14.6.2011
Hæg sumarkoma í Mývatnssveit
Guðbrandur Þorkell Guðbrandsson, sem duglegur hefur verið að koma með athugsemdir hér á veðurblogginu, sendi mér myndir úr Mývatnssveit. Hann var þar á ferðinni um hvítasunnuhelgina. Eftirfarandi lýsing fylgir frá honum: " Sumarið er komið skammt á veg austan Eyjafjarðar. Gríðarlegt kal í túnum og á laugardaginn var birkikjarrið í Mývatnssveitinni sáralítið farið að laufgast."
Á myndinni sem tekin er úr Námaskarði til vesturs eða öllu heldur rétt norðan við vestur. Kinnarfjöllin blasa við í fjarska eins og jökull væri og Ljósavatnsskarð sker sig í fjallgarðinn. Vatnið sem sést er Kringla og var áður hráefnisþró fyrir Kísiliðjuna. Takið eftir því að úthaginn er heiðgulur og lítið ber enn á grænum lit á kjarrinu og lyngmóunum sem sér vel í framan og ofan við Kringluvatn. Hins vegar er komið barr á lerkitréin við húsið sem glittir í við vatnsbakkann.
Á mæli Veðustofunnar á Neslandatanga við Mývatn er meðalhitinn nú þegar mánuðurinn er að verða hálfnaður 4,2°C. Meðaltalið í Reykjahlíð er 8,3°C fyrir júní. Þá er verið að miða við "kalda" meðaltalið 1961-1990. Á bak við töluna 8,3 eru nokkur hafísvor og önnur með ótíð af völdum sjávarkulda sem heimamenn minnast enn með hryllingi. Hafa ber þó í huga að ekki er verið að bera saman nákvæmlega sama staðinn hér og getur verið einhver munur. Hann er þó samt ekki ráðandi.
Spáin er svo sem heldur ekki upplífgandi, svalur vindur af norðaustri verður ríkjandi næstu daga með hita þetta 4 til 6 stig lengt af. Hins vegar er spáð heldur hagstæðari veðri um og upp úr helginni. Svo sem engin S-átt, en hægviðri, sólríkt og heldur hlýrra loft yfir en verið hefur.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 11:47 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 15
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 1788783
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Tek fram að textinn um örnefnin er ekki frá mér kominn, ég þekki einfaldlega ekki nógu vel til. Hinsvegar held ég að skarðið, sem sést á þessari mynd, sé ekki Ljósavatnsskarð.
G. Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 12:17
Sælir. Ljósavatnsskarðið er lengst til vinstri, vinstra megin við gufumökkinn þar sem snjóleysið er. Hin "skörðin" sem sjást í fjallgarðinn munu vera Finnsstaðadalur og Gönguskarð.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 14.6.2011 kl. 13:13
Friðrik Dagur var búinn að rýna í myndina hans Þorkels með mér og náði ég að rugla saman skörðunum. Sést vel þegar skoðað er að snjór er í Gönguskarði, svo það hefði seint aðeins þess vegna getað verið Ljósavatnsskarð !
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 14.6.2011 kl. 20:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.