Hornvík upp úr sumarsólstöðum

Líkt og síðustu tvö ár var ég á þvælingi norður á Hornströndum á Hornvík_23júní2011.jpgþessum tíma sumars, þ.e. upp úr sólstöðum.  Umhverfið þá og nú var gjörólíkt.  Ragnar Jakobsson í Reykjarfirði sagði mér í fyrra að hann myndi ekki jafn lítinn snjó í fjöllum um þetta leyti (sjá færslu þá hér).  Komst ekki í Reykjarfjörð að þessu sinni til samanburðar, en manni duldist ekki hvar sem farið var að andstaðan er algjör og nú er mikill snjór ofan þetta 300-400 metra hæðar. Í 100-200 metra hæð hafði snjó alveg nýlega leyst í mörgum hallanum þar sem brún og blaut jörðin bar þess glögg merki.

Hér eru tvær myndir.  Af þeirri fyrri er horft af öxl Miðfells við Hornbjarg suðvestur yfir Hornvíkina (23. júní 2011).  Hnúkarnir fyrir botni víkurinnar eru sem jökull að sjá.  Þeir eru í um 600-700 metra hæð og skilja að Veiðileysufjörð og Lónafjörð í suðri.  Hornbærinn kúrir vestan við víkina og þar eru gömlu túnin búin að fá á sig grænan lit.  Annars er fátt sem minnir á sumar.

Ætihvönn_Hornvík_23júní2011.jpgHin myndin sýnir kraftinn í hvönninni.  Snjó hefur varla leyst, en ljósið nær í gegn um þunnan skarann og ætihvönnin í þýðum jarðveginum bregst við og brýtur af sér klakaböndin í orðsins fyllstu merkingu. Þó slakki þessi hafi snúið mót norðvestri er sólin hátt á lofti um þessar mundir og nær til flestra staða með birtu sína.  Lágur lofthitinn, þetta 4 til 6°C virðist lítil áhrif hafa þegar hvönnin er annars vegar.  Fái hún ljós og jarðvegur ekki freðinn vex hún ákveðið og kærir sig kollótta um svalann sem leikið hefur um norðanvert landið að undanförnu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg undarleg tíðin þessar vikurnar, ég held að veður "blásararnir" séu fastir á norðan og norðaustan. Nú rignir eins og hellt sé úr fötu hérna á neskaupstað og ekki útlit fyrir annað en vætutíð næstu 8-10 daga sýnist mér.

Hlynur Sveins (IP-tala skráð) 27.6.2011 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 1788778

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband