Enn betri slóð til að fylgjast með hæð gosmakkarins

max_480.max_dBZ_201105220030

Komið hefur fram í viðtölum við sjónarvotta og eins á óvenju skýrum ljósmyndum af jörðu niðri sem sýna gosmökkinn að hann er tvískiptur. Hið efra er hann hvítur á að líta, líkast til nánast hrein vatnsgufa, en neðantil er gjóska. Vindur er hægur í lofti um þessar mundir og það sem meira er að vindátt tekur breytingum eftir því sem ofar dregur.  Þannig berst gufan til austurs eða austsuðausturs á meðan gjóskan í lægri lögum er á leið til suðvesturs og jafnvel vesturs.  Þarna á milli gufunnar og gjóskunnnar neðar er gríðarlegur spennumunur í og eldingar skjótast ört á milli laga. Það hafa eldingamælingar sýnt glöggt í kvöld.

Veðurstofan hefur nú bætt við möguleikum á frekari ratsjármyndum og sú sem hér fylgir sýnir lóðsnið í jöðrum þeirra að auki. Gufumökkurinn hefur greinilega verið að mælast í um þetta 15 til 16 km hæð.  Með öðrum orðum að þá hefur hann náð að brjóta sé leið upp í gegn um veðrahvörfin sem í dag hafa verið í um 29 þús fetum eða í um 9 km hæð.  Slíkt gerist aðeins í eldgosum sem byrja með talsverðum látum.  Þó skal hafa í huga að hvass vindur efra heldur niðri gosmekki eins og þessum, en slíkum vindi var vart að dreifa í dag.   Ef mér skjöplast ekki held ég að mökkur í eldgosi hafi ekki farið svo hátt hér á landi frá því í Heklu 1947 !  Við heyrum þó betur frá samanburðarfræðingunum um þá hluti á morgun.

Slóðin á síðu Veðurstofunnar þar sem má fylgjast með hæð gosmakkarins séð með ratsjánni er þessi:

http://www.vedur.is/vedur/athuganir/vedurradar/#teg=radarisl 

Ratsjármyndin hér er frá kl. 00:30 (22. maí) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 49
  • Frá upphafi: 1788782

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband