26.1.2011
"Öfug" hringamyndun
Oft má sjá á tunglmyndum hvernig lægðir snúa rangsælis umhverfis sig einum til tveimur skýjahringum. En fátíðara er að sjá slíkar myndanir við háþrýstisvæði. Bæði er það svo að vindar eru hægari umhverfis háþrýsting og líka það að niðurstreymi vinnur nokkuð vel á skýjunum sem leysast upp fyrir vikið.
Sú sérkennilega sjón er nú upp þetta kvöldið þar sem greina má skýjasnúð réttsælis umhverfis víðáttumikla hæð sem nú er suður af Íslandi (SEVIRI -hitamynd kl. 23, 25. jan.2011, Brunnur VÍ). Frá Grænlandi má sjá skýin til austurs og ógreinilegar suður Noreg, yfir sunnanverðar Bretlandseyjar og aftur þaðan til norðvesturs og norðurs í áttina að miðju hæðarinnar. Vitanlega er snúðurinn ekki jafn fastur í forminu og þegar um lægð er að ræða, en engu að síður er hann þarna til greinilega staðar !
Hátt uppi í lofthjúpnum á slóðum skotvindsins í 300 hPa hæðinni (um 9 km) mátti sjá á korti (Brunnur VÍ) fagurlaga fyrirstöðuhæð sem kennd er við bókstafinn Ómega í gríska stafrófinu. Skotvindurinn sveigir langt fyrir norðan land og þaðan til suðausturs. Á sama tíma liggur Ísland vel inni í heittempruðu lofti og hæðin suður undan er í aðalhlutverki. Ómega fyrirstöðuhæðin er hægfara á leið til austurs og vestur- "leggurinn" nær landinu seint á morgun og svalara loftið þar vestur af í kjölfarið.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 00:34 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 6
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1788787
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Svo er að sjá að yfir eyjasvæðinu norður af Kanada sé núna gríðarmikill kuldapollur. Vísast er allt eðlilegt við hann http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html
En okkur hér á Húnaflóasvæðinu er óneitanlega uggur í brjósti þegar vestanáttir eru dögum saman ríkjandi á sundinu milli Íslands og Grænlands. Þær hafa þegar staðið nógu lengi til að hafa áhrif á hafísinn og tæta úr honum til austurs, að maður tali nú ekki um ef þær eiga eftir að standa a.m.k. viku í viðbót.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 26.1.2011 kl. 11:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.