10.6.2011
Hofsjökull og veðurfarsbreytingar
Öllum er vel kunnugt að jöklar eru sérlega næmir fyrir veðurfarsbreytingum, þeir vaxa þeger mikið snjóar og rýrna þegar sumur verða hlý og löng. Engin ný sannindi þarna á ferðinni, en Málfríður Ómarsdóttir hefur skoðað fylgni á milli jökulssporðabreytinga á Hofsjökli og veðurfarsbreytinga á Íslandi.
Ég var annar af leiðbeinendum Málfríðar í þessu meistaraverkefni hennar við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Mælingar á jökulsporðum er einföld en áhrifarík leið til að varpa ljósi á tengsl jöklabreytinga og loftlagsbreytinga. Málfríður tók fyrir og reiknaði víxlfylgni milli sporðabreytinga Nauthagajökuls og Sátujökuls, sem eru skriðjöklar úr Hofsjökli, og veðurfarsbreytanna sumarmeðalhita og vetrarúrkomu, á þremur veðurstöðvum: Hveravöllum, Stykkishólmi og Hæli í Hreppum.
Niðurstöðurnar sýndu ekki mikla fylgni milli jökulsporðabreytinganna og breytileika í sumarhita en þó var hún marktæk á öllum veðurstöðvunum þremur. Mjög lítil fylgni var hinsvegar milli breytinga jökulsporða og breytileika í vetrarúrkomu og var hún ekki marktæk. Sátujökull skar sig úr í fylgniútreikningum og var erfitt að útskýra sumar niðurstöðurnar. Ástæða þess gæti verið skortur á mælingum en þær hófust árið 1983 en árið 1932 á Nauthagajökli. En einnig eru vísbendingar um að hann sé framhlaupsjökull og henti því síður í rannsókn sem þessa.
Málfríður sagði sjálf að hún hefði svona eftir á að hyggja viljða skoða og bera saman fleiri jökulhettur en á Hofsjökli, Engu að síður styður rannsóknin aðrar sem gerðar hafa verið á jöklum annars staðar að lega jökulsporða og breytingar á þeim ræðst mjög af sumarhitanum, en síður af vetrarúrkomunni. Afkoma jöklanna er síðan annar kapítuli og þar er ákoman ekki síður mikilvæg en sumarleysingin. Hlý sumur undanfarins áratugar hafa þó mátt sín meira eins og sagt var frá hér fyrir skemmstu.
Á myndinni eru Málfríður sem hér með er óskað til hamingju með einkar áhugavert verkefni og aðal kennari hennar Ólafur Ingólfsson.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 6
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1788787
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 50
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.