Snjór hefur merkilega eiginleika

akureyri16012011_Ingibjörg_Jónsdóttir.jpgÞurr og nýfallinn snjór í frosti hefur sáralitla samloðun.  Hann fýkur auðveldlega og skafrenningur í talsverðum vindi myndar kóf snjókristalla.  Um leið og bleyta kemst í snjóinn (líka ef hann féll sem blautur snjór), breytist samloðunin frá því að vera afar lítil yfir í það að verða  mikil.  Vatn tengir þá og heldur saman endum ískristallanna.  Um leið og vatn kemur við sögu umbreytist snjórinn líka hratt.

Myndin sem hér fylgir var tekin á Akureyri  sl. sunnudag 16. jan. (Ljósm. Ingibjörg Jónsdóttir)  Eins og menn muna snjóaði allmikið framan af fyrri viku og víðast var þó nokkur snjór á húsþökum.  Sá snjór féll (eða skóf) í eindregnu frosti og hann var því laus í sér.  Á laugardag var skyndilega komin væg hláka.  Eitthvað bráðnar við snertinguna við mildara loftið og vatn hripar niður í snjóþekjuna.  Um leið sígur snjórinn samann og eðlisþyngdin eykst.  Með tilkomu vatnsins er samloðun sem lítil var fyrir í fönninni skyndilega orðin mikil.  Á sama tíma er upphitað íbúðarhúsið að bræða snjó sem fyrstur féll á þakið.  Varminn frá þakinu er þannig nægur til umbreyta snjónum  og mynda ís á snertifleti þaksins.  En þegar vatn tekur að hripa í gegn vegna bráðnunar að ofan verður með tímanum vatnsósa ís eða krapi allra næst yfirborði eða við þakjárnið. Viðnámið minnkar og snjórinn tekur að skríða  eða "fljóta" undan hallanum.

Samloðunin er þá orðin það mikil að það sýnist sem samofið teppi renni fram af þakbrúninni.  Þegar myndin var tekin á sunnudag, hafði reyndar fryst aftur, en best gæti ég trúað að þetta "umhverfislistaverk" hafi þegar verið fullmótað að mestu daginn áður þegar hitinn var enn rétt yfir frostmarki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Í Þingeyjasýslum loðir snjórinn miklu betur saman en þetta. En annars veist þú ekki  hvað fólkið þarna á efri hæðinni hefur verið að gera upp á síðkastið? Það gæti skýrt ýmislegt og t.d. viðloðun snæs.

Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 20.1.2011 kl. 07:55

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Ertu að gefa í skyn að Þingeyskur snjór sé loftminni snjó Vilhjálmur ?  Og tollir þess vegna betur saman ?

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 20.1.2011 kl. 09:15

3 identicon

Í þessu tilfelli giska ég á að einangrun í þakinu sé ekki nógu góð, þannig að snjórinn bráðnar neðan frá og blotar í honum við járnið, þegar hann kemur fram af þakinu frís blotinn aftur og bindur hengjuna saman.

Arnar (IP-tala skráð) 20.1.2011 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband