Hofsjökull rýrnar

Í Morgunblaðinu í dag er talsverð umfjöllun um rýrnun jökla og talað við Þorstein Þorsteinsson á Veðurstofunni.  Mælingar á Hofsjökli nýverið gefa til kynna talsverða rýrnun hans.  Að vísu er vetrarákoma þennan veturinn talsvert meiri en að jafnaði frá upphafi sambærilegra mælinga 1988. Þá verður að hafa í huga að ákomutímabilinu er ekki lokið og hæglega getur bætt á jöklanna ef gerir kalda tíð með úrkomu, þess vegna langt fram í júní.

Morgunblaðið_12_maí_2011.jpgSíðasta sumar var leysing með allra mesta móti og ársafkoma jökulsins nam  -2,4 metrum í vatnsgildi.  Það er mesta rýrnun Hofsjökuls frá því 1988.  Í Sjálfu sér var ekkert tiltakanlega hlýrra en lengra leysingatímabil í fyrrasumar en t.a.m. 1991, 2003, 2004 eða 2008 sem öll voru væn sumar hvað meðalhita áhrærir.  En hjá Þorsteini og félögum kemur fram að þunn öskudreif frá Eyjafjallajökil skipti sköpum.  Askan drekki í sig sólarljósið og bræði frá sér í gríð og erg.  Hætt er við að margir jöklar hafi tapað miklu síðasta sumar vegna þessa. Á hájöklum er askan hins vegar komin á kaf í nýrri snjó og aðeins neðantil á þeim, neðan snælínunnar kemur hún aftur í ljós eftir því sem vetrarsnjóinn leysir. Miklu skiptir fyrir afkomuna, hvað sem tíðinni að öðru leyti áhrærir í sumar að það geri vorhret með talsverðum nýjum snjó í sumarbyrjun.  Mörg dæmi eru um að slík stök hret seinki upphafi leysingartímans á jöklum mikið því nýsnævi endurkastar megninu af geislum sólar. Höfum það líka hugfast að geislun sólar er mest snemma sumars (á sumarsólstöðum) og það dregur hratt úr bráðnun af hennar völdum þegar frá líður þó enn sé sumarhiti.

Á meðfylgjandi ágætri skýringarmynd sem fylgdi umfjöllun Morgunblaðsins sést að afkoma Sátujökuls er búin að vera neikvæð öll árin frá 1995. Á þeim tíma hefur Hofsjökull í heild sinni tapað um 5% af rúmmáli sínu að því að menn áætla. Við sjáum að vetrarákoman sveiflast ekki sérlega mikið og þó, hún er frá því að vera 1 til 2 metrar í vatnsgildi.  Hins vegar er sumarleysingin afar sveiflukennd.  Sumurin 1992 og 1993 var leysingin lítil sem engin og það réði mestu um það að  búskpurinn var þá jákvæður.  Fyrra sumarið gerðu eftirminnilegt norðankast um Jónsmessuna (23.-24. júní) og talsvert snjóaði þá til fjalla.  Það síðara, 1993, var allt fremur svalt og að auki gerði kaldan kafla um og eftir miðjan júní með ákomu á flestum jöklum.  Reyndar snjóði nokkrum sinnum í hæstu fjöll allt þetta sumar, sem er það síðasta sem kalla má að hafi verið kalt hér á landi.

Afkoma jöklanna ræðst af nokkrum þáttum en mestu skiptir vissulega ákoman, auk hita að sumri og máttur sólgeislunar til bræðslu jökulíssins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 1788778

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband