við lifum jú á Íslandi, þar sem veður skiptir miklu máli og fjölbreytnin er mikil. Einn veðurdagur hjá okkur getur verið fjölbreyttari en mörg ár víða annarsstaðar í heiminum.

Gunnar Heiðarsson, 16.1.2011 kl. 07:38

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er ekki tími til að koma með neinn fróðleik í veðurfréttunum. Stakkurinn er svo þröngur eins og Einar segir og hefur verið þrengdur gegnum árin. Og ég held að fólk fatti einfaldlega veður verr, t.d. veðurmerkingar á kortum, núna heldur en fyrir heilum 30 árum. Veðurmenningu á Íslandi fer aftur! Hitt er annað mál að netið er kannski handhægari vettvangur fyrir veðurfræðslu en sjónvarpið. Svo man ég aldrei eftir neinu almennu ''spjalli'' hjá veðurfræðingum í sjónvarpi heldur hafa þeir verið að koma með mikilvægan fróðleik sem kemur veðrinu við. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.1.2011 kl. 14:31

6 identicon

Æi, skýringin er nú einfaldari og ástæðulaust að fá einhvern móral út af henni. Fólk horfir einfaldlega ekki lengur á RÚV-sjónvarp. Aðrar sjónvarpsstöðvar eru einfaldlega áhugaverðari og þeir fáu einstaklingar, sem gera sér einhverja rellu út af veðri og veðurspám, sækja þær í tölvurnar sínar.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.1.2011 kl. 15:36

7 Smámynd: HP Foss

Uss, ég hef séð meri sem var klumsa og þykist vita hvernig þér hefur liðið þarna :)

HP Foss, 16.1.2011 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1788782

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband